Mjölnir Open ungmenna fer fram í dag í húsakynnum Mjölnis. Rúmlega 120 keppendur eru skráðir til leiks en keppt er frá 5 til 17 ára aldurs.
Þetta er stærsta ungmennamót í sögu íþróttarinnar hér á landi en keppendurnir koma frá fimm félögum. Keppt er í nogi glímu (án galla) og hafa margir af færustu glímumönnum- og konum landsins tekið sín fyrstu skref á þessum mótum.
Fjöldi keppenda er til marks um uppgang íþróttarinnar hér á landi en svipaðan fjölda mátti sjá á Íslandsmeistaramóti barna- og unglinga í fyrra.
Mótið hefst kl. 11 í dag og stendur fram eftir degi. Engin uppgjafartök eru hjá yngstu kynslóðinni en eldri hóparnir mega nota þessi helstu uppgjafartök. Ókeypis er á mótið fyrir áhorfendur.