Santiago Ponzinibbio vill mæta Rafael dos Anjos í fyrstu heimsókn UFC til Argentínu. Dos Anjos hefur þó engan áhuga á að ferðast þessa dagana en hann á von á sínu þriðja barni.
Santiago Ponzinibbio átti að mæta Kamaru Usman á UFC bardagakvöldinu í Síle í maí. Ponzinibbio meiddist hins vegar á þumalfingri en hefur jafnað sig á meiðslunum og leitar nú að næsta bardaga.
Í þætti Ariel Helwani á mánudaginn kallaði hann dos Anjos dívu fyrir að vilja ekki berjast við sig. „Ég vil fá Rafael dos Anjos. Ég er að bíða eftir honum en ég held að hann sé hræddur við að berjast við mig í Argentínu. Hann segist vilja berjast í nóvember og ég er að gefa honum bardaga,“ sagði Ponzinibbio.
UFC hyggst heimsækja Argentínu í fyrsta sinn þann 17. nóvember. Argentínumaðurinn Ponzinibbio verður líklegast í aðalbardaga kvöldsins og vill helst fá Brasilíumanninn Rafael dos Anjos. „Er hann bardagamaður eða díva? Ég er farinn að halda að hann sé díva. Hann segist vilja berjast hvar sem er, af hverju ekki í Argentínu? Hann er kannski hræddur.“
Rafael dos Anjos er þó með nokkuð rökrétta ástæðu fyrir því hvers vegna hann vill ekki berjast í Argentínu.
„Mér er sama við hvern ég berst við, ég vil bara ekki fara frá fjölskyldunni. Fjölskyldan er í forgangi. Ég get ekki skilið konuna mína eftir með börnin. Hún fer í keisaraskurð eftir mánuð og þarf mína aðstoð. Ég get ekki yfirgefið fjölskylduna og barist í öðru landi langt að heiman,“ sagði dos Anjos við MMA Junkie en hann býr í Las Vegas.
Dos Anjos hefur verið duglegur að berjast víðs vegar um heiminn en á síðustu árum hefur hann barist í Singapúr og tvisvar í Kanada en nú vill hann fá að berjast í Bandaríkjunum.
„Ponzinibbio er með mikil læti, segjandi að ég sé hræddur við að berjast við hann í Argentínu. Ég er ekki hræddur, ég bauð honum að koma og berjast við mig í æfingasalnum hér í Las Vegas. Ég bara vil ekki fara í 18 tíma flug, jafnvel Brasilía er of langt í burtu. Ég vil ekki yfirgefa fjölskylduna svo lengi. Ég vil berjast í Bandaríkjunum.“