spot_img
Sunday, December 22, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeForsíðaSighvatur: Fannst ég frekar kúl þegar ég gerði mitt fyrsta closed guard

Sighvatur: Fannst ég frekar kúl þegar ég gerði mitt fyrsta closed guard

Sighvatur Magnús Helgason er einn allra besti glímumaður landsins og sýndi það um síðustu helgi. Þá vann hann allar glímurnar sínar á Mjölnir Open 12 og fór heim sem tvöfaldur meistari.

Sighvatur vann -99 kg flokkinn og opinn flokk karla á mótinu en Sighvatur er svart belti undir Gunnari Nelson og hefur æft glímu í meira en áratug. Hann stundar nú meistaranám í lögfræði við Háskóla Íslands og hefur því minni tíma til að æfa nú en hann gerði áður.

„Fyrir þetta þetta mót náði ég í sjálfu sér ekki að æfa mjög mikið útaf prófalestri og öðru. En ég hef æft mjög mikið í gegnum tíðina og ég hef náð að halda því við,“ segir Sighvatur.

„Ég æfi glímuna frekar óreglulega þessa dagana og er ekki alveg með það á hreinu hvað ég mæti oft. Það koma tímabil þar sem ég mæti vel og önnur þar sem ég mæti illa. Ég hreyfi mig samt frekar mikið almennt og tek líklega þrjár til fjórar krefjandi líkamsæfingar í viku. Það geta verið lyftingar, sund, glíma eða eitthvað annað.“

Þegar Sighvatur keppir reikna flestir með að hann sigri mótið enda einn besti glímumaður landsins. En finnur hann fyrir mikilli pressu? „Mig langar auðvitað alltaf að vinna þegar ég tek þátt og finn þá fyrir pressu frá sjálfum mér um að ná því marki. Veit samt ekki hvort ég finni fyrir pressu frá öðrum, nema kannski Jósepi,“ segir Sighvatur léttur.

„Ég verð alltaf stressaður fyrir keppni og held bara að stressið sé gott. Það lætur mann vilja passa sig meira og taka ekki óþarfa áhættur í glímunum en getur reyndar líka gert mann stífan þannig að maður þreytist fyrr. Það er mjög gaman þegar vel gengur þó ég sýni það kannski ekki vel beint eftir glímuna.“

Á mótinu vann Sighvatur allar sínar glímur nema eina á uppgjafartaki og segir að það sé alltaf eitthvað sem megi læra af þessum mótum. „Það er alltaf öðruvísi að glíma á mótum, bæði hvernig þú sjálfur hreyfir þig og mótherjinn líka. Held ég hafi fengið betri skilning á mikilvægi þess að stífna ekki of mikið upp og að reyna ekki að þvinga fram stöður eða tök sem eru ekki endilega til staðar. En svo er kannski ekki alltaf best að hafa þolinmæðina að vopni þegar tímamörk eru á glímunni en þá gæti komið sér vel að hafa betra þol.“

Sighvatur er 25 ára í dag en hann var bara 14 ára þegar hann byrjaði að æfa brasilískt jiu-jitsu. „Ég byrjaði árið 2006 þegar Mjölnir hafði aðstöðu upp í JR húsinu. Þá hafði ég hitt Gunnar Nelson í kickbox tíma upp í Pumping Iron æfingastöðinni og spurt hann hvar hann væri að æfa. Svo kíkti ég á æfingu með bróður mínum stuttu seinna og þaðan varð ekki aftur snúið. Þess má geta að ég hafði horft eitthvað á UFC áður en ég mætti og fannst ég bara frekar kúl þegar ég gerði mitt fyrsta closed guard.“

„Þegar ég var að byrja í glímunni voru flestir mun stærri og sterkari en ég þannig að ég eyddi dágóðum tíma undir í guard eða side control og mount. Ég held að það hafi hjálpað mér að fá betra guard og betri að sleppa. Ég held samt að ég hafi fundið fyrir mestu bætingunum síðar þegar ég var orðinn aðeins stærri. Þá gat ég hreyft mig betur og átti þannig auðveldara með að endurtaka hreyfingar. Það gæti verið að það hefði verið betra að hafa æfingafélaga í minni stærð til að fá samhæfingu í hreyfingunum fyrr. Þess má geta að herra Halli Nelson framkvæmdi eitt sinn ‘uppgjafartak’ á mér sem hann nefndi the pancake en ég vil ekki fara nánar út í það mál.“

Sighvatur reynir að fylgja hollu mataræði en á sínum yngri árum virtist hann bara borða brauð með kæfu og gæddi sér oft á því á mótum eða eftir æfingar.

„Móðir mín smurði alltaf fyrir mig brauð með kæfu svo ég yrði örugglega ekki svangur. Þegar ég var kominn nokkuð yfir tvítugt hætti hún því miður þessari samlokugerð, mér til mikillar mæðu. Núna þarf ég að sinna þessu sjálfur og borða þess vegna mest megnis möndlur og banana sem eiga það sameiginlegt að krefjast takmarkaðs undirbúnings fyrir átu. Ég reyni að borða hollt og tiltölulega fjölbreytt. Ég borða mikið af ávöxtum, hnetum, skyri og öðru slíku. Ég fylgi samt engu sérstöku ströngu mataræði og fæ mér oft óhollustu líka.“

Það er lítið á döfinni hjá Sighvatu glímulega séð en útilokar þó ekki að keppa erlendis í framtíðinni.

Sighvatur Magnús Helgason

spot_img
spot_img
spot_img
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular