Sigurjón Rúnar Vikarsson berst sinn annan áhugamannabardaga í kvöld á Fightstar bardagakvöldinu í London. Síðast sigraði hann eftir klofna dómaraákvörðun og stefnir á að klára þennan í 2. lotu.
Sigurjón berst í veltivigt í kvöld og mætir Christian Knight. Þetta verður fyrsti MMA bardagi Knight en Sigurjón veit ekki mikið um hann. „Ég veit lítið um hann nema það að hann hefur ekki keppt í MMA áður. Ég hitti hann í vigtunninni í gær og spjallaði létt við hann. Hann er hraustlega vaxinn og svipað hávaxinn og ég, mögulega 1-2 cm lægri,“ segir Sigurjón um andstæðinginn.
Áður en Sigurjón fór í MMA hafði hann keppt í hnefaleikum og var m.a. Íslandsmeistari 2011. Fyrsti MMA bardagi Sigurjóns fór svo fram síðasta haust þar sem hann fór með sigur af hólmi eftir klofna dómaraákvörðun.
„Síðasti bardagi var ótrúlega skemmtilegur og tek klárlega mikla reynslu úr þeim bardaga. Ég fer þannig séð með sama gameplan í þennan bardaga en er búinn að bæta mig í þeim stöðum sem voru að hrjá mig seinast. Svo var mikill lærdómur í niðurskurðinum en ég held að ég hafi farið of langt niður í þyngd seinast. Þannig ég verð um 1-2 kílóum þyngri í búrinu núna heldur en seinast. Minn bakgrunnur er boxið þannig að ég er miklu öruggari í hringnum í boxinu. En andlegur undirbúningur er mjög svipaður og það er örugglega stærsti parturinn af því að keppa.“
Bardaginn fer fram í kvöld og segir Sigurjón að hann finni ekki fyrir stressi en býst við að það muni hellast yfir sig þegar líður á daginn. Annars hefur hann unnið í vel í sínum veikleikum að undanförnu og leggst bardaginn því vel í hann. Sigurjón finnur fyrir bætingum í sínum leik og vonast til að sýna það í búrinu í kvöld.
„Síðast hafði ég fókusað mikið á að vera með andstæðinginn upp við búrið en svo endaði ég sjálfur með bakið upp við búrið helminginn af bardaganum. Ég er búinn að vera fókusa mikið á það fyrir þennan bardaga ásamt nokkrum stöðum í gólfinu sem ég næ oft en hef ekki verið að ná að klára úr.“
Sigurjón starfar sem vefforritari hjá Nova og getur það oft verið erfitt að sameina æfingar og vinnu enda fara sumar æfingar fram á vinnutíma.
„Það getur verið erfitt að vera í fullri vinnu, reka fjölskildu og ætla sér að ná einhverjum alvöru árangri með keppnisliðinu. Þannig að ég er kannski ekki að æfa eins mikið og ég og þjálfararnir myndu vilja. En þegar ég er mað bardaga sem ég er að stefna að þá eru allir í kringum mig, bæði heima við og í vinnunni, tilbúnir að gera sitt af mörkum til að ég komist á sem flestar æfingar og er ég virkilega þákklátur fyrir það.“
Ásamt Sigurjóni munu þeir Diego Björn Valencia og Birgir Örn Tómasson berjast í kvöld. En hvernig fer bardaginn?
„Bæði síðasti MMA bardagi minn og box bardagi fóru í klofna dómaraákvörðun þannig að kannski hef ég verið of hógvær. Ég stefni á að klára þennan, segjum í annarri lotu!“
Bardagakvöldið byrjar kl. 17 á íslenskum tíma og er Sigurjón 8. bardagi kvöldsins. Hægt er að kaupa streymi á bardagakvöldið hjá MMA TV hér.