Sigursteinn Ingólfsson berst sinn fyrsta MMA bardaga um helgina. Sigursteinn fékk nýjan andstæðing á síðustu stundu.
Sigursteinn Ingólfsson átti upphaflega að mæta Julian Harris (1-2) á Golden Ticket bardagakvöldinu í Birmingham á laugardaginn. Sigursteinn hélt út í morgun en í gær kom í ljós að andstæðingurinn væri meiddur og gæti ekki barist.
Sigursteinn fór því út með von um að fá bardaga og það gekk eftir. Sigursteinn mætir Michael Jones (2-0) í 61 kg bantamvigt en Jones kemur inn með tveggja daga fyrirvara. Upphaflega átti Sigursteinn að keppa í 57 kg fluguvigt en þar sem bardaginn kemur með skömmum fyrirvara fer bardaginn fram í þyngri flokki. Báðir bardagar Jones hafa farið fram í fluguvigt og hefur hann klárað þá báða með uppgjafartaki.
Venet Banushi berst einnig á kvöldinu en það verður sömuleiðis hans fyrsti MMA bardagi. Báðir berjast þeir fyrir hönd Mjölnis en um er að ræða áhugamannabardaga.
Golden Ticket 13 fer fram á laugardaginn á Englandi en nánari upplýsingar um streymi koma síðar.