spot_img
Sunday, December 22, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeErlentSigurvegarinn úr bardaga Conor og Poirier fær næsta titilbardaga

Sigurvegarinn úr bardaga Conor og Poirier fær næsta titilbardaga

Framtíð léttvigtarinnar í UFC hefur undanfarið verið umlukin mikilli óvissu en núna virðist sem hlutskipti sigurvegarans í viðureign Conor McGregor og Dustin Poirier verði annað tækifæri á að hreppa beltið.

Það verður enginn titill í boði þegar þeir Conor McGregor og Dustin Poirier mætast á UFC 257 þann 23. janúar. Núna nýlega sat forseti UFC, Dana White, fyrir svörum aðdáenda í einskonar „spurt og svarað“ þætti á ESPN+. Í einni spurningunni sem var borin fram var White spurður um hvað biði í skauti þess sem bæri sigur úr bítum í bardaga Conor og Dustin.

„Já, sá sem vinnur þann bardaga er líklega næstur í röðinni,“ svaraði Dana.

Framtíð léttvigtarinnar veltur að miklu leiti á Khabib Nurmagomedov og hans næstu skrefum. Þótt að Khabib hafði lagt hanskana á hillu strax eftir bardaga sinn gegn Justin Gaethje á UFC 254 í október er hann ennþá titlaður sem opinber meistari léttvigtarinnar. Frægt er orðið að Khabib gaf móður sinni loforð um að hann myndi ekki berjast aftur eftir andlát föður síns sem lést nokkrum mánuðum fyrir bardaga hans gegn Gaethje.

Miklar vangaveltur hafa verið uppi um hverju Dana White þyrfti til að tjalda til að þess að lokka Khabib aftur í búrið og eru einhverjir sem telja að Dagestaninn hafi enn ekki sungið sitt síðasta.

UFC byrjar árið á þriggja kvölda lotu í Abu Dhabi á einni viku og hefst fyrsta bardagakvöldið af þremur þann 16. janúar næstkomandi. Það verður í þessari viku sem Dana White og Khabib eiga bókaðan saman fund þar sem þeir munu skeggræða hvað hinn síðarnefndi ætlar gera varðandi framtíð sína hjá UFC.

Það sem fram fer þeirra á milli mun að öllum líkindum ákvarða framvindu léttvigtarinnar og vonandi leysa þennan rembihnút sem myndast hefur við topp hennar. Dana White ætlar greinilega ekki að taka neinar ákvarðanir fyrr en eftir að hann er búinn að eiga samtalið við Khabib og þess vegna valdi hann væntanlega að segja „[…] er líklega næstur í röðinni“.

„Þetta veltur allt á því hvað Nurmagomedov vill gera. Ég tek fyrstu vél til Abu Dhabi á mánudaginn. Ég er ekki alveg klár á því hvenær hann [Khabib] lendir en við munum hittast um leið og hann kemur,“ sagði Dana White að lokum.

Ef Khabib kemur ekki aftur verður síðan áhugavert að sjá hver verður andstæðingur þess sem vinnur þann 23. janúar.

spot_img
spot_img
spot_img
Sjonni
Sjonnihttps://www.mmafrettir.is
-Bardagaáhugamaður -Fjólublátt belti í BJJ -Stjórnamaður í Mjölni -Tölvunarfræðingur
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular