Friday, April 19, 2024
HomeForsíðaSmáatriði Reebok samningsins kunngjörð

Smáatriði Reebok samningsins kunngjörð

ufc reebokFyrir sex mánuðum síðan undirritaði Reebok styrktarsamning við UFC sem neyðir alla bardagamenn UFC til að klæðast einungis Reebok fatnaði í keppni. Nú eru smáatriði samningsins loksins kunngjörð og er óhætt að segja að mikil óánægja ríki með samninginn.

Í samningnum segir að bardagmenn UFC megi einungis klæðast fatnaði frá Reebok í búrinu og í vikunni í aðdraganda bardaga. Auk þess mega bardagamenn ekki bera önnur vörumerki á fatnaði sínum og þá mun borðinn, sem bardagamenn sýna (smekkfullur af styrktaraðilum) fyrir aftan sig er nafn þeirra er tilkynnt í búrinu, heyra sögunni til. Samningurinn tekur gildi þann 7. júlí.

Í fyrstu var sagt að upphæðin sem Reebok myndi greiða bardagamönnum ætti að byggjast á styrkleikalisti UFC. Sú hugmynd var slegin af borðinu og eru styrkirnir nú byggðir á fjölda bardaga innan UFC (eða undir merkjum Zuffa, eigendur UFC).

Bardagamenn með fimm eða færri bardaga fá því 2.500 dollara fyrir hvern bardaga. Bardagamenn með sex til 10 bardaga fá 5.000 dollara; 11 til 15 fá 10.000 dollara; 16 til 20 fá 15.000 og þeir sem hafa 21 bardaga eða fleiri fá 20.000 dollara. Þeir sem berjast í titilbardaga fá 30.000 og meistarar 40.000 fyrir hvern bardaga. Þetta leggst ofan á laun þeirra frá UFC fyrir hvern bardaga.

Það má segja að nokkur óánægja ríki meðal UFC bardagamanna með þennan nýja styrktarsamning.

Brendan Schaub var að fá um 100.000 dollara fyrir bardaga frá styrktaraðilum en mun nú fá aðeins 10.000. Þetta er umtalsverð breyting fyrir hann og eflaust fleiri sem eru í sömu stöðu. Hector Lombard á 41 bardaga að baki en aðeins sex í UFC og mun því aðeins fá 5000 dollara fyrir hans næsta bardaga.

Svo eru aftur á móti aðrir sem eru í mun betri stöðu. Scott Jorgensen á 20 bardaga að baki undir merkjum Zuffa (tíu í UFC og tíu í WEC sem var áður í eigu Zuffa) og er því hæst ánægður með þennan samning.

UFC hefur varið þennan samning og sagt að þetta sé fjárfesting til lengra tíma litið. Vangaveltur voru uppi um hvort aðrir samstarfsaðilar UFC líkt og Monster Energy og Bud Light muni bætast við styrktarsamninginn en svo er ekki.

„UFC gæti bætt við einum styrktaraðila á klæðnað bardagamanna í keppni. Þær tekjur munu þó ekki fara til bardagamanna. UFC mun þó biðja aðra styrktaraðila um að styrkja ákveðna íþróttamenn eins og við höfum séð með Monster Energy og Bud Light gera,“ sagði Lorenzo Fertitta í gær. Conor McGregor hefur nýverið gert styrktarsamninga við bæði Monster Energy og Bud Light og mun væntanlega bera merki þeirra á klæðnaði hans.

 

Hver bardagamaður fær sérhannaðan klæðnað frá Reebok og fá þeir 20-30% af sölum á sínum klæðnaði. Það er kannski ólíklegt að allar Reebok verslanir munu selja sérhannaðar vörur óþekktra bardagamanna á borð við þungavigtarmanninn Jared Rosholt. Minni bardagamenn munu þó treysta mest á sölu á þeirra fatnaði á vefsíðu Reebok.

 

 

 

Þetta gæti breytt MMA landslaginu umtalsvert. Hugsanlega munu bardagamenn telja tekjumöguleika sína betri í öðrum bardagsamtökum á borð við Bellator og WSOF þar sem styrktarsamningarnir eru mun frjálsari. Aftur á móti getur verið erfitt að finna styrktaraðila og hafa margir bardagamenn lent í erfiðleikum með að fá styrkinn greiddan. UFC bardagamenn losna nú við það hark.

Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular