spot_img
Sunday, November 17, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeErlentSpá MMA Frétta fyrir UFC 196

Spá MMA Frétta fyrir UFC 196

UFC 196 fer fram í kvöld og líkt og fyrir öll stór bardagakvöld birta pennar MMA Frétta spá sína.

Að þessu sinni skoðum við tvo stærstu bardaga kvöldsins og tvo bardaga sem eru ekki á aðalhluta bardagakvöldsins en eru engu að síður mjög áhugaverðir.

nate conor

Veltivigt: Conor McGregor gegn Nate Diaz

Pétur Marinó Jónsson: Þetta er svo skemmtilegur bardagi fyrir aðdáendur, get bara ekki beðið eftir að þetta byrji! Ég held að þetta verði mun lengri bardagi en áður hjá Conor McGregor. Nate er grjótharður og verður gaman að sjá þá rífa kjaft í búrinu. Ég held að Conor eigi eftir að nota skrokkhöggin mikið í þessum bardaga og endar svo á að klára Diaz í 4. lotu með tæknilegu rothöggi. Þetta verður samt jafnari bardagi en margir hefðu haldið og einhverjir verða fyrir vonbrigðum með Conor.

Óskar Örn Árnason: Diaz er seigur, hann ætti að endast nokkrar lotur en ef McGregor fer að raða inn spörkum í þennan langa skrokk gæti það orðið banamein Diaz. McGregor sigrar á TKO í fjórðu lotu.

Eiríkur Níels Níelsson: Þó svo ég dýrki Diaz bræðurna finnst mér bardagastíll þeirra fremur einhæfur. Ef bardaginn fer fram standandi ætti McGregor að taka þetta. Ég er hins vegar spenntur að sjá hvort að Diaz geti náð honum í gólfið og gert eitthvað þar. En ég held samt sem áður að Írinn sigri þetta í annarri lotu með T.K.O.

Guttormur Árni Ársælsson: Ég hugsa að þessi bardagi verði erfiðari fyrir Conor en margan grunar. Ef Nate er snjall reynir hann að nýta sér faðmlengdina og boxið. Conor er þó með fjölbreyttari sóknir og sigrar eftir dómaraúrskurð í hörku bardaga.

Sigurjón Viðar Svavarsson: Þessi bardagi milli Conor og Nate er ein mesta gjöf sem UFC hefur nokkurn tímann fengið, áhuginn sem er á þessum viðburði er að springa. Allt við þennan bardaga er geðveikt, viðtölin, face off-ið, vigtunin. Mín spá er sú að Mystic Mac hefur ekki klikkað hingað til og ég held að þessi bardagi fari TKO fyrir Conor í annarri lotu. Spurning síðan hvernig fari eftir bardagann, held að Conor neyðist til að taka út alla æfingafélaga hans Nate líka.

Brynjar Hafsteins: Diaz gæti verið með vandræði fyrir Conor. Diaz er með langan faðm, gríðarlega tæknilegt box og mjög erfitt að rota hann en Conor er með mun fleiri tól en Diaz. Conor heldur áfram að sannreyna hversu góður hann er og ég held að hann nái þó ekki að klára Diaz. Conor með sigur eftir dómaraúrskurð en höfum það á hreinu að Diaz á góða möguleika ef við fáum að sjá Michael Johnson útgáfu af honum.

Conor McGregor: Pétur, Óskar, Eiríkur, Guttormur, Sigurjón, Brynjar.
Nate Diaz:

UFC 196 Holm Tate

Titilbardagi í bantamvigt kvenna: Holly Holm gegn Miesha Tate

Pétur Marinó Jónsson: Mér finnst eiginlega hrikalega erfitt að spá fyrir þennan bardaga. Tate mun reyna að gera það sama og Ronda reyndi, að taka Holly niður, en gera það með allt öðrum hætti. Tate er wrestler og mun fara í lappirnar á Holm sem Ronda gerði aldrei. Mér finnst það eitthvað svo týpískt að Tate komi og eyðileggi Holm-Rousey 2 og jafnvel taki þetta. Mig langar dálítið að segja að Tate vinni þetta. Ég held samt að Holm nota góða fótavinnu sína í að halda sér frá búrinu. Tate mun ná einhverjum fellum en Holly sigrar með tæknilegu rothöggi seint í bardaganum. Holm með tæknilegt rothögg seint í 3. lotu.

Óskar Örn Árnason: Bardaginn verður langur og erfiður. Tate notar dirty boxing upp við búrið og þreytir Holm. Holm nær samt að slíta sig frá nógu oft, koma inn góðum höggum og sigrar á stigum.

Eiríkur Níels Níelsson: Tate hefur sigrað alla bardaga sína síðan hún tapaði seinast gegn Rousey. Hún hefur litið mjög vel út en henni vantar kraftinn til að rota andstæðingana sína. Holm er mun tæknilegri en Tate og ætti því að sigra þennan bardaga á stigum, ef hann fer allar fimm loturnar. Ég held samt að Holm muni klára þennan bardaga með T.K.O í þriðju lotu.

Guttormur Árni Ársælsson: Tate kemur mörgum á óvart og sigrar Holm eftir dómaraúrskurð.

Sigurjón Viðar Svavarsson: Ég held að Tate eigi ekki mikinn möguleika á móti Holm. Hún mun reyna að fá Holm til að brawl-a við sig en Holm mun halda sig fyrir utan og klára hana þannig. Holm með TKO í 3. lotu.

Brynjar Hafsteins: Miesha Tate er óþægileg viðreign fyrir Holm. Hún mun ekki gera það sem Rousey gerði og að pressa endalaust á hana án þess að skera búrið. Holm er með bestu fótavinnuna í kvennadeildunum en Tate er mjög góð á öllum sviðum. Tate upsettar hana og vinnur eftir dómaraúrskurð.

Holly Holm: Pétur, Óskar, Eiríkur, Sigurjón.
Miesha Tate: Guttormur, Brynjar.

Brandon thatch_and_siyar

Veltivigt: Brandon Thatch gegn Siyar Bahadurzada

Pétur Marinó Jónsson: Ég hef enn mikla trú á Brandon Thatch og held að hann geti komist langt í veltivigtinni. Hann er bara óhepinn að hafa mætt tveimur geggjuðum glímumönnum í röð (Gunni og Benson Henderson). Hann jarðar Bahadurzada og klárar hann í 1. lotu með tæknilegu rothöggi.

Óskar Örn Árnason: Tveir höggþungir strikerar, ætti að verða skemmtilegur bardagi. Brandon Thatch gerist agressívur og minnir hressilega á sig með rothöggi í fyrstu lotu

Eiríkur Níels Níelsson: Thatch hefur ekki stigið í hringinn síðan hann tapaði á móti Gunna seinasta júlí, en Siyar keppti seinast árið 2013. Báðir eru þeir fínir strikerar, en Siyar er einnig fínn á jörðinni á meðan Thatch er frekar slappur á því sviði. Því tel ég að Siyar taki Thatch niður og klári bardagann með hengingu. Segjum að Siyar sigri með Rear Naked Choke í annari lotu.

Guttormur Árni Ársælsson: Seinasti séns fyrir Thatch og Siyar. Thatch er risavaxinn veltivigtarmaður og sigrar þennan bardaga með TKO eftir þungt skrokkspark í 2. lotu.

Sigurjón Viðar Svavarsson: Það verður gaman að sjá hvernig Thatch kemur til baka eftir bardagan við Gunna. Hef alltaf haft gaman af Thatch ég held að hann muni dominate-a Siyar og klára hann með KO í fyrstu lotu.

Brynjar Hafsteins: Er hrifin af stílnum hans Siyar en ég held að Thatch sé betri standandi. Thatch er samt næstum of stór fyrir flokkinn og spurning hvort þetta kött sé of stórt fyrir hann. Gæti orðið mjög þreyttur í seinni lotunum og Siyar gæti stolið sigri en ég held samt að Thatch klári hann í annarri lotu.

Brandon Thatch: Pétur, Óskar, Guttormur, Sigurjón, Brynjar.
Siyar Bahadurzada: Eiríkur.

sanchez miller

Léttvigt: Jim Miller gegn Diego Sanchez

Pétur Marinó Jónsson: Diego Sanchez hefur eiginlega tapað síðustu sex bardögum en einhvern veginn tekist að vinna eftir dómaraákvörðun þegar hann hefur ekki átt það skilið. Mér finnst hann hræðilega lélegur tæknilega í dag og held að hann eigi ekki lengur heima í UFC tæknilega séð. En maðurinn er með ljónshjarta og það er mjög erfitt að stoppa hann. Eini sénsinn sem ég sé Sanchez vinna þetta er eftir bull dómaraákvörðun. Annars mun Jim Miller taka öruggan sigur eftir dómaraákvörðun.

Óskar Örn Árnason: Fullkominn bardagi fyrir báða, vonandi fer hann eitthvað í gólfið. Ég býst við stríði en Jim Miller sigrar á stigum eftir blóðugan þriggja lotu bardaga.

Eiríkur Níels Níelsson: Ég er smá forvitinn hvort að Miller geti náð að sigra Sanchez með hengingu. Miller er með 14 sigra eftir uppgjafartök á ferlinum sínum og Sanchez hefur aldrei tapað bardaga eftir hengingartak. En líklegast fer þessi bardagi fram standandi og gæti orðið smá spennandi, held samt að Miller taki þetta eftir dómaraákvörðun.

Guttormur Árni Ársælsson: Sanchez gegn Miller er viðureign tveggja manna á útleið. Ég var mjög hrifinn af Miller þegar hann var upp á sitt besta og tel að hann sigri Sanchez með uppgjafartaki í 3. lotu.

Sigurjón Viðar Svavarsson: Sanchez er búinn að mínu mati. Búinn að vera heppinn með fullt af bardögum og eina sem hann hefur er þetta risa hjarta sem einhvern veginn heldur honum alltaf inn í bardögum. Ég held að Jim Miller komi til með að ná honum niður og klára hann með Rear Naked Choke í annarri lotu.

Brynjar Hafsteins: Sanchez er búinn, langt síðan. Algjör meistari og fæddist til að berjast en Miller er betri og sigrar hann í 1. lotu.

Diego Sanchez:
Jim Miller: Pétur, Óskar, Eiríkur, Guttormur, Sigurjón, Brynjar.

spot_img
spot_img
spot_img
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular