UFC 197 fer fram í kvöld og ríkir mikil eftirvænting eftir að sjá Jon Jones berjast. Líkt og fyrir flest af þessum stóru bardagakvöldum birta pennar MMA Frétta spá sína fyrir bardagakvöldið.
Titilbardagi í léttþungavigt: Jon Jones gegn Ovince Saint Preux
Pétur Marinó Jónsson: Besti bardagamaður heims klikkar ekki þrátt fyrir að hafa verið í bulli í rúmt ár. Hann kemur fáranlega öflugur til leiks en OSP er seigur og þraukar vel fyrstu loturnar. Jones klárar þetta í 4. lotu eftir ground and pound.
Óskar Örn Árnason: Þetta ætti nánast að vera formsatriði, þó veit maður aldrei í MMA. Jones er að koma aftur eftir langa fjarveu og OSP getur alltaf komið inn þessu eina höggi. Ég býst við nokkrum spennandi augnablikum en held að JJ nái fljótlega yfirhöndinni og klári OSP í þriðju lotu eða svo.
Sigurjón Viðar Svavarsson: Þrátt fyrir að Jon Jones sé búinn að vera lengi frá og búinn að vera í ýmsum vandræðum þá held ég að hann sé betri en síðast og muni sína að hann sé einn besti bardagamaður fyrr og síðar í UFC. Jones mun vinna með TKO í fyrstu lotu.
Guttormur Árni Ársælsson: Jon Jones sigrar með TKO þriðju lotu. OSP sýnir betri takta en margir búast við en það dugar ekki til.
Jon Jones: Pétur, Óskar, Sigurjón, Guttormur.
Ovince Saint Preux: ..
Titilbardagi í fluguvigt: Demetrious Johnson gegn Henry Cejudo
Pétur Marinó Jónsson: Það eina sem segir mér að Cejudo geti unnið er að Holm og Dillashaw unnu ríkjandi meistara þegar maður hélt að þau væri ekki tilbúin í meistarann. Aftur á móti er Johnson betri bardagamaður en Barao og Rousey og held ég að hann klikki ekki í þetta sinn. Það er ekkert í leik Cejudo sem segir mér að hann muni vinna Johnson. Þetta verður þó hörku bardagi og Cejudo mun jafnvel taka tvær lotur. Johnson mun hins vegar vinna á þegar líður á bardagann og vinna eftir dómaraákvörðun. Cejudo kemur vel frá þessu en ekki sem sigurvegari að mínu mati.
Óskar Örn Árnason: Þessi gæti orðið áhugaverður ef Cejudo nær að koma á óvart. Á pappír virðist Cejudo allt of grænn til að eiga séns í músina en ég hélt það líka um Holly Holm gegn Rousey og T.J. Dillashaw gegn Barao. DJ er samt magnaður meistari og hefur leyst allar þrautir til þessa, ég held að þetta verði engin undantekning. DJ sigrar örugglega á stigum.
Sigurjón Viðar Svavarsson: Eini staðurinn sem einhver gæti átt möguleika er að ná Demetrious Johnson niður og vinna þar í honum. Henry Cejudo á að hafa allt til þess en hann hefur hins vegar aldrei sýnt gott offensive wrestling. Ég held að Demetrious eigi eftir að halda þessu standandi og sýna tæknilega yfirburði. Demetrious vinnur eftir dómaraákvörðun.
Guttormur Árni Ársælsson: DJ heldur áfram að gnæfa yfir þessum þyngdarflokki og sigrar eftir dómaraúrskurð.
Demetrious Johnson: Pétur, Óskar, Sigurjón, Guttormur.
Henry Cejudo: …
Léttvigt: Anthony Pettis gegn Edson Barboza
Pétur Marinó Jónsson: Vonandi verður þetta jafn skemmtilegur bardagi og ég vona. Sé ekki rothögg í spilinu og ef þetta klárast verður það eftir uppgjafartak frá Pettis. Held að þetta verði skemmtilegur bardagi en Pettis mun sigra eftir dómaraákvörðun.
Óskar Örn Árnason: Flestir búast við flugeldasýningu og vonandi fáum við það. Oft verður það reyndar ekki niðurstaðan þegar maður á von á því. Báðir eru hrikalega skemmtilegir standandi og sennilega bestu sparkararnir í þyngdarflokknum. Mig grunar samt að Pettis muni reyna að koma bardaganum í gólfið þar sem hann ætti að vera betri. Pettis sigrar í 3. lotu, rear-naked choke eða armbar.
Sigurjón Viðar Svavarsson: Báðir eru að koma til baka eftir tap. Anthony þarf að vinna til að vera relevant á toppnum í léttvigtinni. Edson hefur alltaf verið rétt fyrir utan toppinn og sigur gegn Anthony gæti komið honum í topp 5. Ég held að Anthony eigi eftir að sýna yfirburði standandi og í jörðinni og á eftir að klára hann með submission í 2. lotu.
Guttormur Árni Ársælsson: Þetta er mögulega skemmtilegt match up. Tveir menn með mjög spennandi stíl en sama veikleika, að eiga erfitt með að berjast vel þegar andstæðingurinn pressar á þá og þvingar afturábak. Ég held að Pettis hafi fleiri leiðir til að vinna og er t.d. með vanmetið BJJ. Ég segi Pettis með uppgjafartaki í annarri.
Anthony Pettis: Pétur, Óskar, Sigurjón, Guttormur
Edson Barboza: ..