spot_img
Sunday, December 22, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeErlentSpá MMA Frétta fyrir UFC 207

Spá MMA Frétta fyrir UFC 207

UFC 207 fer fram í kvöld þar sem Amanda Nunes mætir Rondu Rousey í aðalbardaga kvöldsins. Líkt og fyrir öll stærstu bardagakvöldin birta pennar MMA Frétta spá sína fyrir kvöldið.

Ronda Rousey Amanda Nunes

Titilbardaga í bantamvigt kvenna: Amanda Nunes gegn Rondu Rousey

Pétur Marinó Jónsson: Þetta er svo ótrúlega áhugaverður bardagi og margar spurningar sem maður hefur fyrir bardagann. Get séð báðar vinna og eru báðar með tól til að vinna hvor aðra. Stuðlarnir gríðarlega jafnir en tæknilega séð held ég að Nunes henti Rondu nokkuð vel. Hún er aggressív og gæti kýlt sig inn í clinchið sem er fullkomið fyrir Rondu. Nunes er hins vegar með góðan kraft og ég veit ekki hvort að Ronda sé andlega tilbúin í að mæta öðrum killer aftur eftir Holm tapið. Þá efast ég alltaf um getu þjálfara hennar til að undirbúa Rondu nægilega vel fyrir svona bardaga. Nunes getur vel varið titilinn, en ég ætla að giska á að Ronda Rousey komi sterk til baka og vinni með armbar í 2. lotu.

Guttormur Árni Ársælsson: Ég held að bardaginn við Holm hafi verið smá wake-up call fyrir Rousey. Við munum sjá hana koma tryllta til leiks og reyna að ná fellunni strax. Ég spái því að við sjáum gömlu góðu Rondu Rousey í þessum bardaga og að hún sigri með armbar í fyrstu lotu.

Arnþór Daði Guðmundsson: Hvernig ætli hausinn sé skrúfaður á Rondu? Það er aðalspurningin sem ég hef varðandi þennan bardaga. Við höfum ekki heyrt múkk frá Rondu í meira en ár og allt í einu kemur hún upp aftur og lítur út eins og Ivan Drago úr Rocky og virðist vera í formi lífs síns. Þó að Tarverdyan sé ekki besti þjálfari í heiminum þá held ég að Ronda sé það mikil keppnismanneskja að hún hafi æft á 120% afköstum og komi tvíefld til leiks eftir tapið gegn Holly Holm. Það eru góðar líkur á því að hún muni leita aftur í grunninn og það sem kom henni á toppinn í MMA – að henda andstæðingnum í jörðina og rífa af henni handlegginn. Amanda Nunes er samt ekkert lamb að leika sér við, svona til að minnast aðeins á hana. Hún heldur út lengur en margar aðrar á móti Rondu. Ronda Rousey sigrar eftir uppgjafartak í 2. lotu.

Óskar Örn Árnason: Hrikalega áhugaverður bardagi. Rousey kemur til baka eftir hrikalegt tap og X faktorinn er sálrænt ástand hennar. Á hinn bóginn lítur hún frábærlega út líkamlega og virðist vera einbeitt. Nunes er mjög góð alls staðar en í mínum huga snýst þetta um hvort hún geti stoppað júdó felluna og armbar árásir Rousey. Ég held hreinlega ekki. Rousey sigrar í fyrstu lotu, armbar.

Brynjar Hafsteins: Jóakim Aðalönd gæti kastað happaskildingnum sínum upp á þennan. Rousey er mjög agressív og Nunes líka. Nunes er ekki með striking sem hún notar til þess að halda frá sér andstæðingum eins og Holly Holm en hún hefur meiri kraft en Holm. Það gæti verið það sem verður henni að falli. Rousey er upp á sitt besta þegar hún fær að pressa og minnka fjarlægðina á milli þeirra. Ég held að hún muni ná því gegn Nunes. Nunes verður þreytt eftir fyrstu tvær loturnar og þá er Rousey með þetta. Þrátt fyrir þetta allt veit ég ekki hver vinnur og þar sem Rousey er opin á meðan hún kemur inn þá ætla ég að segja að Nunes skelli henni á rassin með góðu höggi og klári í gólfinu í 1. lotu.

Sigurjón Viðar Svavarsson: Nunes er komin með blueprint hvernig eigi að vinna Rousey. Hún er góður striker með góð högg. Rousey er búin að vera mjög skrítin í aðdraganda bardagans og ég held að síðasta tap sitji ennþá í henni. Mín tilfinning er sú að hvernig sem þessi bardagi fari mun hún hætta eftir þennan. Rousey er með yfirburði í fellum og mun klárlega þurfa að pressa Nunes en jafnframt passa sig að vera ekki of agressív. Hún er því miður ennþá með Edmund sem þjálfara og líklega ekki búin að bæta sig mikið í striking. Nunes er búin að vera miklu slakari á að sjá og miðað við vigtunina í gær held ég að Nunes muni taka hana. Hún á eftir að vera slakari í bardaganum á meðan Rousey veður fram. Nunes klárar þetta í fyrstu lotu með KO.

Amanda Nunes: Brynjar, Sigurjón.
Ronda Rousey: Pétur, Guttormur, Arnþór, Óskar.

Titilbardagi í bantamvigt: Dominick Cruz gegn Cody Garbrandt

Pétur Marinó Jónsson: Ég er mikill Cruz maður en hef einhverja slæma tilfinningu fyrir þessum bardaga. Cruz er með fáranlega erfiðan stíl en menn hafa alveg hitt í hann. Faber droppaði hann tvisvar ef ég man rétt er þeir börðust árið 2011 og kannski er Cruz hægari núna enda farið í krossbandsaðgerðir á báðum hnjám. Við erum búin að sjá mikið af óvæntum úrslitum á þessu ári og væri það ekki dæmigert ef við myndum klára árið með nýjum og óvæntum meistara? Cody er hraðari og með betri hendur en Faber hefur nokkurn tímann haft og ég er sannfærður um að hann eigi eftir að hitta Cruz. Ég get þó ekki spáð gegn Cruz og þó að Garbrandt eigi eftir að smellhitta í Cruz held ég að hann nái að jafna sig og vinna eftir dómaraákvörðun.

Guttormur Árni Ársælsson: Einn aðilinn hugsanlega með bestu fótavinnu í MMA á meðan hinn er með flest knockdowns í flokknum. Cruz er of góður fyrir Garbrandt, dansar hringi í kringum hann með sama hætti og hann hefur gert í blaðamannaviðtölunum í aðdraganda bardagans og sigrar þetta örugglega á stigum.

Arnþór Daði Guðmundsson: Ótrúlegt að við virðumst fá nánast sama bardagann aftur og í þeim sem er á undan þessum. Hraði, fótavinna og hreyfanleiki hjá Cruz á móti þvílíkum krafti að Cody Garbrandt gæti sennilega rotað fíl. Cruz er besti varnarbardagamaðurinn í þyngdarflokknum og sennilega í UFC og minnir stundum á Floyd nokkurn Mayweather. Í rauninni er þetta eins og síðasti bardagi og Cruz siglir þessu örugglega í land nema Cody nái að lenda. Mig langar í óvænta uppákomu og mig langar aldrei aftur að heyra Dominick Cruz tala um Team Alpha Fail. Cody Garbrandt sigrar eftir tæknilegt rothögg í 2. lotu.

Óskar Örn Árnason: Það eru ótrúlega margir að spá Cody sigri sem ég skil ekki alveg. Cruz er búinn að vera að berjast við þá allra bestu í heiminum í áratug og eina tapið kom árið 2007 á móti prime Urijah Faber. Cruz ætti að tæta Garbrandt í sundur og mögulega stoppa hann seint í bardaganum. Cody þarf eitt fullkomið högg en ég held að það komi ekki. Cruz, TKO í fjórðu lotu.

Brynjar Hafsteins: Cruz finnst mér betri alls staðar. Garbrandt er með svakalegt power fyrir þennan þyngdarflokk en Cruz virðist aldrei fá bombuna í andlitið. Ef hann fær högg þá nær hann alltaf að slæda með því og er einn af þeim bestu í því í MMA. Garbrandt hefur aldrei farið fimm lotur og verður pirraður. Cruz sigrar með TKO í 4. lotu.

Sigurjón Viðar Svavarsson: Cruz hefur aldrei verið rotaður og er ósigraður í þessum þyngdarflokki eins og Garbrandt. Cruz hefur mikla reynslu fram yfir Garbrandt og er með mjög óhefðbundnar hreyfingar sem er erfitt að æfa fyrir. Cruz er búinn að gera Cody geðveikan í undirbúningnum fyrir bardagann það er eitthvað sem ég held að muni skipta miklu máli í þessum bardaga. Garbrandt á eftir að koma villtur út og Cruz á eftir að counter-a hann. Ég get ekki beðið eftir þessum bardaga en Cruz vinnur á TKO í 3 lotu.

Dominick Cruz: Pétur, Guttormur, Óskar, Brynjar, Sigurjón.
Cody Garbrandt: Arnþór.

Bantamvigt: T.J. Dillashaw gegn John Lineker

Pétur Marinó Jónsson: Lineker er fáranlega höggþungur og skemmtilegur bardagamaður en ég held að Dillashaw sé klárari, tæknilegri og muni koma vel undirbúinn fyrir bomburnar hans Lineker. Dillashaw sigrar eftir dómaraákvörðun.

Guttormur Árni Ársælsson: Skemmtilegt match-up hvað stílana varðar. Dillashaw með skemmtilega fótavinnu og óhefðbundna vinkla á meðan Lineker er þessi klassíski rotari. Ég held að Dillashaw verði hreyfanlegur og sigri örugglega á stigum.

Arnþór Daði Guðmundsson: Spennandi bardagi í bantamvigtinni. Lineker stendur svo sannarlega undir viðurnefninu Hands of stone á meðan Dillashaw hlýtur að vera að reyna að komast yfir svekkelsið að fá ekki annan bardaga gegn Dominick Cruz. Þessi bardagi snýst að miklu leyti um það hvort að Dillashaw muni ná að koma sér undan bombum frá Lineker og vera hreyfanlegur. Dillashaw nær mjög sennilega ekki að rota Lineker, enda er hakan á þeim manni gerð úr steypu. Dillashaw eftir dómaraákvörðun.

Óskar Örn Árnason: Geðsjúkur bardagi. Lineker er stórhættulegur en takmarkaður bardagamaður. Ég held að Dillashaw sé tæknilega of góður fyrir hann, held að hann muni útboxa Lineker en sennilega ekki klára bardagann. Lineker getur klárlega unnið en líklegasta niðurstaðan er TJ á stigum.

Brynjar Hafsteins: Þetta verður klikkaður bardagi. Dillashaw er slakari útgáfan af Dominick Cruz en hann er samt mjög góður. Hann hreyfir sig á öðruvísi hátt og kemur með höggin frá öðrum hornum og frá öðrum stöðum en venjulega er kennt. Það er einmitt það sem þú þarft til að vinna Lineker. Hreyfanlegur og nota hornin vel. Dillashaw eftir dómaraákvörðun.

Sigurjón Viðar Svavarsson: Dillashaw er klárlega sá sem ætti að vera berjast við Cruz en hann er með virkilega góðar hreyfingar og gott wrestling. Lineker er power puncher og mun klárlega leita að rothögginu. Þetta mun án efa verða snilldar bardagi. Ég held að Dillashaw muni nota það hversu hreyfanlegur hann er og láta Lineker þreytast með því að kýla út í loftið. Dillashaw mun vinna á TKO í 2. lotu.

T.J. Dillashaw: Pétur, Guttormur, Arnþór, Óskar, Brynjar, Sigurjón.
John Lineker:

Veltivigt: Dong Hyun Kim og Tarec Saffiedine

Pétur Marinó Jónsson: Greyið Dong Hyun Kim hefur lítið fengið að berjast en er alltaf jafn góður. Hann á eftir að reyna eitthvað villt og galið með Tarec standandi en svo fatta að það er hættulegur leikur og límir sig á Belgann sem mun ekki losna við hann fyrr en lotan eða bardaginn klárast. Donginn brýtur Tarec hægt og rólega niður áður en hann klárar hann með arm-triangle í 3. lotu.

Guttormur Árni Ársælsson: Kim átti að mæta okkar manni Gunnari Nelson áður en sá síðarnefndi meiddist. Kim er stór veltivigarmaður og með gott júdó og sterkur í clinchinu. Ég held að Saffiedine sé hins vegar of sleipur fyrir hann og sigri þennan bardaga með því að vera tæknilegri standandi. Saffiedine eftir dómaraákvörðun.

Arnþór Daði Guðmundsson: Kim er maðurinn sem átti að mæta Gunnari okkar og ég sé mikið á eftir þeim bardaga, enda væri Gunnar eflaust kominn í topp 10 í veltivigtinni hefði hann sigrað þann bardaga. Kim er með hrikalega þreytandi og grinding stíl og erfitt að eiga við hann. Saffiedine verð ég að viðurkenna að ég þekki lítið og þarf að kynna mér betur. Segjum bara að Kim muni ná honum niður og þreyta hann í gólfinu, þrátt fyrir að Saffiadine sé svartbeltingur, og Kim sigrar á stigum.

Óskar Örn Árnason: Ég er enn að gráta Kim vs. Nelson bardagann sem aldrei varð. Þessi bardagi er hins vegar mjög áhugaverður. Ef Kim ákvður að standa lendir hann vandræðum en ef hann ákveður að gerast blautt teppi ætti hann að vinna. Ég held að Kim muni finna leið til sigurs sem verður einhver samsetning af mikilli árásargirni standandi, fellum og stjórnun á gólfinu. Kim á stigum.

Brynjar Hafsteins: Þetta er ekki góður bardagi fyrir Saffiedine. Kim mun clincha við hann og rífa hann svo niður og klára hann í 2. lotu. Þetta er bardagi fyrir Kim að tapa. Ekki vera vitlaus og fara að reyna að vinna Saffiedine með kickboxi.

Sigurjón Viðar Svavarsson: Það verður gaman að sjá hvernig Kim verður í þessum bardaga, það er orðið langt síðan að hann barðist síðast. Saffiedine er að koma eftir tap og þarf nauðsynlega að vinna. Hann tapaði á móti Story sem er ekkert svo ólíkur Kim fyrir utan að Kim notar júdó meira. Kim mun nota yfirþyrmandi pressu ásamt clinch-i og fellum. Tarec þarf að halda sér fyrir utan ef hann á að eiga einhvern séns. Kim á eftir að pressa hann, ná honum niður og halda honum í jörðinni. Kim tekur þetta á dómaraúrskurði.

Dong Hyun Kim: Pétur, Arnþór, Óskar, Brynjar, Sigurjón.
Tarec Saffiedine: Guttormur.

Hentivigt: Louis Smolka gegn Ray Borg

Pétur Marinó Jónsson: Ég held að þetta eigi eftir að vera fáranlega hraður og skemmtilegur bardagi. Verður örugglega mikið um scramble í gólfinu og ekkert um lay’n’pray kjaftæði. Borg var langt frá því að ná þyngd í gær og Smolka leit út fyrir að vera frekar slappur á vigtinni í gær. Ég held að Borg taki þetta með hengingu í 3. lotu í skemmtilegum bardaga.

Guttormur Árni Ársælsson: Tveir ungir og efnilegir sem töpuðu báðir síðasta bardaga sínum. Ég ætla að skjóta á Smolka einfaldlega því ég þekki hann betur. TKO í annarri lotu.

Arnþór Daði Guðmundsson: Hér eru tveir fluguvigtarmenn sem eru að berjast um að komast inn á topp 10 í þyngdarflokknum. Smolka man ég eftir fyrir að sigra Paddy Holohan, liðsfélaga Gunnars og Conor, og tapaði svo nýlega fyrir Brandon Moreno, sem kom beint úr TUF. Ray Borg hef ég séð berjast einu sinni svo ég get lítið sagt um hann. Líst betur á Smolka og gef honum sigur eftir dómaraákvörðun.

Óskar Örn Árnason: Get ekki sagt að þessi bardagi sé að kveikja í mér. Ég held að Smolka sé betri en hann leit ekki vel út á vigtinni. Tökum fuck it á þetta, Ray Borg rotar Smolka í fyrstu lotu.

Brynjar Hafsteins: Ég tek eiginlega alltaf þann sem hefur betri tækni og það finnst mér vera Smolka þó það muni ekki miklu. Borg er kraftmikill og gæti stolið þessu með því að hanga á honum en mér finnst Smolka vera líklegri til þess að taka bardagann eftir dómaraúrskurð.

Sigurjón Viðar Svavarsson: Báðir ungir og efnilegir, töpuðu báðir síðasta bardaga. Eru í 12. og 13. sæti á styrkleikalistanum í fluguvigtinni. Þetta er bardagi sem þeir þurfa að vinna til að eiga tækifæri á að komast í topp 10. Smolka er stærri og með lengri faðm, hann mun reyna að stjórna fjarlægðinni og skjóta inn á Borg þegar hann kemur inn. Sé fyrir mér að Smolka vinni eftir dómaraúrskurð.

Louis Smolka: Guttormur, Arnþór, Brynjar, Sigurjón.
Ray Borg: Pétur, Óskar.

spot_img
spot_img
spot_img
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular