0

Spá MMA Frétta fyrir UFC 217

UFC 217 fer fram í nótt. Um gríðarlega stórt bardagakvöld er að ræða en hér birta pennar MMA Frétta sína spá fyrir kvöldið.

Titilbardagi í millivigt: Michael Bisping gegn Georges St. Pierre

Pétur Marinó Jónsson: Það er ekki hægt að neita því en þetta er skrítinn bardagi. Það var lítil eftirspurn eftir þessum bardaga og skrítið að GSP fái umsvifalaust titilbardaga í þyngdarflokki sem hann hefur aldrei barist í þegar mögulegir áskorendur fyrir meistarann eru nánast í tonnavís. En þrátt fyrir allt það er ég samt orðinn mjög spenntur fyrir þessu. Ég er ekki svo viss um að þetta verði einhver sturlaður bardagi en ég er bara svo spenntur að sjá hvernig GSP mun líta út! Eftir fjögurra ára pásu, orðinn 36 ára, hvernig verður hann í búrinu? Hvað er að fara að gerast? Því er ég spenntur fyrir!

Ég hef áhyggjur af mínum manni GSP. Hann var farinn að dala áður en hann tók sér pásu og hefði ég bara viljað sjá hanskana haldast á hillunni. Það er afar sjaldséð að sjá bardagamenn vera betri eftir fjögur ár frá sportinu þegar þeir eru komnir röngu megin við þrítugt. Ég held að þetta verði erfitt. Hann mun eiga í erfiðleikum með að ná Bisping niður og fá nokkur högg í sig standandi. Hann verður blár og marinn eftir þetta en mun lifa fimm loturnar af. Bisping tekur þetta á stigum.

Og þó..GSP var alltaf þekktur fyrir að vera snjall í búrinu og þetta er nú einu sinni bara Michael Bisping. Kannski tekur GSP John Danaher Deathsquad move og rúllar í heel hook? Eða jabbar Bisping í kleinu yfir fimm lotur? Allt getur gerst en ég hallast að sigri hjá Bisping.

Guttormur Árni Ársælsson: Ég verð að viðurkenna að ég var einn þeirra sem var viðbjóðslega svekktur þegar þessi bardagi var tilkynntur. Bisping er einhvern veginn búinn að stífla þessa deild gjörsamlega og hefur ekki keppt við neinn alvöru contender. Að því sögðu er ég örugglega svona mikill sökker fyrir promotion því ég er orðinn frekar forvitinn að sjá þennan bardaga. Bisping keppti lengi í léttþungavigt og er stór í millivigt á meðan GSP er náttúrulegur veltivigtarmaður sem var oft styttri en andstæðingar sínir. Þessi stærðarmunur og fjögurra ára hlé frá sportinu gera gæfumuninn. GSP mun ekki ná Bisping niður og meistarinn klárar þetta með headkick TKO í þriðju lotu.

Arnþór Daði Guðmundsson: Það er margt við þennan bardaga sem meikar ekki sens, en við strokum það út og fókusum á bardagann sjálfan. GSP er mættur aftur og hefur hingað til verið ískaldur á meðan Bisping hraunar yfir hann við hvert tækifæri sem gefst. Við vitum ekkert hvernig GSP mætir til leiks eftir fjögurra ára hlé frá sportinu en hann hefur þó verið að halda sér við og ég efast um að hann hafi gleymt öllu. Bisping er cardio-vél og gæti farið tíu lotur ef hann vildi. Það er eitthvað sem er að fara að gagnast honum gegn GSP. Það hefur verið lagt mikið uppúr stærðarmismuninum, að Bisping sé eitthvað skrímsli við hliðina á GSP en það er bara alls ekkert þannig. GSP er meira að segja með lengri faðm. En hvað um það. GSP er sennilega að fara að halda sig við uppskriftina sem skilaði honum níu titilvörnum í veltivigtinni, að taka menn niður og mýkja þá aðeins og stjórna í gólfinu. Spurningin er hvort hann geti það gegn Bisping, sem hefur sýnt að hann er með ágætis felluvörn og járnvilja sem gæti brotið hvern sem er. Mitt gisk er frekar litað af því að Bisping er einn af mínum mönnum. Bisping sigrar á dómaraákvörðun.

Óskar Örn Árnason: Hér er það viðburðurinn frekar en bardaginn sjálfur sem skiptir máli. Úrslitin verða söguleg, sama hver vinnur. GSP snýr aftur í nýjan þyngdaflokk, beint í meistarann, ætti að verða spennandi. Ég held samt að þetta verði ekki feel good endir hjá GSP. Held að hann verði ryðgaður, hægur og þreytist fljótt. Bisping mun halda hraðanum og raða inn höggum í seinni lotum. Dómarinn stöðvar bardagann í fimmtu lotu, TKO.

Michael Bisping: Pétur, Guttormur, Arnþór, Óskar
Georges St. Pierre:

Titilbardagi í bantamvigt: Cody Garbrandt gegn T.J. Dillashaw

Pétur Marinó Jónsson: Geggjaður bardagi! Ég held að TJ sé besti bantamvigtarmaður heims. Ég held að hann geti unnið Dominick Cruz ef þeir mætast aftur ef hann væri með aðeins betri leikáætlun en síðast. Ég held að stíllinn hans TJ henti Cody ekki eins vel og eins og stíllinn hjá Cruz. Cody gat haft hendurnar mjög neðarlega gegn Cruz og hafði ekki áhyggjur af höggunum hans en það getur hann ekki gert gegn TJ. Ég gæti trúað því að fellurnar hjá TJ muni skipta sköpum í þessum bardaga. TJ kemur með meistaralega frammistöðu þar sem hann blandar höggum og fellum ævintýralega vel saman. Ég tippa á að þetta verði geðveikur bardagi og TJ taki þetta eftir dómaraákvörðun.

Guttormur Árni Ársælsson: Ég tek til baka það sem ég sagði um Thompson-Masvidal, ég trúi ekki öðru en að þetta verði bardagi kvöldsins. Mér leiðist rosalega þetta T.J. gegn Team Alpha Male drama en þetta matchup er eitt það trylltasta sem ég man eftir. Garbrandt leit ótrúlega út gegn Cruz á meðan T.J tapaði fyrir Cruz. Það læðist þó að mér sá grunur að Dillashaw vinni þennan bardaga. Dillashaw á stigum í bardaga kvöldsins.

Arnþór Daði Guðmundsson: Verulega spennandi bardagi og það er mikið að segja þegar það er bardagakvöld stútfullt af spennandi bardögum. Þetta er narrative sem hefur verið í gangi lengi, eða síðan TJ yfirgaf TAM og var stimplaður svikari af Cody, Faber og fleirum. Það er hiti á milli manna og orð og loforð um barsmíðar hafa flogið á milli. Cody hefur lengi talað um að hafa rotað TJ á æfingu og til sé myndband af því. TJ hefur svarað því með að segja Cody að birta það, það sé ekki til. Er til betri tími að birta myndbandið en kvöldið fyrir vigtun?

Bardaginn gæti orðið skemmtilegur en spurningamerkið sem ég set við Cody er hvort að hann geti stöðvað fellurnar frá TJ og haldið bardaganum standandi. Ef hann getur það þá getur Cody rotað hvern sem er með vel tímasettum krók. Það er mitt gisk að Cody klári bardagann með TKO í 3. lotu, en það er samt einhver púki í mér sem segir að TJ fái beltið utan um sig eftir bardagann. Cody Garbrandt sigrar eftir tæknilegt rothögg í 3. lotu.

Óskar Örn Árnason: Truflaður hanaslagur. Loksins fáum við úr þessu rifrildi skorið. Það er erfitt að spá fyrir um þetta, ég hallast að Cody en held með TJ. Held einfaldlega að höggþungi Cody muni skila sér, Cody rotar TJ í þriðju lotu.

Cody Garbrandt: Arnþór, Óskar
T.J. Dillashaw: Pétur, Guttormur

Titilbardagi í strávigt kvenna: Joanna Jedrzejczyk gegn Rose Namajunas

Pétur Marinó Jónsson: Ég veit ekki hvort ég sé að vanmeta Thug Rose en ég bara sé ekki hvernig hún á að vinna. Mér finnst hún samt ótrúlega svöl og sérstaklega í öllum þessum staredowns, lætur Joanna ekkert ógna sér og er alveg silkislök á því. Rose hefur verið að bæta sig standandi en hún á mestan séns á sigri í gólfinu. Hún gæti kannski reynt að nota lengdina og sitja aðeins til baka og reyna að vinna á stigum þannig. En Joanna sækir mjög grimmt og hakkar þessar stelpur í sig yfir fimm lotur. Þetta verður klassísk JJ frammistaða, sigur eftir dómaraákvörðun.

Guttormur Árni Ársælsson: Mér þykir Joanna vera að sigla inn í svona Ronda Rousey 2015 territory, þar sem ég sé bara ekki hver ætlar að sigra hana. Eflaust leynist hennar Holly Holm handan við hornið en ég held að hún pakki Namajunas. TKO í annarri lotu.

Arnþór Daði Guðmundsson: Joanna virðist vera ósnertanleg og hefur einfaldlega klárað þyngdarflokkinn ef frá er talin Namajunas. Það er eitthvað óþægilegt vibe sem ég fæ frá Rose, eins og hún sé gjörsamlega sturlaður brjálæðingur, en það getur verið jákvæður eða jafnvel nauðsynlegur hlutur þegar þú leggur MMA fyrir þig. Ég held samt að Joanna sé of sterk fyrir Rose, sem þarf að bíða örlítið lengur eftir sínu tækifæri til að vinna strávigtartitilinn. Joanna sigrar á dómaraákvörðun.

Óskar Örn Árnason: Þessi gæti komið á óvart en ég held að Joanna muni reynast Rose mjög erfið. Held að Rose nái ekki fellum og verði útboxuð og á endanum alblóðug. Annað hvort verður þetta TKO í síðstu tveimur lotum eða Rose lifir af og JJ vinnur örugglega á stigum.

Joanna Jedrzejczyk: Pétur, Guttormur, Arnór, Óskar
Rose Namajunas:

Veltivigt: Stephen Thompson gegn Jorge Masvidal

Pétur Marinó Jónsson: Mjög áhugaverðir stílar að mætast og tveir náungar sem eru bara svart og hvítt. Ég held að Thompson eigi eftir að halda fjarlægðinni vel og velja höggin sín. Hann heldur sér til baka og leyfir Masvidal að sækja. Masvidal verður pirraður en nær samt lítið að snerta Thompson en fær alltaf nokkur högg í sig. Þetta verður flottur taktískur sigur hjá Thompson eftir dómaraákvörðun og Masvidal verður brjálaður út í Thompson fyrir að hafa ekki bara stand and bang með sér í þrjár lotur.

Guttormur Árni Ársælsson: Klikkaður bardagi. Gæti orðið bardagi kvöldsins. Ég er rosalega hrifinn af Masvidal og finnst stíllinn hans stórskemmtilegur. Thompson hefur ekki litið frábærlega út undafarið en hafa ber í huga að síðustu tveir bardagar hans hafa verið gegn Tyron Woodley sem ég tel vera mjög slæmt matchup fyrir hann. Ég spái Masvidal sigri á stigum í stórgóðum bardaga.

Arnþór Daði Guðmundsson: Fáum að sjá Wonderboy aftur eftir tvo bardaga gegn Tyron Woodley og ykkur að segja þá sofnaði ég yfir þeim báðum. Wonderboy er samt hrikalega skemmtilegur bardagamaður en Woodley er það ekki. Masvidal er hins vegar hrikalega skemmtilegur og þess vegna gæti þetta verið uppskrift af geggjuðum bardaga. Masvidal var kominn ansi nálægt titilbardaga en tapaði fyrir Demian Maia. Thompson þarf samt að eiga góða frammistöðu til að minna aftur á sig í veltivigtinni en ég hugsa að margir hafi misst álit á honum eftir bardagana við Woodley. Ég hugsa að brjálæðið í Masvidal hafi betur gegn úthugsuðum Wonderboy. Masvidal sigrar á TKO í 3. lotu.

Óskar Örn Árnason: Mjög áhugaverður bardagi á milli ólíkra stíla. Ég er að treysta á að Masvidal haldi Wonderboy við efnið svo þetta verði ekki leiðinlegur stick and move bardagi. Þetta verður sennilega hnífjafnt og endar í stigum. Ég veðja á að Masvidal taki tvær af þremur lotum og vinni.

Stephen Thompson: Pétur
Jorge Masvidal: Guttormur, Arnþór, Óskar

Millivigt: Johny Hendricks gegn Paulo Costa

Pétur Marinó Jónsson: Ævintýri Johny Hendricks eru alltaf áhugaverð. Hérna mætir hann hrútmössuðum Brassa sem hefur rotað níu af tíu andstæðingum sínum. Það hefur samt allt verið gegn minni spámönnum. Hendricks er núna kominn til Jackson-Winkeljohn og þeim hefur tekist að endurlífga verri menn en Bigg Rigg. Ég ætla að tippa á að Hendricks taki eitt gott lay’n’pray hér og vinni eftir dómaraákvörðun.

Guttormur Árni Ársælsson: Áhugaverður bardagi. Costa er ungur, ósigraður (10-0) en bara með tvo UFC bardaga. Hann kláraði þá reyndar báða með TKO. Hendricks er skugginn af sjálfum sér þessa dagana, búinn að tapa fjórum af síðustu fimm og virðist vera í basli með að ná vigt í millivigtinni, sem er alveg glatað fyrir náunga sem er 175 cm á hæð. Ég held þó að Hendricks sé of sterkur glímumaður fyrir Costa. Nokkrar fellur og lay-and-pray skila honum sigri

Arnþór Daði Guðmundsson: Elsku Johny Hendricks, ég veit ekki hvar ég á að byrja með þig. Þvílíka fallið hjá einum manni, frá því að vera veltivigtarmeistari í það að vera búinn að tapa fimm af síðustu sjö bardögum og ná ekki vigt í millivigtinni. Ég held að þetta skref hjá honum að taka æfingabúðirnar sínar í Jackson-Wink hafi lítið að segja gegn Costa. Costa á eftir að slökkva öll ljós hjá Johny sem á loksins eftir að sjá ljósið og leggja hanskana á hilluna eftir bardagann. Costa sigrar á rothöggi í 1. lotu.

Óskar Örn Árnason: Það er erfitt að hafa trú á Johny Hendricks eftir fimm töp í síðustu sjö bardögum. Hér er hann að mæta risastórum banhungruðum rotara sem lítur út eins og steraður He-Man. Ég held að Costa roti Hendricks í fyrstu lotu en hver veit, kannski nær hann að teygja þetta á reynslunni.

Johny Hendricks: Pétur, Guttormur
Paulo Costa: Arnþór, Óskar

Pétur Marinó Jónsson

Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is

-Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ)
-BS í sálfræði
-Lýsi UFC á Stöð 2 Sport
-MMA fíkill
Pétur Marinó Jónsson

Comments

comments

Pétur Marinó Jónsson

Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Stöð 2 Sport -MMA fíkill

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.