spot_img
Sunday, December 22, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeErlentSpá MMA Frétta fyrir UFC 231 í boði Lengjunnar

Spá MMA Frétta fyrir UFC 231 í boði Lengjunnar

Þá er komið að þessu! Ein stærsta stund á íþróttaárinu á Íslandi þegar Gunnar Nelson stígur í búrið er í kvöld! Líkt og fyrir öll stóru kvöldin birta pennar MMA Frétta sína spá en í þetta sinn er spáin í boði Lengjunnar.

UFC 231 fer fram í Toronto í nótt og er einfaldlega frábært bardagakvöld frá toppi til táar. Lengjan hefur sett upp flotta stuðla fyrir bardaga Gunnars og Oliveira. Hægt er að veðja á sigurvegara, siguraðferð, í hvaða lotu bardaginn ræðst og hvenær bardaginn klárast.

Titilbardagi í fjaðurvigt: Max Holloway gegn Brian Ortega

Pétur Marinó Jónsson: Geggjaður bardagi og bardagi sem býður upp á allt það besta sem MMA hefur að bjóða. Tveir frábærir bardagamenn á toppi ferilsins eins og er (báðir gætu farið hærra), skemmtilegir bardagamenn sem eru ekki með neitt vesen eða stæla og bera virðingu fyrir hvor öðrum. Max Holloway er auðvitað geggjaður, með 12 sigra í röð en ennþá spurningamerki með þennan blessaða niðurskurð hjá honum. Hann náði vigt í gær en leit ekkert sérstaklega vel út. Maður hefur líka séð hann á hótelinu hérna alla vikuna vera að hlaupa í svitagalla til að losa sem mestan vökva og almennt bara ekki litið neitt sérstaklega vel út. Mögulega verður þetta síðasti bardaginn hans í fjaðurvigt, hvort sem hann sigrar eða tapar, og það er aldrei góðs viti.

Brian Ortega er mikill tækifærissinni. Hann hefur tapað mörgum lotum og hefur fjórum sinnum náð sigri í 3. lotu í UFC en oft var hann bara á leiðinni að tapa eftir dómaraákvörðun þegar hann nældi sigrinum. Holloway gæti því verið að vinna allan tímann en svo allt í einu nær Ortega um hálsinn á honum og þá er þetta bara búið. Ortega er samt ekki með neitt sérstakar fellur og Holloway er með frábæra felluvörn.

Ég held að þetta verði bara standandi stríð í langan tíma og mun kannski minna á stríð eins og Robbie Lawler gegn Rory MacDonald. Held að Holloway taki þetta með TKO í 4. lotu þrátt fyrir erfiðleika hans með niðurskurðinn. Held hann sé bara betri alhliða bardagamaður með frábært striking, frábæra felluvörn, mjög gott þol og alvöru hjarta!

Óskar Örn Árnason: Mjög áhugaverður bardagi, mjög ólíkir stílar. Ég held að Ortega sé framtíðar meistari, en ekki strax. Holloway er of sleipur og of góður standandi. Holloway útboxar og sparkar Ortega, inn og út og forðast gólfið. Hollway tekur þetta á stigum.

Guttormur Árni Ársælsson: Geggjaður bardagi og mjög erfitt að spá fyrir um. Á blaði myndi ég segja Holloway sigurstranglegri – hann er miklu meiri volume fighter, betri standandi og með tryllta felluvörn. Ortega er auðvitað með frábær uppgjafartök en hefur svo oft verið ógeðslega tæpur á að tapa bardaganum en nær síðan einhverju hail mary submission í lokin. Ég hef vissulega vanmetið Ortega alla leiðina á toppinn og rothöggið hans gegn Edgar voru ein óvæntustu úrslit síðari ára fyrir mér. Báðir menn litu illa út á vigtinni og fyrir mér er það stóra spurningin í þessum bardaga. Þ.e. hvernig er heilsan hjá Max Holloway? Og hvernig höndlar Ortega, sem hefur aldrei farið þrjár lotur, fimm lotu bardaga gegn meistaranum? Ég ætla að tippa á að við fáum til leiks gamla góða Holloway og að hann stöðvi Ortega í þriðju lotu með TKO.

Lengju stuðlar:

Holloway vinnur: 1,69
Ortega vinnur: 1,67

Max Holloway: Pétur, Óskar, Guttormur
Brian Ortega: ..

Titilbardagi í fluguvigt kvenna: Joanna Jedrzejczyk gegn Valentinu Shevchenko

Pétur Marinó Jónsson: Þetta er einn besti kvennabardagi sem UFC gæti mögulega sett saman. Er mjög forvitinn að sjá hvernig þetta mun spilast. Joanna er þekkt fyrir góða pressu með stungu og lágspörkum en Valentina vill sitja til baka og beita gagnárásum. Stíll JJ gæti því hentað stíl Valentinu vel. Valentina hefur tapað þegar hún er tekin niður (Nunes) eða þegar andstæðingurinn sækir lítið og situr til baka (Nunes aftur). Ég á erfitt með að sjá Joönnu gera það. Valentina er líka stærri, hefur unnið hana þrisvar í Muay Thai og er með betri fellur en Joanna. Valentina gæti alveg brotið þetta upp með því að sækja í köst og fellur inn á milli til að rugla þá pólsku í rýminu. Joanna er að koma upp úr strávigtinni og var niðurskurðurinn mjög þægilegur fyrir hana. Hún hefur verið mjög hress og virkað í góðu standi í aðdraganda bardagans og kannski nær hún bestu frammistöðunni sinni í kvöld. Fyrst hélt ég að Joanna myndi bara taka þetta með því að gera örlítið meira þar sem mér finnst oft vanta volume hjá Valentinu en ég held að Valentina sé bara betri bardagakona. Valentina með sigur eftir dómaraákvörðun.

Óskar Örn Árnason: Það verður áhugavert að sjá hvort að Valentina fái loksins beltið. Ég held að þessir þrír kickbox sigrar Valentinu gegn JJ muni segja söguna, hún er með númerið hennar að einhverju leyti. Valentina sigrar á stigum.

Guttormur Árni Ársælsson: Áhugaverð sálfræði hér að baki þar sem Valentina hefur unnið hana þrisvar í Muay Thai. Ég hef þó enn tröllatrú á Joönnu, þrátt fyrir töpin gegn Rose. Ég held að þetta sé eitt af þessum dæmum þar sem Rose er einfaldlega með númerið hennar en sé Jóönnu fyrir mér pakka öllum öðrum. Þetta verður hörku bardagi en Joanna sigrar að lokum eftir dómaraákvörðun.

Lengju stuðlar:

Valentina vinnur: 1,2
Joanna vinnur: 2,82

Joanna Jedrzejczyk: Guttormur
Valentina Shechenko: Pétur, Óskar

Veltivigt: Gunnar Nelson gegn Alex Oliveira

Pétur Marinó Jónsson: Það er loksins komið að þessu. Maður er búinn að vera að hugsa um þetta í margar vikur og núna er bara Fight Day! Gunnar verður að vinna! Þetta hefur ekki alltaf gengið hjá honum en núna er kominn tíminn til að sýna að hann er meira en „bara“ topp 15 bardagamaður. Ég held hann geti farið lengra og það gerist ekki nema hann vinni Alex Oliveira í kvöld.

Alex Oliveira er mjög hættulegur andstæðingur, það er engin spurning um það. Hann er villtur, aggressívur, harður, með gott þol og getur meitt andstæðinginn á öllum stundum með villtum höggum. Þessi villti stíll gefur líka Gunnari tækifæri á að rífa hann niður í gólfið þar sem Gunnar hefur umtalsverða yfirburði. Í gólfinu er Oliveira hálfgerður spassi, hann nota kraft og sprengju til að losna úr stöðum í stað þess að nota mikla tækni. Það hentar Gunnari vel og gæti ég vel séð hann fljóta ofan á Oliveira ef þetta fer í gólfið. Maður hefur líka séð Oliveira stundum gefa á sér bakið þegar hann stendur upp og ég gæti alveg séð það gerast strax í 1. lotu. Maður hefur alveg trú á strikinginu hjá Gunnari en það er bara svo miklu þægilegra að sjá Gunna taka þetta niður. Auðvitað þarf hann að setja upp felluna með höggum, blekkja Oliveira þannig að hann búist ekki við fellunni þegar Gunni reynir að taka hann niður, en það væri ofboðslega þægilegt að ná þessu niður bara strax takk fyrir. Ég segi að Gunni nái honum niður um miðbik 1. lotu, Oliveira reynir að standa upp en gefur á sér bakið, Gunni stekkur á bakið á honum og klárar með standandi rear naked choke í 1. lotu!

Lengju stuðull
Gunnar vinnur í 1. lotu: 3

Óskar Örn Árnason: Loksins er komið að þessari snilld. Þetta er frábær andstæðingur fyrir Gunnar en sigur hefur aldrei verið mikilvægari. Oliveira er stórhættulegur og getur klárað bardaga á augabragði. Hann er hins vegar nokkuð villtur og gefur færi á sér. Ég býst því við að þetta verði mjög fjörugt en að Gunnar nái honum niður í annarri lotu og klári þetta. Gunnar með mounted high elbow guillotine í annarri.

Lengju stuðull
Gunnar vinnur í 2. lotu: 5,2

Guttormur Árni Ársælsson: Ég er svo glaður að við séum loksins að fá Gunna aftur og get ekki beðið eftir þessum bardaga. Klárlega hættulegur andstæðingur sem má ekki vanmeta – faðmlangur með 13 rothögg. Að því sögðu hugsa ég að þetta sé stíll sem getur hentað Gunna vel ef hann spilar þetta rétt; villt högg og sprengir upp úr öllu á gólfinu. Gunni er bæði geggjaður í gagnárásum standandi en hann er líka ótrúlega flinkur að stjórna plássinu á jörðinni og finna hvernær hann á að vera þungur á toppnum og hvenær hann á að gefa andstæðingnum pláss til að sprengja. Svo endar hann bara á bakinu á þeim. Ég ætla að segja að báðir verði varkárir í fyrstu lotu en að Gunni nái þessu niður í lotu tvö og klári með ground and pound og svo rear naked choke.

Lengju stuðull
Gunnar vinnur í 2. lotu: 5,2

Lengju stuðlar:

Gunnar vinnur: 1,6
Gunnar vinnur með rothöggi: 6,5
Gunnar vinnur með uppgjafartaki: 2,1
Gunnar vinnur á stigum: 6

Oliveira vinnur: 2,01
Oliveira vinnur með rothöggi: 3
Oliveira vinnur með uppgjafartaki: 13
Oliveira vinnur á stigum: 5,2

Gunnar Nelson: Pétur, Óskar, Guttormur
Alex Oliveira: ..

Fjaðurvigt: Hakeem Dawodu gegn Kyle Bochniak

Pétur Marinó Jónsson: Mjög skemmtilegur bardagi sem fer lítið fyrir. Kyle Bochniak er bara grjótharður Boston strákur sem gefur ekkert eftir. Hakeem er heimamaður og mjög fær standandi. Ég held að þetta verði skemmtilegur bardagi. Bochniak er mjög harður en held að Hakeem sé bara tæknilega betri bardagamaður. Gæti alveg séð Bochniak smella einni góðri og rota Hakeem en ætla frekar að segja að Hakeem vinni eftir dómaraákvörðun í skemmtilegum bardaga.

Óskar Örn Árnason: Bochniak getur verið snarruglaður, á góðan hátt. Síðasti bardagi hans á móti sjálfum Zabit Magomedsharipov var rosalegur og fór allar þrjár lotunar. Ég veit ekki mikið um Dawodu en hann virðist efnilegur. Ég held að Dawodu sé sennilega betri en Bochniak tekur þetta samt á hjartanu. Bochniak TKO í blóðugri þriðju lotu.

Guttormur Árni Ársælsson: Bochniak er spennandi og bardaginn hans gegn Zabit var frábær. En það eru reyndar flestir bardagar með Zabit geggjaðir. Dawodu er með mikla kickboxing reynslu en leit samt ekkert sérlega vel út standandi gegn Danny Henry í eina tapinu sínu – þar sem hann var sleginn niður með beinni hægri og síðan subbaður. Ég tippa á að Bochniak taki þetta með rear naked choke í þriðju.

Lengju stuðlar:

Hakeem vinnur: 1,4
Bochniak vinnur: 2,09

Hakeem Dawodu: Pétur
Kyle Bochniak: Óskar, Guttormur

Léttþungavigt: Jimi Manuwa gegn Thiago Santos

Pétur Marinó Jónsson: Þessi verður líka rosalegur. Tveir gæjar sem geta staðið og eru til í að skiptast á höggum. Santos er sigurstranglegri hjá veðbönkum. Hann hefur verið á góðri sigurgöngu, er mikill rotari og Jimi Manuwa er enginn varnarsnillingur. En ég hef alltaf verið mikill Manuwa maður og ætla að tippa á að hann roti Thiago Santos í 2. lotu.

Óskar Örn Árnason: Þessi ætti að vera skemmtilegur. Þessir stóru kallar kýla fast og vilja rothöggið framar öllu. Manuwa ætti að vera tæknilegri boxari svo ég býst við að hans högg rati frekar inn. Manuwa rotar Santos í fyrstu.

Guttormur Árni Ársælsson: Ég hef alltaf haft gaman af Manuwa og ekki skemmir fyrir að hann virðist vera óopinbert lukkudýr Gunna Nelson. Þetta verður í fimmta sinn sem þeir keppa á sama kvöldi og alltaf þegar þeir deila bardagakvöldi sigrar Gunni. Svo skemmir ekki fyrir að hann er fyrrum bílasali sem byrjaði að æfa MMA þegar hann var að skríða í þrítugt – það er auðveldara fyrir svona miðaldra úthverfapabba eins og mig að halda með þannig gæjum. Þetta er einn af þessum bardögum sem ég myndi aldrei þora að veðja krónu á, þar sem hann ákvarðast líklegast af einu höggi. Hjartað segir Manuwa með rothögg í fyrstu lotu og síðan skilur hann hanskana eftir í búrinu.

Lengju stuðlar:

Santos vinnur: 1,38
Manuwa vinnur: 2,14

Jimi Manuwa: Pétur, Óskar, Guttormur
Thiago Santos: ..

spot_img
spot_img
spot_img
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular