Thursday, April 18, 2024
HomeErlentUFC 231: Nær Gunnar stærsta sigrinum á ferlinum?

UFC 231: Nær Gunnar stærsta sigrinum á ferlinum?

Gunnar NelsonGunnar Nelson mætir Alex ‘Cowboy’ Oliveira á UFC 231 í kvöld. Bardaginn er gríðarlega mikilvægur fyrir Gunnar og geta Íslendingar varla beðið eftir að sjá hann í búrinu í kvöld.

Gunnar Nelson er 7-3 á ferli sínum í UFC en samtals er hann 16-3-1 á ferlinum í MMA. Gunnar varð þrítugur í sumar og tók sinn fyrsta bardaga í UFC í september 2012. Gunnar hefur að mörgu leyti verið óheppinn á ferli sínum í UFC. Hann hefur meiðst fyrir mikilvæga bardaga og ekki alltaf fengið þá bardaga sem hann vildi. Auk þess vita allir hvað gerðist síðast og má telja að það búi meira í honum en hann hefur fengið að sýna hingað til. Það besta er sennilega enn framundan.

Gunnar var búinn að vinna tvo bardaga í röð þar sem hann leit virkilega vel út þegar kom að bardaganum gegn Ponzinibbio. Eftir erfitt tap gegn Demian Maia var Gunni kominn á góða siglingu. Ponzinibbio tapið og svo meiðsli hafa ýtt honum aftar í goggunarröðina en nú er kominn tími á að ná smá sigurgöngu. Ef það á einhvern tímann að ná góðri sigurgöngu verður það að koma núna.

Þó það sé algjör klisja að segja það þá er það samt staðreynd að Gunnar hefur aldrei verið í eins góðu formi og núna. Það er líka eins gott að vera í góðu standi enda á hann hættulegan bardaga fyrir vændum.

Alex Oliveira er afar árásargjarn og á það til að hlaupa á eftir andstæðingunum sínum. Hann hendir í þung högg með hægri aftur og aftur án þess að setja það eitthvað sérstaklega vel upp en þegar hann sér mótherjann vankaðan er hann eins og óður hundur.

Þessi villti stíll getur hentað Gunnari ágætlega en það þarf líka að fara varlega í kringum svona bardagamenn og ekki vera kærulaus. Oliveira er auk þess með 10 cm lengri faðm en Gunnar og notar lengdina vel þegar hann hendir fram hægri höndinni villt á meðan hann sækir fram.

Ryan LaFlare byrjaði vel þegar hann mætti Alex Oliveira. Hann tók hann niður í 1. lotu og hélt honum allan tímann niðri. Í 2. lotu náði Oliveira hins vegar að stöðva allar fellurnar og rota LaFlare þegar Bandaríkjamaðurinn steig inn. Vel tímasett upphögg tryggði Oliveira glæsilegan sigur og þarf Gunnar að passa sig þegar hann sækir í fellurnar.

Þessi villti stíll býður líka upp á tækifæri til að ná fellum. Donald Cerrone fór undir högg Oliveira þegar brasilíski kúrekinn steig inn með fléttu og tók hann niður. Skömmu síðar var Cerrone búinn að tappa hann út með uppgjafartaki. Best væri ef Gunnar myndi setja fellurnar upp með höggum eða tímasetja þær þannig að hann noti fellurnar sem gagnárás við árásargirni Oliveira standandi.

Margir hafa gagnrýnt vörnina gegn höggum hjá Gunnari en hans vörn er fyrst og fremst fótavinna og fjarlægð. Stíll og hraði Gunnars standandi kom andstæðingum á borð við Alan Jouban, Brandon Thatch og Albert Tumenov í opna skjöldu þegar þeir mættu Gunnari og aldrei að vita nema það sama verði upp á teningnum í kvöld.

Sigur hjá Gunnari væri einfaldlega hans stærsti á ferlinum. Albert Tumenov var á topp 15 í veltivigt UFC þegar Gunnar sigraði hann og það sama er Alex Oliveira. Oliveira er samt með fleiri bardaga í UFC en Tumenov og hefur betur fest sig í sessi sem topp 15 bardagamaður heldur en Tumenov gerði þegar hann var í UFC. Nú er tíminn fyrir Gunnar til að ná almennilegri sigurgöngu í gang en tap myndi þýða að róðurinn að toppnum yrði ansi erfiður. Nú má ekkert klikka!

Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular