Gunnar Nelson mætir Albert Tumenov í kvöld! Líkt og venjan er fyrir þessi áhugaverðustu bardagakvöldin fara pennar MMA Frétta yfir bestu bardaga kvöldsins.
Þungavigt: Alistair Overeem gegn Andrei Arlovski
Pétur Marinó Jónsson: Hérna getur allt gerst. Báðir átt það til að vera með slæma vörn gegn höggum og eru samanlagt með 17 töp á ferilskránni eftir rothögg. Þegar svona menn mætast getur í raun allt gerst og gæti ég séð báða vinna þennan bardaga. Skil vel þá sem velja Overeem og skil líka þá sem velja Arlovski. Ég ætla samt að tippa á að Arlovski verði hikandi þar sem hann tapaði gegn Miocic síðast og verði hræddur um að rotast. Þetta verður rólegt til að byrja með en svo klárar Overeem hann með höggum í lok 2. lotu.
Guttormur Árni Ársælsson: Ég vona að Arlovski sigri Overeem og tel að hann muni gera það. Alltaf erfitt að keppa við liðsfélaga sem þekkir mann vel en ég held að Arlovski sýni betri takta standandi og nái rothögginu í annarri lotu eftir frekar mikið hik hjá báðum í fyrstu.
Óskar Örn Árnason: Í mínum huga er þetta 50/50 bardagi, sá fyrsti sem kemur inn bombu vinnur. Overeem sigrar á rothöggi í fyrstu lotu og berst næst um beltið.
Brynjar Hafsteins: Overeem hefur fleiri vopn og er búinn að vera að berjast stórfurðulega upp á síðkastið en það er að virka. Overeem sigrar á rothöggi í 3. lotu.
Sigurjón Viðar Svavarsson: Báðir eru þekktir fyrir að taka ekki vel á móti höggum á hökuna. Ég held samt að Overeem sé búinn að aðlagast best að þessu vandamáli og ef hann gasar ekki þá held ég að hann taki Arlovski í fyrstu lotu með tæknilegu rothöggi. Annars erum við að fara horfa upp á 5 lotu horror.
Alistair Overeem: Pétur, Óskar, Brynjar, Sigurjón.
Andrei Arlovski: Guttormur.
Þungavigt: Stefan Struve gegn Antonio „Bigfoot“ Silva
Pétur Marinó Jónsson: Þetta er eiginlega það sama og í Arlovski-Overeem bardaganum bara aðeins verri gæjar tæknilega séð. Hérna er bara spurning hvor hittir fyrst. Bigfoot hefur litið illa út að undanförnu en gæti komist inn fyrir Struve, clinchað hann og klárað hann með höggum í gólfinu eða rotað hann standandi. En Struve ætti (ætti en ekki víst að hann geri það) að geta haldið honum frá sér með löngum faðm sínum og rotað Bigfoot. Ég hef aldrei verið mikill Struve maður og tippa oftast gegn honum. Struve er líklegri hjá veðbönkum og ætti að vinna. En það gerist alltaf eitthvað óvænt og spái því Bigfoot sigri með tæknilegu rothöggi í 1. lotu.
Guttormur Árni Ársælsson: Struve er eiginlega óþolandi. Maður er alltaf að bíða eftir að hann fari að nota faðmlengdina sína en það virðist ekkert vera á leiðinni. Hann er 213 cm (!) á hæð en berst eins og mun minni maður. Bigfoot hefur ekki verið sjón að sjá eftir að honum var bannað að taka inn TRT svo ég ætla að segja að Struve taki þetta eftir TKO í þriðju.
Óskar Örn Árnason: Stuve er miklu yngri en hefur ekki virkað mjög ferskur upp síðkastið, reyndar ekki Bigfoot heldur. Silva er miklu betri á gólfinu en ég held að þetta verð standandi bardagi að mestu og Struve sigrar á tæknilegu rothöggi í 2. lotu.
Brynjar Hafsteins: Struve hefur ekki enn lært á líkama sinn og mun aldrei gera það. Held að hann vinni Silva samt sem er búin á því.
Sigurjón Viðar Svavarsson: Það hefur verið lengi beðið eftir því að Struve nýti hæð sína og faðm en það hefur ekki ennþá gerst. Auk þess hefur hann átt erfitt með að verjast höggum. Bigfoot er búinn að vera í alls konar veseni, tekinn fyrir steranotkun en ég held að hann muni koma inn höggum og klára þetta í 2. lotu á TKO.
Stefan Struve: Guttormur, Óskar, Brynjar.
Bigfoot Silva: Pétur, Sigurjón.
Veltivigt: Gunnar Nelson gegn Albert Tumenov
Pétur Marinó Jónsson: Besti bardagi kvöldsins auðvitað. Gunni verður að vinna. Hann hefur átt erfitt uppdráttar og tapað tveimur af síðustu þremur bardögum. Albert Tumenov er stórhættulegur andstæðingur og eru flestir sérfræðingar að spá honum sigri. Hann er virkilega góður standandi og getur gert mikinn skaða. MMA aðdáendur muna aldrei lengra aftur í tímann en eftir þinn síðasta bardaga og eru margir búnir að gleyma getu Gunna. Gunni mun minna rækilega á sig í kvöld. Hann mun minna fólk á hvers vegna allir voru svona spenntir fyrir honum fyrir nokkrum árum. Gunni sigrar með guillotine hengingu í 2. lotu.
Guttormur Árni Ársælsson: Gunnar gegn Tumenov er ógeðslega spennandi match up. Höfum ekki séð mikið til Tumenov í gólfinu svo ég held að Gunni ætti að taka þetta þangað. Mig grunar hins vegar að þetta eigi eftir að þróast út í smá standandi bardaga og held að Gunnar komi mörgum á óvart og roti Tumenov. Nær sneaky sparki og klárar hann með ground and pound í annarri lotu.
Óskar Örn Árnason: Eftir spennandi fyrstu lotu þar sem báðir skiptast á höggum fer bardaginn í gólfið í annarri lotu og Gunnar sigrar með „armbar“ eða „rear naked choke“.
Brynjar Hafsteins: Nelson kemur í fyrsta skipti með gameplan inn í bardagan og tímasetur felluna og klárar þetta í 2. lotu. Íslendingurinn í mér allavega heldur það en er alls ekki viss. Heilin segir Tumenov en hjartað Nelson!
Sigurjón Viðar Svavarsson: Ég held að fólk sé svolítið að vanmeta Gunna fyrir þennan bardaga, sérstaklega eftir hvernig bardaginn fór á móti Damian Maia. En ég held að Damian Maia hafi þann einstaka hæfileika að láta mjög góða bardagamenn líta illa út og gott dæmi um það er Neal Magny. Magny tapaði með uppgjafartaki í annarri lotu á móti Damian Maia og er síðan þá búinn að vinna þrjá í röð og síðast vann hann Hector Lombard. Ég ætla samt ekkert að taka af Albert Tumenov, hann er rosalegur striker en hann er ekki að koma með neitt sem Gunni hefur ekki séð áður og það er mitt mat að Gunni er búinn að fara á móti sterkari andstæðingum en Tumenov. Ég sé fyrir mér að þetta verði klassískur Gunna bardagi, nær annað hvort höggi eða fellu, endar ofan á og klárar þetta á uppgjafartaki.
Gunnar Nelson: Pétur, Guttormur, Óskar, Brynjar, Sigurjón.
Albert Tumenov: …