Spámaður helgarinnar að þessu sinni er Inga Birna Ársælsdóttir, þjálfari í Mjölni. Inga hefur mikinn áhuga á MMA en auk þess að kenna í Mjölni er hún í Keppnisliði Mjölnis. Inga birtir hér spá sína fyrir UFC 183.
Risabardagi fer fram á laugardagskvöldið þegar þeir Nick Diaz og Anderson Silva mætast. Aðalhluti bardagakvöldsins hefst kl 3 og verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport.
Veltivigt: Jordan Mein vs. Thiago Alves
Jordan Mein er skemmtilegri bardagamaður að mínu mati, finnst hann tæknilegri og hreyfir sig betur á meðan Thiago alves veður mikið inn. Ég spái því að Jordan Mein eigi ekki eftir að láta platast inn í leikinn hans Alves og eigi eftir að sigra bardagann á dómaraákvörðun.
Millivigt: Thales Leites vs. Tim Boetsch
Leites er búin að vinna síðustu sjö bardagana sína. Að mínu mati er hann mun sterkari bardagamaður á öllum sviðum á meðan Tim Boetsch er frekar stífur og er með mun minna fram á að færa. Ég held að Leites eigi eftir að vinna Tim Boetsch á „arm triangle“ í fyrstu lotu.
Léttvigt: Joe Lauzon vs. Al Iaquinta
Ég segi að Joe Lauzon eigi meira í vopnabúrinu, bæði agressífur og góður í gólfinu. Bardagann á eftir að enda í gólfinu og Lauzon nær að sigra á „Rear Naked Choke“ í þriðju lotu.
Veltivigt: Tyron Woodley vs. Kelvin Gastelum
Hvorugir þeirra eru í sérstöku uppáhaldi hjá mér sem bardagamenn en ég spái því að Tyron Woodley spili sig öruggan allan bardagann, haldi sig úr hættu og endi á því að vinna bardagann eftir dómaraúrskurð. Hann á eftir að eiga meira eftir í bensíntanknum en Kelvin og því líta betur út.
Millivigt: Anderson Silva vs. Nick Diaz
Fyrir einhverju síðan hefði ég sagt Anderson án þess að hugsa um það. Eftir ágætis umhugsun ætla ég engu að síður að spá því að Anderson komi í toppformi til baka eftir meiðslin og sýni fram á það af hverju hann var meistari í svona langan tíma. Að mínu mati var hann ekki til staðar almennilega í síðustu tveimur bardögum en hann á eftir að leggja allt í þennan bardaga. Ég segi að hann verði betri á öllum sviðum og klári bardagann með TKO í annarri lotu.