0

Spámaður helgarinnar: Steindi Jr. (UFC 229)

Steindi Jr.

Mynd: Twitter.

UFC 229 er í kvöld og eru ekkert nema frábærir bardagar á dagskrá. Spámaður helgarinnar að þessu sinni er Steindi Jr. sem er vægast sagt spenntur fyrir bardaga Conor McGregor og Khabib Nurmagomedov.

Steinþór Hróar Steinþórsson, betur þekktur sem ‘Staredown’ Steindi Jr., er einn allra vinsælasti grínisti landsins. Hann er þessa dagana á skjánum í þáttunum Suður-Ameríski draumurinn og hefur fylgst með MMA í langan tíma. Gefum honum orðið.

Titilbardagi í léttvigt: Khabib Nurmagomedov gegn Conor McGregor

Sjitt, hvar á maður að byrja? Ég er búinn að vera svefnlaus síðan þessi bardagi var tilkynntur. Ég geri ekkert annað en að hugsa um hann. Akkúrat núna er ég bara ráfandi um í Skeifunni að gera ekki neitt, bara bíða eftir að Big John McCarthy starti þessum bardaga. Þangað til mun ég ekki fúnkera í daglegu lífi, búinn að fá tak í bakið og er bara allur í rústi út af þessum bardaga!

Pressan er meiri á Conor, hlutabréfin lækka við tap, það er bara svoleiðis. En það er líka bullandi pressa á Khabib sem verður líklega gerður að útlaga í Dagestan ef hann tapar þessu. Þeir eru báðir á nálum! Og svo er þetta auðvitað persónulegt líka, þeir hata hvor annan.

Sko, Conor er að koma eftir tveggja ára fjarveru, mjög spennandi að sjá hvernig hann kemur til baka. Síðasti bardagi hans var Mayweather bardaginn, Conor var fyrir besti strikerinn í MMA í dag og er örugglega ennþá betri í dag eftir að hafa bara verið að einbeita sér að boxinu gegn Floyd. Það verður fáranlega spennandi að sjá hvernig hann kemur til leiks og hvort hann sé búinn að bæta sig ennþá meira.

Síðan er hann búinn að vera með lokað camp alveg eins og í seinni bardaganum við Diaz. Einu myndböndin sem maður hefur séð af honum er hann að taka einhverja kollhnýsa og hringspörk út í loftið, en svo veit maður að hann er að æfa daglega með Dillon Danis sem er þyngri en Khabib og sagður einn besti glímumaður out there. Það veit enginn nákvæmlega hvað hann er að bralla. Svo mætti hann á hlýrabol og með sixpensara á blaðamannafundinn á fimmtudaginn. Ég er að skynja smá gamla Conor´s vibe hérna, Írann sem elskar að slást en ekki trúðast.

Ég horfði nýlega á myndband af sérfræðingum fara yfir hvernig Conor hreyfir sig í búrinu í slow mo, hvernig hann stígur inn, finnur fjarlægðina, hvernig hann tímasetur höggin og blekkir andstæðinginn. Þetta var scary stuff, hann er á öðru leveli miðað við aðra counter strikera.

Maður má samt ekki gleyma hvað Khabib er ógeðslega góður og allt öðruvísi en allir aðrir. Hann var auðvitað að glíma við björn sem krakki, búinn að vera basicly í gymminu endalaust bara frá því hann var barn. Hann hefur nánast unnið öll verðlaun sem hægt er að vinna í Rússlandi og er í dag ósigraður 26-0. Hann sleppti því að vera viðstaddur fæðingu sonarins þegar hann keppti um daginn og fékk ekki einu sinni samviskubit, honum var drull. Hann er ómennskur, slagsmálavél með enga sál.

Ef ég ætti að lýsa þessum bardaga þá held ég að Khabib komi passífur. Ég held hann komi ekki eins og á móti Barboza og þessum gæjum. Ef hann fer að gera það þá verður hann bara rotaður. Ég held hann muni vera mjög passífur sem verður held ég bara Conor í hag. Conor mun pressa og stjórna bardaganum. Conor er besti counter striker í heimi en mér finnst hann alltaf bestur þegar hann er að pressa. Ég held að Conor muni passa fjarlægðina fáranlega mikið og gera hann pirraðan. Khabib mun að lokum að skjóta inn. Ég held hann nái kannski takedowni og verður mjög spennandi að sjá Conor í gólfinu, en ég held að þetta muni klárast í 2. lotu. Conor mun ná Khabib þegar hann skýtur inn og rotar hann.

Ef þetta fer í 3. lotu þá held ég að Conor sé búinn. Ef þeir verða að clincha mikið og fara í jörðina þá er Conor bara sigraður í 3. lotu. Ég held hann hafi ekki kraftinn í vinstri lengur eftir tvær lotur af barsmíðum. Fokk nú er ég bara stressaður, er Khabib að fara að taka þetta? Ég spái því að bardaginn fari aldrei allar loturnar. Annað hvort mun Khabib berja hann sundur og saman eins og alla aðra sem hann mætir og Big John McCarthy mun stoppa þetta í 3. eða 4. lotu eða Conor roti hann í 1. eða 2 lotu. Ég er spenntari að sjá Conor enda orðið langt síðan en mér er sama hvor vinnur. Ég vil bara geggjaðan bardaga. Spá; rothögg frá Conor í 2. lotu.

Léttvigt: Tony Ferguson gegn Anthony Pettis 

Það eru margir á því að Tony Ferguson sé bara bestur í þessum flokki, sé jafnvel erfiðari fyrir Khabib heldur en Conor og erfiðari fyrir Conor heldur en Khabib. En ég held hann tapi í kvöld.

Ég held bara að Pettis sé að fara að taka þetta. Tony Ferguson er fáranlega góður, hann er betri striker en Pettis og betri grappler og er bara miklu betri á blaði. Held hann myndi vinna þetta í 99% tilvika en held að þetta verði þessi eini bardagi sem hann tapar. Pettis er að fara að vinna þetta. Það er rosalega mikið í húfi fyrir Ferguson, mögulega titilbardagi og svona en Pettis er bara pressulaus en auðvitað verður back in the mix bigtime ef hann vinnur en efast um að hann myndi endast lengi á toppnum í dag.

Tony var bara of fljótur að gróa! Hann var bara í aðgerð fyrir stuttu og miðað við hvað þetta var slæmt, bara hræðilegt dæmi, þá á ennþá eftir að reyna á fótinn almennilega. Hann datt um fokking snúru en er samt alltaf standandi á einhverjum stórum gúmmíbolta með sólgleraugu í illa upplýstu íþróttahúsi. Hann virðist ekki ætla að læra. Hann er klaufi að eðlisfari og þarf einfaldlega að fara meira varlega en aðrir. Svo var styrktarþjálfarinn hans í Embedded þáttunum og það er örugglega ein versta auglýsing sem þú getur fengið að sýna að þú sért að gúddera þessar æfingar hans. Þetta er bara fáranlegt. Og þegar ég horfi á þennan náunga sem er nýbúinn að detta um einhverja rafmagnssnúru og rífa allt í hnénu og sé hann með sólgleraugun og það segir mér bara að hann hafi ekki lært nógu mikið af þessu. Núna er hann kominn í alvöru fight og maður veit ekkert hvernig staðan á honum er þannig séð.

Ég ætla að giska á að Pettis mæti með miklum krafti, mikið sjálfstraust eftir síðasta bardaga sem hann kláraði vel og bara gamli Pettis mættur í góðum anda. Má ekki gleyma að hann er heldur ekkert gamall, hann er að koma aftur og kemur MMA heiminum á óvart og klárar Ferguson með TKO í 3. lotu.

Léttþungavigt: Ovince St. Preux gegn Dominick Reyes

Þetta er svona klassískur Rick Story bardagi. Ungur efnilegur gæji testaður fyrir alvöru en ég ætla að segja að hann standist prófið! Hann er fáranlega hungraður og the hype is for real og hann klárar bardagann í 2. lotu. Þetta verður samt lengsti og erfiðasti bardaginn hans í UFC en hann nær rothögginu og þetta verður impressive sigur og hann heldur sigurgöngunni áfram. Svo tekur hann tvo flotta sigra og fær titilbardaga eftir það. Held með honum.

Þungavigt: Derrick Lewis gegn Alexander Volkov

Lewis er með verra bak en ég. Það þarf engan menntaðan lækni til að segja okkur að hann er með mjög klemmda taug, náladofa í lappir og alls konar brjósklos í gangi. Síðasti bardaga var auðvitað ömurlegur. Maður heldur með honum samt, algjör bangsi og ljúfur maður þannig að maður heldur alltaf lúmskt með honum af því hann er svo góður gaur. Þetta er mjög mikið tækifæri en ég held að Rússinn sem lítur út eins og Dolph Lundgren mæti þarna og þetta verður erfiður bardagi fyrir Lewis. Rosalega mikill hæðarmunur og faðmunur, með bakið hans Lewis er spurning hvort hann geti teygt sig í átt að honum. Miðað við síðustu frammistöðu hjá honum þá verður hann rotaður í 1. lotu, verður bara walkover. Rússinn er bara hungraðri og þetta verður easy. Volkov klárar hann í lok 1. lotu, tekur þetta létt.

Strávigt kvenna: Michelle Waterson gegn Felice Herrig

Fólk horfir á Waterson sem bara einhverja saklausa skvísu hefur mjög rangt fyrir sér. Hún er að koma til baka eftir sigur síðast á meðan Felice er að koma til baka eftir tap. Það er létt yfir Michelle, hún er mikið að djóka og oft að bjarga Embedded þáttunum með gríni. Það virðist vera ekkert stress og þó hún sé minni og lítil þá megum við ekki láta það blekkja okkur. Hún kemur inn með látum og tekur þetta eftir dómaraákvörðun.

Pétur Marinó Jónsson

Comments

comments

Pétur Marinó Jónsson

Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Stöð 2 Sport -MMA fíkill

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.