Við höldum áfram að fara yfir stöðuna í hverjum þyngdarflokki fyrir sig eins og venjan er á föstudögum. Í síðustu viku skoðuðum við fluguvigtina en í dag skoðum stöðuna í bantamvigtinni.
Þyngdarflokkurinn: Bantamvigt (135 pund – 61 kg)
Bantamvigtin kom inn í UFC með innleiðingu WEC bardagasamtakanna í UFC. Í lok árs 2010 voru allir keppendur WEC bardagsamtakanna færðir inn í UFC og með því komu tveir nýjir þyngdarflokkar en þar á meðal var 135 punda flokkurinn.
Meistarinn
TJ Dillashaw er meistarinn í bantamvigtinni en hann tók titilinn af Renan Barao í maí 2014. Hann hefur aðeins einu sinni varið titilinn, gegn Joe Soto í ágúst 2014, en hans næsta titilvörn verður gegn Renan Barao í lok júlí. Hann er þriðji maðurinn til að vera bantamvigtarmeistari UFC.
Næstu áskorendur
Vandamálið við bantamvigtina er skortur á bardögum. Enginn af topp átta bardagamönnunum í flokknum hefur barist á árinu (nema Urijah Faber en sá bardagi fór fram í fjaðurvigt og telst því varla með). Því er afskaplega lítið að gerast á toppnum í þyngdarflokknum. Margir eru spenntir fyrir bardaga á milli Dominick Cruz (fyrsti bantamvigtarmeistari UFC en þurfti að láta beltið af hendi vegna meiðsla) og Dillashaw en því miður sleit Cruz aftur krossband í lok síðasta árs. Næsti áskorandi á eftir Barao er Raphael Assuncao en hann er síðasti maðurinn til að sigra Dillashaw og er á sjö bardaga sigurgöngu. Eins og svo margir í flokknum hafa meiðsli haldið honum frá búrinu og er óséð hvenær hann snýr aftur.
Hversu líklegt er að við fáum nýjan meistara?
TJ Dillashaw hefur aðeins einu sinni varið beltið sitt og það gegn óreyndum Joe Soto sem kom inn með sólarhrings fyrirvara. Hann slátraði Renan Barao er hann tók titilinn en þarf að sanna sig gegn fleiri andstæðingum. Við gætum fengið nýjan meistara þar sem Dillashaw bíða erfiðir áskorendur á borð við Barao, Assuncao og Cruz. Þess má geta að Assuncao sigraði Dillashaw í október 2013.
Mikilvægir bardagar framundan
Aftur komum við að vandamálinu í þyngdarflokknum – það er ekkert að gerast í bantamvigtinni! Bryan Caraway (#11) og Eddie Wineland (#6) mætast í júlí og Brad Pickett og Thomas Almeida (#14) mætast á UFC 189 þann 11. júlí. Það eru einu mikilvægu bardagarnir í flokknum um þessar mundir en Almeida er mjög spennandi keppandi í flokknum.
Hverjir eru efnilegir?
Núna koma góðu fréttirnar! Það er þó nokkuð af ungum og efnilegum köppum í fjaðurvigtinni. Þar ber helst að nefna Aljamain Sterling og Thomas Almeida. Sterling æfir hjá Matt Serra og Ray Longo og hefur sigrað alla 11 bardaga sína. Eftir sigur á Takeya Mizugaki fyrir skömmu er hann í 8. sæti á styrkleikalistanum. Almeida er 2-0 í UFC og hefur klárað 18 af 19 sigrum sínum með rothöggi eða uppgjafartaki! Hann er aðeins 23 ára gamall og gæti barist um titil ef hann heldur áfram að bæta sig. Þá gætu Pedro Munhoz og Chris Holdsworth skapað sér nafn í bantamvigtinni á komandi árum.
Einhver hættulegur utan UFC?
Bantamvigtin er þyngdarflokkur sem UFC gæti bætt. Bantamvigtarmeistari WSOF, Marlon Moraes, er frábær bardagamaður og sagður sá áttundi besti í heimi í þyngdarflokknum af vefmiðlinum Sherdog. Hann hefur sigrað níu bardaga í röð og ver belti sitt gegn Sheymon Moraes (ekki skyldur Marlon Moraes..) þann 1. ágúst. Sheymon Moras gæti einnig átt framtíðina fyrir sér í bantamvigtinni en hann var í 10. sæti á lista yfir efnilegustu bardagakappa heims utan UFC samkvæmt vefmiðlinum Bloody Elbow.
Goðsagnir í þyngdarflokknum
Miguel Torres og Dominick Cruz eru efstir á blaði þegar kemur að goðsögnum í bantamvigtinni. Torres tapaði aðeins einum af fyrstu 38 bardögum sínum og varði bantamvigtartitil sinn þrívegis í WEC. Eftir að hann tapaði titlinum féll hann hratt niður á við og var síðar rekinn úr UFC. Dominick Cruz er með jafn margar titilvarnir og Torres og getur vonandi náð beltinu sínu aftur. Urijah Faber getur einnig talist goðsögn þrátt fyrir að hafa aldrei tekið titil í flokknum.