Hvor vinnur í bardaga, glímumaðurinn eða boxarinn? Þessi spurning er grunnurinn á bakvið MMA eins og við þekkjum í dag og á rætur sínar að rekja langt aftur í tímann.
Þessari spurningu verður svarað enn og aftur þegar Gunnar Nelson mætir Brandon Thatch. Gunnar þykir einn besti glímumaðurinn í veltivigtinni en Thatch með þeim betri standandi. Af 13 sigrum Gunnars hefur hann unnið níu af þeim með uppgjafartaki. Thatch hefur unnið 11 bardaga og sjö af þeim með rothöggi. Gunnar og Thatch berjast og gefa enn eitt innsæi inn í þesa vangaveltu MMA heimsins.
Glímumenn hafa lengi keppt gegn boxurum eða öðrum standandi stílum þó það hafi ekki verið MMA bardagar. Júdómaðurinn Mitsuyo Maeda ferðaðist um heiminn og barðist gegn öðrum bardagaíþróttum til að sýna styrk júdó.
Maeda ákvað að setjast að í Brasilíu þar sem hann kynntist Gracie fjölskyldunni. Einn af meðlimum fjölskyldunnar var hinn smávaxni Helio Gracie. Hann einbeitti sér að því að beita tækni umfram styrk. Til að sanna getu sína fór Helio svipaða leið og Maeda. Gracie fjölskyldan bauð fólki alls staðar að úr heiminum til að koma og berjast við sig.
Þannig byrjuðu svo kallaðar Gracie áskoranir. Helio barðist gegn mönnum úr öðrum bardagastílum til að sanna yfirburði tækni þeirra bræðra. Þessi tækni varð síðar kallað brasilískt jiu-jitsu eða BJJ. Hans fyrsti bardagi var árið 1932 þegar hann vann atvinnuboxarann Atonio Portugal með uppgjafartaki eftir 30 sekúndur. Hans frægasti bardagi er líklega bardaginn gegn Masahiko Kimura þar sem hann tapaði með kimura lás sem í dag er þekkt uppgjafartak í BJJ.
Þessar Gracie áskoranir héldu áfram með næstu kynslóðum. Rickson Gracie var sá alræmdasti. Hann barðist í MMA bardögum og á 11 skráða sigra og ekkert tap. Hann segist sjálfur hafa unnið 400 bardaga í mismunandi bardagaíþróttum og aldrei tapað. Hann notaði líka högg en var aðallega gólfglímukappi. Hann barðist í svo kölluðum Vale Tudo (engar reglur) keppnum þar sem háðar voru átta manna útsláttarkeppnir á einu kvöldi. Þarna komu menn alls staðar að úr heiminum og börðust til að sýna hvaða bardagastíll var bestur. Box, súmó, ólympísk glíma, BJJ, karate, sparkbox og allt þar á milli.
Allt þetta verður svo grunnurinn að fyrstu UFC keppninni. Rorion Gracie vann með þeim Art Davie og John Milius til að finna besta bardagastílinn. Úr varð UFC 1 árið 1993. Flestir bjuggust við að Gracie fjölskyldan myndi senda Rickson til að sanna gildi BJJ.
Þeim fannst hann hins vegar of mikið nafn og of mikill um sig til að sanna að BJJ væri best. Í stað Rickson sendu þeir yngsta bróðir hans, Royce. Hann var minnstur af sonum Helio og ekki þekktur fyrir að berjast í MMA. Hann vann UFC 1 og vildu þeir meina að þar með hefðu þeir sannað að BJJ væri besta bardagaíþróttin.
Í dag hefur þetta heldur betur þróast. Standandi bardagamenn fóru að læra gólfglímu og glímumenn lærðu box eða sparkbox. Í dag nær enginn langt í íþróttinni án þess að vera vel lærður á öllum víðstöðum bardagans.
Menn hafa þó oft sýna styrkleika. Sumir vilja fara með bardagann í gólfið en aðrir vija halda honum standandi. Margir glímumenn hafa orðið að miklum roturum í MMA og má þar nefna kappa á borð við Chuck Liddel, Chad Mendes, Tyron Woodley og marga fleiri.
Á UFC 189 fara fram tveir klassískir „striker vs. grappler“ bardagar. Conor McGregor mætir glímumanninum Chad Mendes og okkar maður, Gunnar Nelson, mætir Brandon Thatch. Allir eru þeir góðir á öllum vígstöðum bardagans en skara fram úr annað hvort í glímu eða standandi.
Það er enginn gullin regla um hvort sé betra að vera með grunn standandi eða í glímu. Til að ná langt þarf að leggja áherslu á alla fasa íþróttarinnar og geta stjórnað því hvar bardaginn fer fram.
Spurningunni um hvor myndi vinna í bardaga, glímumaður eða boxari, hefur verið svarað að vissu leiti í MMA. Í upphafi sigruðu glímumennirnir en eftir að góðir boxarar lærðu að glíma varð bardaginn jafnari og spurningin um leið flóknari.
Höfundur: Högni Valur Högnason.