spot_img
Friday, December 27, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeForsíðaSunna Rannveig komin með fyrsta bardagann í Invicta

Sunna Rannveig komin með fyrsta bardagann í Invicta

Sunna RannveigFyrsti bardagi Sunnu Rannveigar í Invicta FC bardagasamtökunum var staðfestur seint í gærkvöldi. Sunna mætir Ashley Greenway þann 23. september á Invicta FC 19 bardagakvöldinu.

Mjölniskonan Sunna Rannveig Davíðsdóttir var fyrsta íslenska konan til að keppa í MMA og varð Evrópumeistari áhugamanna í fyrra. Núna verður hún fyrsta íslenska konan til að keppa atvinnubardaga.

Sunna undirritaði fyrr á þessu ári fjölbardagasamning við hið virta bardagasamband Invicta Fighting Championships í Bandaríkjunum. Nú hefur hennar fyrsti bardagi verið staðfestur og fer hann fram í Kansas City þann 23. september.

„Ég er himinlifandi að það sé loksins búið að festa bardaga. Ég er búin að vera að bíða eftir þessu í langan tíma og ég er tilbúin í þetta að öllu leyti. Ég hef ekki barist opinberlega síðan á Evrópumeistaramótinu sem fram fór í nóvember í fyrra og þess vegna er mig farið að klæja í fingurna, eða öllu heldur hnúana,“ segir Sunna Rannveig í fréttatilkynningu.

Sunna mætir Ashley Greenway frá Bandaríkjunum. Hún á 12 áhugamannabardaga að baki, átta sigra og fjögur töp. Þess má geta að eitt af þessum töpum var gegn Tecia Torres sem er hátt skrifuð í strávigt UFC í dag. Fyrsti atvinnubardagi Greenway fór fram í mars á þessu ári og hann vann hún eftir dómaraákvörðun. Það er óhætt að segja að þær Sunna og Greenway eigi margt sameiginlegt. Báðar eru þær 31 árs, báðar með grunn úr Muay Thai og báðar með fjólublátt belti í brasilísku jiu-jitsu.

Ashley Greenway er bandarísk og er meðlimur í Revolution MMA bardagaklúbbnum sem er staðsettur í Spartanburg, Suður-Karólínu. Hennar helsti æfingafélagi er glímukonan og ólympíuverðlaunahafinn Sara McMann sem flestir unnendur MMA ættu að kannast við úr UFC. Má því gera fastlega ráð fyrir því að Greenway sé öflug glímukona.

„Ég veit ekki mikið um andstæðing minn, enda hef ég aldrei lagt mikið upp úr því að vita mikið um mína andstæðinga. Ég einbeiti mér fyrst og fremst að því að vera með sjálfa mig á hreinu. Ég hef aldrei verið í betra formi, enda hef ég varið öllum mínum tíma í að æfa og undirbúa mig.“

Mynd: Kjartan Páll Sæmundsson.
Mynd: Kjartan Páll Sæmundsson.

Þar sem þetta verður fyrsti atvinnubardagi Sunnu mun hún loksins geta notað olnbogana en slíkt er bannað í áhugamannabardögum. Loturnar eru auk þess lengri og hanskarnir þynnri í atvinnubardögum.

„Það sem ég er spenntust fyrir er sennilega það að ég megi loksins nota Muay Thai grunninn minn almennilega. Reglurnar í atvinnumannabardögum henta bardagastílnum mínum miklu betur. Ég hef verið þolinmóð að bíða eftir þessu tækifæri og ég get varla beðið eftir að fá að sýna heiminum hvers megnug ég er.“

Tæpur mánuður er í bardagann og er lokaundirbúningur í fullum gangi. „Þar sem þetta er minn fyrsti atvinnubardagi þá er undirbúningurinn harðari og agaðari en ég hef vanist. Annars vegar þá er mataræðið mjög strangt og hins vegar þá er æfingaplanið mjög þétt. Það er í raun ekkert sem ég geri annað en að æfa, borða og sofa, en mér finnst þetta æðislegt. Það er ekkert sem ég myndi frekar vilja gera. Þetta er draumurinn minn og ég er að láta hann rætast.“

Invicta streymir sínum bardögum á Fight Pass rás UFC en þjónustan er aðgengileg í snjalltækjum, Apple TV og einnig í gegnum vafra í tölvum. Bardagi Sunnu verður sýndur í beinni útsendingu þar.

Hægt er að fylgjast nánar með Sunnu á Facebook síðu hennar hér.

spot_img
spot_img
spot_img
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular