spot_img
Friday, November 22, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeForsíðaSunna Rannveig: Leið ofboðslega vel þegar ég gekk inn í búrið

Sunna Rannveig: Leið ofboðslega vel þegar ég gekk inn í búrið

Mynd: Kjartan Páll Sæmundsson.
Mynd: Kjartan Páll Sæmundsson.

Sunna Rannveig Davíðsdóttir vann sinn fyrsta atvinnubardaga í nótt. Sunna sigraði Ashley Greenway eftir dómaraákvörðun og var sigurinn mjög öruggur.

Bardaginn var fyrsti bardaginn á Invicta FC 19 bardagakvöldinu í Kansas. Sunna stjórnaði pressunni nær allan tímann og var sigurinn aldrei í hættu þó Greenway hafi varist vel.

Þetta var fyrsti atvinnubardagi Sunnu eftir sex áhugamannabardaga. „Mér leið ofboðslega vel satt að segja þegar ég gekk inn í búrið. Þó svo að þetta hafi verið fyrsti atvinnubardaginn minn og samkvæmt því þá hefði alveg verið eðlilegt að það væri einhver skjálfti í mér, þá er þetta ekki í fyrsta sinn sem ég fer í búr til að berjast og ég vissi alveg út í hvað ég var að fara. Þetta var erfiður andstæðingur, en mér leið eins og ég væri með yfirhöndina allan bardagann,” segir Sunna í fréttatilkynningu frá Baklandi.

Sunna náði bakinu á Greenway í 2. lotu þar sem hún náði inn góðum höggum og var nálægt því að ná „rear naked choke“ hengingu. „Ég er að sjálfsögðu himinlifandi með að hafa sigrað minn fyrsta atvinnubardaga en mér finnst örlítið svekkjandi að hafa ekki náð að klára andstæðing minn.”

Mynd: Kjartan Páll Sæmundsson.
Mynd: Kjartan Páll Sæmundsson.

Það sást ekkert á Sunnu eftir bardagann og fagnaði hún með liði sínum eftir bardagann á Cheesecake Factory. „Eftir að bardaganum lauk þá byrjaði ég á að hringja í mína nánustu og láta vita af mér ásamt því að skófla í mig helli krukku af Nutella sem ég tók með mér að heiman frá Íslandi. Eftir það þá fórum við Mjölnisfólkið saman á The Cheesecake Factory og fengum okkur vel að borða. Við, fjögur talsins, pöntuðum 12 ostakökusneiðar á borðið og kláruðum þær allar.“

Undirbúningur Sunnu hófst í júlí og var gífurlega góður. „Ég var búin að fá nokkuð skýrar upplýsingar um að það væri búið að finna fyrir mig andstæðing og að það væri verið að vinna í því að staðfesta bardaga í september. Ég ákvað að hefja strax þá undirbúninginn og fór til Írlands til vinar míns, Paddy Holohan, sem hafði boðið mér að koma og æfa með sér og sínu liði þar. Þetta var frábært upphaf á æfingabúðum sem síðan héldu áfram með mínum liðsfélögum í Mjölni.“

Sunna er mikill sælkeri og finnst fátt betra en að borða Nutella eins og kom fram er við ræddum við hana um mataræðið hennar fyrr á árinu. Hún þurfti þó að láta allt slíkt eiga sig til að skera niður fyrir 52 kg strávigtarflokkinn. Sunna fékk til liðs við sig næringarráðgjafann Lindsey Doyle sem sérhæfir sig í að leiða bardagakonur í gegnum næringar og þyngdarlosunarferli. „Ég fékk ábendingu um Lindsey og ákvað að setja mig í samband við hana. Ég sé sko ekki eftir því. Mér leið vel í öllu ferlinu og mun klárlega gera þetta eins næst.“

Sunna kemur heim á mánudag og mun slappa af á næstu dögum. Ekki er ólíklegt að henni verði boðið að berjast fljótt aftur í Invicta. „Ég hlakka til að koma heim, hitta fólkið mitt og verja nokkrum dögum með þeim. Spjalla, hlæja og hafa það gott. Síðan er það bara beint aftur inn í æfingasalinn. Ég tek með mér gríðarlega góða reynslu úr þessum fyrsta bardaga og get varla beðið eftir því að fara í þann næsta. Ég verð tilbúin þegar síminn hringir.“

Við óskum Sunnu innilega til hamingju með þennan sögulega sigur.

Mynd: Kjartan Páll Sæmundsson.
Mynd: Kjartan Páll Sæmundsson.
spot_img
spot_img
spot_img
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular