Sunna Rannveig Davíðsdóttir var fyrr í kvöld valin vonarstjarna ársins að mati Norræna vefsins MMA Viking.
MMAViking.com veitir árlega viðurkenningar fyrir afrek ársins hjá bardagafólki á Norðurlöndum. Sunna Rannveig var að mati vefsins svo kallaður „Breakthrough fighter of the year“.
Sunna Rannveig átti góðu gengi að fagna á þessu ári. Hún byrjaði á að sigra Mallory Martin í mars í frábærum bardaga. Í júlí sigraði hún svo Kelly D’Angelo og er hún nú með þrjá sigra í jafn mörgum bardögum í Invicta bardagasamtökunum.
Sunna stefndi á að taka fleiri bardaga á þessu ári en handarmeiðsli komu í veg fyrir fleiri bardaga. Nú er hún á góðum batavegi og stefnir á að hefja æfingar af fullum krafti snemma á næsta ári.
Sunna Rannveig hlaut mikla athygli fyrir framgöngu sína á árinu og fylgdist stór hluti þjóðarinnar með bardögum hennar á árinu.
MMA Viking hefur veitt verðlaunin árlega frá 2012 en þess má geta að Gunnar Nelson hlaut sömu verðlaun árið 2012. Sunna Rannveig hlaut einnig verðlaunin bardagakona ársins að mati vefsins í fyrra.