spot_img
Monday, November 18, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeForsíðaSunna Wiium: Verð í Muay Thai þangað til ég verð gömul kona

Sunna Wiium: Verð í Muay Thai þangað til ég verð gömul kona

Mynd af Facebook síðu Sunnu.

Sunna Wiium er ein fárra íslenskra kvenna sem keppt hefur í Muay Thai. Sunna er með sex bardaga að baki og stefnir á að vera í íþróttinni fram að gamals aldri.

Sunna er 25 ára gömul og hefur æft bardagaíþróttir í nokkur ár en í dag æfir hún Muay Thai hjá VBC í Kópavogi. „Haustið 2012 byrjaði ég í Mjölni á grunnnámskeiði í boxi og síðan í glímunni. Ég tók tímabil þar sem ég var að æfa sitt og hvað í meira og minna í tvö ár en þá fór ég til Tælands og kynntist Muay Thai,“ segir Sunna.

Sunna er 5-1 í Muay Thai en þrjá bardaga tók hún í Tælandi og þrjá í Englandi. Fyrsta bardagann tók hún í Tælandi í nóvember 2014 og fann hún ekki mikið fyrir einhverju stressi.

„Fyrsti bardaginn minn endaði með dómarastoppi í annarri lotu eftir hnéspörk úr clinchi. Ég var mjög peppuð fyrir fyrsta bardagann, búin að dreyma um það lengi að komast í hringinn þannig það var eiginlega ekki pláss fyrir neitt stress. Það er svo mikið annað í gangi eins og glymurinn í kynninum, lætin í áhorfendum og sérstaka Muay Thai tónlistin undir. Svo er maður löðrandi í heitri Thai olíu þannig ég komst bara í góðan gír.“

Sunna ákvað að skella sér til Tælands árið 2014 eftir að hafa æft bardagaíþróttir í tvö ár hér heima. Þar dvaldi hún í Phuket og var það frábær reynsla. „Ég var komin í þann fýling að langa að æfa og læra sem mest. Ég vildi verða góð að sparka og mig langaði mest að fá bardaga. Ég hef líka alltaf verið með bilaða útþrá þannig að þetta lá beinast við.“

„Phuket er nátturulega ansi nálægt því að vera paradís, sérstaklega fyrir fólk sem vill lifa heilsusamlegum lífstíl en á Soi Taied, götunni sem langflestir æfa á, er allt sniðið að hinum Vestræna æfingatúrista sem vill borða heilsuskálar, próteinsjeika og brokkolí. Það er hins vegar mjög auðvelt að leigja vespu og keyra út fyrir götuna og upplifa tælenska menningu, markaði, góðan mat og strendur. Reynslan mín var frábær en ég var þar í fimm mánuði.“

Í fyrra dvaldi Sunna svo í Englandi í eitt ár þar sem hún tók þrjá bardaga. En hvert stefniru í Muay Thai? „Ég stefni á að æfa og veltast í Muay Thai þangað til ađ ég verð gömul kona.“

Valgerður Guðsteinsdóttir tók sinn annan atvinnubardaga á föstudaginn í Noregi og stóð hún uppi sem sigurvegari eftir dómaraákvörðun. Fyrir bardagann æfði Valgerður með Sunnu og Sunnu Rannveigu Davíðsdóttur. „Það var mjög gaman að geta hjálpað henni í undirbúningnum og ég er spennt fyrir að gera meira af því. Við erum svo fáar hérna og samstaðan er því mjög mikilvæg ef við viljum ná árangri. Svo er Valgerður svo almennileg og aðdáunnarverð. Ég vissi að hún myndi rúlla þessum bardaga upp.“

Allur fókus er á Muay Thai þessa stundina en Sunna útilokar ekki að keppa í MMA í framtíðinni. „Ég fylgist mjög mikið með MMA og finnst það snilld, þannig það er aldrei að vita hvað framtíðin ber í skauti sér.“

Sunna, Valgerður og Sunna Rannveig.
spot_img
spot_img
spot_img
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular