spot_img
Tuesday, December 10, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeForsíðaÞað er ekkert verra að vera í Vegas: Mín upplifun af UFC...

Það er ekkert verra að vera í Vegas: Mín upplifun af UFC 178

Það er sérstök upplifun að vera viðstaddur UFC viðburð og Las Vegas er mjög sérstakur staður. UFC 178 var líka sérstakt bardagakvöld, því það er sjaldan sem bardagakvöldin eru jafn drekkhlaðin góðum bardögum eins og UFC 178.

Las Vegas er einstök borg. Ég held að enginn staður í heiminum sé jafn ýktur. Bílarnir, fólkið, ljósin, lætin og umfram allt byggingarnar eru eins yfirgengilegar og hugsast getur. Eftir langa göngu frá bílastæðahúsinu rötuðum við loksins inn í MGM Grand Garden Arena, sem er stórglæsilegur vettvangur fyrir bardaga. Í salnum eru sæti fyrir tæplega 17.000 manns en áhorfendapallarnir eru vel brattir, þannig að maður sér vel, sama hvar maður situr.

Það er allt svo stórt í Las Vegas að það tekur langan tíma að komast á milli staða og það varð til þess að því miður missti ég af fyrsta helming fyrstu lotu í fyrsta bardaga. Ég var því látinn bíða við innganginn því umsjónarmenn svæðisins sjá til þess að fólk sé ekki að þvælast í og úr sætum sínum á meðan lotur eru í gangi. Það er afar ánægjuleg stefna, því það væri leiðinlegt að missa af einhverju vegna einhvers þvælings hjá öðrum áhorfendum. En ég var kominn í sætið í tíma til að sjá Manny Gamburyan fá duglegt spark í punginn og þola miklar barsmíðar áður en hann sigraði með uppgjafartaki og dró vinkonu sína, Ronda Rousey, inn í hringinn og skoraði á Bryan Caraway, kærasta erkióvinar Rousey, Miesha Tate.

Ég tók snemma eftir tveimur hlutum sem voru mjög ólíkir upplifun minni í Nottingham árið 2012. Það voru enn mjög mörg auð sæti og ofdekruðu Bandarikjamennirnir sem fá UFC í bæinn mörgum sinnum á ári bauluðu óspart ef menn voru ekki að sveifla beinunum í hvorn annan linnulaust. Þeir kunna ekki að meta pásur útaf höggum í klofið né glímu í gólfinu. Þeir voru líka uppfullir af góðum ráðum, eins og „kick his ass”, „choke him out”, „knock his head off” og „finish him”, hlutir sem þrautþjálfuðum bardagamönnum hefði sjálfsagt aldrei dottið í hug.  Ég er viss um að þeir voru þakklátir fyrir að fá aðgang að slíkum viskubrunnum þegar á hólminn var komið.

20140927_180749

Eftir því sem leið á upphitunarbardagana fjölgaði fólki í salnum og stemmningin jókst. Þegar kom að bardaga Dominick Cruz gegn Takeya Mizugaki voru áhorfendur farnir að hafa mjög hátt. Um leið og þeim bardaga lauk fór svo fólk að streyma inn af fullum krafti og salurinn fylltist næstum. Það er greinilegt að margir í Vegas kúka peningum og hika ekki við að borga nokkur hundruð dollara fyrir sæti á UFC viðburði þó þeir hafi engan áhuga á að horfa á neitt nema stærstu bardaga kvöldsins. Það finnst mér algjör klikkun, ekki síst í ljósi þess að þetta fólk sleppti m.a.s. að horfa á bardaga Cruz. Það sem meira er, mörgum af þessum sömu einstaklingum lá svo á að byrja að skemmta sér í Vegas að þeir höfðu engan tíma fyrir aðalbardaga kvöldsins. Sumir létu sig m.a.s. hverfa strax eftir bardaga McGregor og Poirier.

Eftir að aðalhluti bardagakvöldsins hófst fann maður hvernig mörg þúsund manns brugðust við hverju einasta höggi og titringur fór um salinn í hvert sinn sem stór högg lentu næstum. Þegar þung högg hittu í mark æptu þúsundir í einu og þegar dómarinn stoppaði bardaga varð allt klikkað og salurinn spratt á fætur öskrandi. Yoel Romero setti allt á annan endann með umdeildum sigri á Tim Kennedy. Í hvert sinn sem andlit McGregor birtist á stóru skjáunum urðu allir Írarnir í salnum brjálaðir og öskruðu og sungu „olé, olé, olé” svo hátt að ekkert annað heyrðist.  Það var augljóst að þegar kæmi að bardaga hans myndi allt verða vitlaust.20140927_190639

Þegar kom að því að Bruce Buffer kynnti McGregor heyrðist ekkert í Buffer því Írarnir yfirgnæfðu hann gjörsamlega og hávaðinn varð ærandi. Krafturinn og orkan sem kom frá áhorfendum var svo yfirþyrmandi að það var næstum því of mikið. Salurinn sprakk þegar hann gekk frá Poirier eins og ekkert væri auðveldara. Fagnaðarlætin voru svo mikil að það varð hálfgert spennufall þegar komið var að Cerrone og Alvarez og Írarnir héldu áfram að fagna sigri McGregor með dansi, drykkju og söng það sem eftir lifði kvölds.

Svo byrjaði fólk að streyma út þegar kom að aðalbardaga kvöldsins. Það var svo sem að vissu leyti skiljanlegt. Aldrei þessu vant var aðalbardagi kvöldsins mun minna spennandi en bardagarnir sem komu á undan. Ég held það hafi ekki komið neinum á óvart að Demetrious Johnson sýndi algera yfirburði gegn Chris Cariaso. Það sem kom kannski mest á óvart var hversu snöggur hann var að sigra. En enn og aftur var ég samt hissa á fólki sem var búið að borga formúu fyrir miðann sinn og sat ekki í gengum allan viðburðinn. En eins og ég segi, í Vegas eru greinilega margir sem kúka peningum, annars væri borgin ekki svona ótrúlega íburðarmikil.

20140927_182748

spot_img
spot_img
spot_img
Oddur Freyr Þorsteinsson
Oddur Freyr Þorsteinsson
Greinahöfundur á MMAFréttir.is
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular