18. október næstkomandi munu þrír fræknir Mjölnismenn keppa áhugamannabardaga í MMA. Þetta eru þeir Bjarki Þór Pálsson, Bjarki Ómarsson og Magnús Ingi Ingvarsson.
Þann 20. september ferðaðist Bjarki Þór Pálsson til Wales og tókst á við Anthony O´Connor. Bjarki gerði sér lítið fyrir og sigraði með “guillotine” hengingu í annarri lotu. Bjarki fékk að launum léttvigtarbelti Shinobi War og er það annar titill Bjarka Þórs.
Nú tæpum mánuði síðar mun Bjarki ferðast aftur til Bretlands þar mun hann taka þátt í bardagakvöldi sem AVMA bardagakeðjan sér um. Kvöldið kallast Aire Valley Martial Arts: Fight night 4 en þetta er í annað sinn sem Mjölnismenn keppa í þessari bardagakeðju.
Bjarki mun takast á við Anthony Dilworth um léttvigtartitil AVMA og mun bardagi þeirra vera aðalbardagi kvöldsins. Dilworth hefur sigrað sex bardaga og tapað þremur. Bjarki sagði í samtali við MMA Fréttir að hann vissi voða lítið um andstæðing sinn og að hann væri gríðarlega hungraður þessa dagana.
Þeir Bjarki Ómarsson (1-1) og Magnús Ingi Ingvarsson (2-0-1) munu einnig keppa á bardagakvöldinu en misstu báðir andstæðinga sína fyrr í vikunni. Bjarki er þó kominn með nýjan andstæðing, Nico Bajerski (1-0), og fær Magnús Ingi að öllum líkindum andstæðing innan tíðar. Við munum flytja ykkur frekari fregnir af bardögum þeirra en í næstu viku birtum við upphitunarþátt okkar, Leiðin að búrinu, fyrir kappana þrjá.
Hér er hægt að horfa á bardaga með Anthony Dilworth, andstæðingi Bjarka Þórs.