Mölnir sendi fjögurra manna keppnislið til Northampton fyrir helgi til að taka þátt á Battle Arena 83 sem fer fram í dag, laugardag. Þeir Mikael Aclipen, Steinar Bergsson, Viktor Gunnarsson og Anton Smári eru úti ásamt Gunnari Nelson. Mikael Aclipent átti að berjast upp á belti en bardagi hans er í hættu þar sem að andstæðingur hans neyddist til að draga sig úr bardaganum.
Anton Smári tilbúinn í sína frumraun
Anton er annar þeirra Mjölnismanna sem mun þreyta sína MMA frumraun í dag. Anton mætir heimamanninum Ndubuisi en hann er sjálfur að þreyta sína frumraun. Það er því ekki mikið hægt að finna um Ndubuisi, hvorki æfingarmyndbönd né fyrri bardagar. En Anton er tilbúinn í búrið og ætlar sér að spila þetta eftir eyranu.
Mikael Aclipen fær ekki bardaga
Þær fregnir fengust í morgun að Mikael Aclipen muni ekki berjast í dag, ekki nema einhver hetja bjóði sig fram á allra allra síðustu stundu. Mikael fékk fréttir af því að andstæðingurinn hefði dregið sig úr keppni á miðvikudeginum en ákvað samt sem áður að fljúga út í von um að fá bardaga. Um tíma virtist það vera svo að Mikael fengi andstæðing en það gekk illa að semja um catchweight og féll sá bardagi líka upp fyrir. Klukkan 09:30 á keppnisdegi var enn þá ekki búið að finna andstæðing og því ansi ólíklegt að svo verði.
Steinar Bergsson, löng bið á enda.
Steinar Bergsson er einnig að berjast sinn fyrsta MMA-bardaga og er sjáanlega mjög spenntur. Steinar mætir Norðmanninum Samir Noor sem er einnig að berjast sinn fyrsta bardaga í MMA en Noor er svartbeltingur í karate og hefur því líklega einhverja keppnisreynslu og er að öllum líkindum mjög fínn striker. En Samir Noor hefur átt við meiðsli upp á síðkastið og þurfti til að mynda að fara í sína aðra hnéaðgerð fyrir sirka ári síðan og þurfti að sætta sig við tíma á hliðarlínunni í kjölfarið.
Steinar Bergsson er hvorki ókunnugur Norðmönnum né striking. Steinar bjó um tíma sjálfur í Noregi og varð landsmeistari í hnefaleikum í unglingaflokki á þeim tíma. Steinar hefur beðið lengi eftir því að komast í búrið en á sama tíma hefur hann þurft að sætta sig við biðina þar sem hann er nýorðinn 18 ára gamall og hefur reynst erfitt að finna handa honum bardaga til þess. Þeir bardagar sem hafa boðist hafa fallið upp fyrir. Það er 9 ára aldursmunur á Noor og Steinari en vonandi mun það ekki koma að sök, enda er Steinar spenntur að gefa Noor hnefafylli af sjálfræði beint í smettið.
Engar bremsur á Viktori
Viktor Gunnarsson hefur verið óheppinn undanfarið og hefur misst síðustu tvo bardaga. Viktor mætir núna heimamanninum Hamid Choudhary sem er 1 – 0 sem áhugamaður í MMA og fékk Choudhary sinn fyrsta sigur á Battle Arena 78. Við látum youtube-hlekk fylgja með hér fyrir neðan.
Viktor er á góðri leið með að vera landsþekktur bardagamaður en Viktor hefur verið hreint óstöðvandi í búrinu hingað til. Viktor er 3 – 1 sem áhugamaður og kom tapið hans í janúar 2022 þegar Viktor brann út á þoli í annarri lotu og greindist svo seinna með covid. Fyrir utan þetta eina bakslag hefur Viktor ekki nennt að draga bardagana sína á langinn og hefur sótt alla sína sigra í fyrstu lotu.