Það er komið að því að gera upp árið 2020 í MMA heiminum. Í ár var mikið af flottum nýliðum í UFC og er því tilvalið að setja upp topplista yfir þá bestu og efnilegustu.
Á næstu dögum munum við gera upp árið en farið var rækilega yfir árið í áramótaþætti Tappvarpsins sem kom út á dögunum.
5. Miranda Maverick (1-0 í UFC á árinu)
Miranda tók sinn fyrsta bardaga í UFC á móti Liana Jojua seint á árinu og vann hann sannfærandi í fyrstu lotu. Í þessum bardaga leit hún mjög vel út á köflum þó hún hefði étið aðeins of mikið af höggum fyrir minn smekk. Í þessum bardaga sáum við ekkert af glímunni hennar en hún á að vera mjög góð þar líka. Miranda gæti að mínu mati vel komist á topp 5 í fluguvigtinni ef hún fær tækifærið á næsta ári og verður spennandi að fylgjast með henni. Þó er erfitt að hafa hana hærra á listanum vegna þess að hún hefur einungis tekið einn bardaga í UFC á árinu. Einnig var fjallað um Miranda Maverick í á uppleið hérna á síðunni fyrir frumraun hennar í UFC.
4. Jiří Procházka (1-0 í UFC á árinu)
Jiří Procházka kom inn í UFC með látum þegar hann vann Volkan Oezdemir í sínum fyrsta bardaga í UFC. Með þessum sigri komst hann í fimmta sæti á styrkleikalista UFC í léttþungavigtinni en hann er eini nýliðinn sem hefur náð svona hátt á sínum styrkleikalista. Jiří lítur vel út en þarf fleiri bardaga í UFC áður en hægt er að dæma um hvort hann fari alla leið eða ekki. Oezdemir er auk þess mjög óútreiknanlegur og erfitt að dæma um getu Jiří út frá frammistöðum hans í RIZIN. Jiří mætir Dominick Reyes í febrúar og verður það stórt próf fyrir hann.
3. Jamahal Hill (3-0 Í UFC á árinu)
Jamahal Hill mætti inn með látum í UFC á þessu ári og vann þrjá bardaga og er núna kominn á topp 15 á styrkleikalista UFC í léttþungavigt. Til að byrja með var ég alls ekki sannfærður á að Hill gæti orðið eitthvað í UFC en eftir frammistöðu hans á árinu hefur sú skoðun breyst. Eins og þegar við fjölluðum um hann fyrr á árinu þá tel ég að hann verði bara hliðvörður í léttþungavigt en gæti gengið betur ef hann færi niður í millivigt. Þar gæti hann mögulega orðið mjög góður og náð langt.
2. Tom Aspinall (2-0 í UFC á árinu)
Tom Aspinall er rosalegt efni í þungavigtinni og er sá bardagamaður sem ég er spenntastur fyrir. Aspinall viðist hafa allt sem þarf og virðist líka verið með hausinn rétt skrúfaðan á. Auk þess er alger unaður að horfa á hann berjast og mæli ég með þvi að horfa á bardagana hans fyrir þá sem hafa ekki séð þá eða bara horfa á þá aftur. Eftir tvo bardaga í UFC sem hann vann báða snemma í fyrstu lotu, annan standandi og hinn með höggum í gólfinu, lítur hann einfaldlega mjög vel út. Þá má nefna að hann er svart belti í BJJ og ætlaði um tíma að verða atvinnuboxari og æfði þá með Tyson Fury. Þá verður maður samt að hafa það í huga að þetta voru frekar slakir andstæðingar sem hann var að berjast við. Þrátt fyrir það er ég sannfærður um að Aspinall eigi séns á að verða meistari í UFC. Hann lítur einfaldlega það vel út.
1. Khamzat Chimaev (3-0 í UFC á árinu)
Þetta var árið hans Khamzat Chimaev. Hann kom inn í sumar og vann þrjá bardaga gríðarlega sannfærandi. Strax er fólk farið að líkja honum við Khabib en virðist vera mun hættulegri standandi. Hann átti þrjá ótrúlega sigra á árinu og er strax farinn að vekja mikla athygli á sér. Það verður afar áhugavert að sjá hvað hann gerir á næsta ári en því miður mun bardaginn gegn Leon Edwards ekki fara fram í janúar þar sem Khamzat hefur dregið sig úr bardaganum.