Síðastliðinn laugardag sendi VBC í Kópavogi fjóra keppendur á West Coast Battle 7 í Svíþjóð. Keppt var í Muay Thai en þetta er í þriðja sinn sem VBC sendir keppendur erlendis á þessu ári.
Þeir Chet Pichet Korchai, Birgir Þór Stefánsson, Örnólfur Þór Guðmundsson og Þórður Bjarkar kepptu allir á mótinu fyrir hönd VBC. Með í för var Kjartan Valur Guðmundsson, formaður VBC í Kópavogi.
Sjá einnig: Fyrsti atvinnumannabardagi VBC
Chet Pichet Korchai keppti í fjögurra manna útsláttarkeppni í atvinnumannaflokki. Hann tapaði naumlega í fyrri umferð, 2-1, í skemmtilegum bardaga og var því úr leik. Birgir Þór Stefánsson keppti gegn mun reyndari bardagamanni en sá var að taka sinn tuttugasta bardaga. Birgir Þór tapaði bardaganum 3-0. Örnólfur Þór Guðmundsson var að keppa sinn annan bardaga og sigraði hann örugglega 3-0.
Þórður Bjarkar heldur áfram að gera það gott í baradagaheiminum en hann sigraði sinn sjötta bardaga í röð um helgina. Þórður gerði sér lítið fyrir og sigraði fyrrum Svíþjóðarmeistara í Muay Thai. Bardaginn var aldrei í hættu og allir dómararnir dæmdu Þórði sigur.
Við heyrðum í Kjartani en hann var hæst ánægður með ferðina. „Þetta var frábært kvöld og gríðarlega vel staðið af því. Þeir hjá West Coast Battle voru með söfnun fyrir börn með krabbamein og safnaðist mikill peningur með kvöldinu fyrir þau. Strákarnir stóðu sig allir frábærlega og alltaf gaman að sjá hvað þeim fer fram með hverjum bardaganum. Einnig gaman að sjá að þeir láta okkur fá alltaf sterkari og reynsumeiri andstæðinga,“ segir Kjartan.