Friday, March 29, 2024
HomeErlentTyron Woodley: Fannst þetta vera frábær frammistaða

Tyron Woodley: Fannst þetta vera frábær frammistaða

Tyron Woodley var sáttur með frammistöðu sína gegn Demian Maia á UFC 214 á laugardaginn. Bardagi hans og Maia uppskar mikið baul frá áhorfendum og var frammistaða Woodley harðlega gagnrýnd.

Tyron Woodley er enn veltivigtarmeistari UFC eftir sigurinn á Maia. Dana White, forseti UFC, var meðal þeirra sem gagnrýndu Woodley eftir sigurinn en meistarinn var sjálfur sáttur með sína frammistöðu.

„Mér fannst þetta vera frábær frammistaða. Ég var að mæta manni á sjö bardaga sigurgöngu sem hefur unnið heimsklassa andstæðinga, tekið bakið þeirra og klárað þá. Ódrepandi sem gefur sig aldrei, hversu margar fellur reyndi hann? 24 og ég varðist 24 þeirra. Þetta er fjórði titilbardaginn minn á 12 mánuðum. Hversu marga heimsklassa veltivigtarmenn hafa endað í gólfinu með honum? Hann gat ekki gert það gegn mér,“ sagði Woodley á blaðamannafundinum eftir bardagann.

Dana White taldi að Woodley hefði getað klárað Maia í 1. eða 2. lotu. Woodley greindi frá því að hann hefði verið í vandræðum með öxlina sína í bardaganum og gat því ekki notað yfirhandar hægri eins og hann er vanur.

Áhorfendur bauluðu hátt í höllinni en Woodley segir að baulið hafi engin áhrif á sig. „Það er ekkert sem truflar mig þegar ég er þarna inni. Þið getið baulað, ég hef aldrei séð baul hjálpa andstæðingnum mínum ná sigri. Ég þarf að vera gríðarlega einbeittur þar sem þetta er besti þyngdarflokkurinn í heiminum.“

„Ég veit að aðdáendur vilja sjá blóð, skurði og menn skiptast á höggum. Þið þurfið samt að átta ykkur á að ég er að mæta sérfræðingum. Ég er ekki að fara að taka snúningsspark á Stephen Thompson. Ég er ekki að fara að taka Demian Maia niður til að sanna að ég eigi skilið að fá svart belti í brasilísku jiu-jitsu, þannig að ég varð að gera þetta taktískt. Ég gerði allt og hélt mér við leikáætlunina og geng sáttur frá borði með beltið.“

Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular