Þar sem UFC 176 hefur verið fellt niður hefur UFC Fight Night 50 verið styrkt til muna. Í næstsíðasta bardaga kvöldsins á UFC 176 áttu fyrrverandi Strikeforce meistararnir Ronaldo “Jacare” Souza og Gegard Mousasi að takast á. Nú munu þeir berjast á UFC Fight Night 50.
Dana White tilkynnti fréttirnar í gegnum Twitter síðu sína en ekki kom fram hvort þeir fái að verða aðalbardagi kvöldsins. UFC Fight Night 50 fer fram í Connecticut í Bandaríkjunum. Bardagakvöldið verður á föstudegi sem er óvanalegt fyrir UFC en Bellator verður með kvöld aðeins 16 kílómetrum í burtu á sama kvöldi.
Mousasi barðist seinast við Mark Munoz þar sem hann sigraði með hengingu í fyrstu lotu en þar áður hafði hann tapað gegn Lyoto Machida eftir dómaraúrskurð. Mousasi og Jacare Souza hafa barist áður en sá bardagi var fyrir sex árum þar sem Mousasi sigraði með uppsparki. Þar hreppti Mousasi millivigtarbelti DREAM sem hefur nú hætt störfum.
Souza er hins vegar á sex bardaga sigurgöngu þar sem hann hefur m.a. sigrað Ed Herman og Yushin Okami. Nú seinast sigraði hann Francis Carmont eftir dómaraúrskurð.
Þess má geta að Gegard Mousasi er ekki sáttur með vinnubrögð UFC þar sem hann frétti af aflýsingu UFC 176 í gegnum samfélagsmiðla og lét hann óánægju sína í ljós á Facebook síðu sinni.