Nú eru bara fjórir dagar í bardagakvöldið mikla og áfram heldur upphitun MMA Frétta. Í dag skoðum við bardaga Ronaldo ‘Jacare’ Souza gegn Yoel Romero sem er þriðji bardaginn á aðalhluta bardagakvöldsins.
Millivigt: Ronaldo ‘Jacare’ Souza (22-3 (1)) gegn Yoel Romero (10-1)
„Jacare“ Souza er í öðru sæti á styrkleikalista UFC í millivigt og fyrrum millivigtarmeistari Strikeforce. Jacare, sem er 35 ára gamall, hefur unnið átta bardaga í röð og klárað sjö þeirra. Með yfirburðasigrum á Yushin Okami og Gegard Mousasi sýndi Jacare að hann á að vera í toppbaráttunni og með sigri á Romero, sem er í þriðja sæti styrkleikalistans, myndi Jacare sanna að hann ætti að fá næsta tækifæri á að klófesta beltið.
Jacare er einn besti gólfglímumaður í UFC og margfaldur heimsmeistari í BJJ. En þó hann hafi fyrst verið þekktur eingöngu sem hættulegur glímumaður hefur hann á síðustu árum bætt boxið sitt gríðarlega og orðið tæknilegur og höggþungur standandi. M.ö.o. er hann stórhættulegur alls staðar og getur klárað bardagann bæði standandi og í gólfinu á örsnöggum tíma.
Nokkrir hlutir til að hafa í huga
- Getur klárað bardagann hvar og hvenær sem er
- 16 af 22 sigrum hafa komið með uppgjafartaki
- Einn besti gólfglímumaður UFC
- Tæknilegur og höggþungur standandi
- Ósigraður í fjögur ár
Yoel Romero kom einnig úr glímuheiminum inn í MMA en hann var heimsmeistari og vann silfur á Ólympíuleikunum í frjálsri glímu. Rétt eins og Jacare er hann kominn inn á seinni ár ferilsins, orðinn 38 ára gamall, en er líka einn hæfileikaríkasti og hættulegasti bardagamaður þyngdarflokksins. Romero hefur slegið sig inn í hjörtu UFC aðdáenda eftir að hann kom frá Strikeforce árið 2013 með fimm rothöggum í sex bardögum, síðast gegn Lyoto Machida. Alls hefur hann unnið níu af tíu sigrum með rothöggi. Rétt eins og Jacare hefur hann verið ósigraður í fjögur ár. Romero hefur unnið mjög sterka andstæðinga í UFC og mun án efa fá næsta titilbardaga ef hann sigrar Jacare.
Romero er gríðarlega öflugur glímumaður eins og við er að búast en hann býr einnig yfir ótrúlegri snerpu, hraða og sprengikrafti sem skila sér í óútreiknanlegum stíl og brjáluðum höggþunga. Þegar hann gerir árás gerir hann árás af fullum þunga og það er erfitt að sjá hvort fella eða högg sé á leiðinni. Hann leggur jafn mikinn kraft í fellur og högg og sprengir þegar andstæðingurinn á þess síst von. Romero er ekki endilega sá tæknilegasti standandi en hann bætir það upp með hraða og krafti og það hefur skilað góðum árangri.
Þó Romero sé frábær glímumaður hafa menn sem eru verri glímumenn en hann tekið hann niður. Þetta sáum við hjá Romero gegn Derek Brunson og Ronny Markes. Brunson var ágætis glímumaður í bandarísku háskólaglímunni en það kemst ekki nálægt afrekum Romero á Ólympíuleikunum.
Romero æfði hins vegar ekkert glímu fyrr en fyrir Brad Tavares bardagann. Síðan hann byrjaði aftur að glíma hefur hann ekki verið tekinn niður í MMA.
Nokkrir hlutir til að hafa í huga:
- Afar höggþungur
- Hefur rotað andstæðinginn í 9 af 10 sigrum
- Gríðarlega sterkur og sprengifimur
- Ósigraður í fjögur ár
Spá MMA Frétta: Það verður gaman að sjá þessar tvær gömlu Strikeforce hetjur loks mætast og alltaf gaman að sjá glímumann mæta BJJ manni, þó báðir þessir bardagamenn séu auðvitað færir á öllum sviðum. Þeir eru líka báðir mjög skemmtilegir að því leyti að þeir eru alltaf að reyna að klára bardagann og það kæmi því ekki á óvart ef dómararnir fá frí í þessum bardaga.
Það er óvíst hvort Jacare geti haldið Romero niðri þó hann geti mjög líklega náð honum í gólfið. Ef hann getur það mun Jacare líklega vera frekar fljótur að klára bardagann með uppgjafartaki, jafnvel í fyrstu lotu. Ef Romero stekkur beint upp aftur, sem er ekki ólíklegt, gæti þetta orðið harður bardagi standandi. Þeir geta báðir rotað en líklega er Jacare með betri vörn og fjölbreyttari árás og myndi því kannski sigra eftir dómaraúrskurð. Það er ef Romero nær ekki rothöggi eða mörgum þungum höggum sem vinna loturnar. Þeir verða líklega báðir ófeimnir við að glíma svo það má búast við fjörugum, fjölbreyttum og jöfnum bardaga.