spot_img
Sunday, December 22, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeErlentUFC 202: Fáum við allt öðruvísi bardaga í kvöld en síðast?

UFC 202: Fáum við allt öðruvísi bardaga í kvöld en síðast?

ufc 202UFC 202 fer fram í kvöld þar sem þeir Nate Diaz og Conor McGregor mætast í aðalbardaga kvöldsins. Síðast fór Nate Diaz með sigur af hólmi en verður það sama upp á teningnum í kvöld?

Kapparnir mættust fyrst á UFC 196 þann 5. mars. Nate Diaz sigraði þá með hengingu í 2. lotu eftir að hafa vankað Conor standandi. Bardaginn var frábær skemmtun en Conor vildi umsvifalaust fá annað tækifæri gegn Diaz.

Honum varð að ósk sinni og ríkir mikil spenna fyrir bardagann í kvöld. Conor McGregor hefur gert mikið af breytingum hjá sér og verður afar áhugavert að sjá hvernig hann kemur til leiks eftir tapið.

Í þetta sinn hefur undirbúningurinn snúist um að undirbúa Conor sem best fyrir Nate Diaz. Áður hefur Conor og hans lið lítið verið að spá í andstæðingnum og einbeitt sér að sínu. Æfingafélagarnir hafa flestir verið hávaxnir og örvhentir rétt eins og Nate Diaz.

Önnur breytingin er sú að Conor hefur gert talsvert meira af þolæfingum. Conor var orðinn mjög þreyttur í 2. lotu síðast sem kostaði hann sigurinn. Núna er Conor í mun betra formi, hefur einbeitt sér að glímunni og ætlar að hefna fyrir tapið.

Þreytan í síðasta bardaga var þó ekki bara líkamleg. Andlega var Conor eflaust ekki tilbúinn í svona stríð. Hann hefur sennilega vanmetið Diaz og talið að hann myndi rota hann í 1. lotu eins og hann heftur svo oft gert áður. Þegar Conor sá að Diaz var ekki að detta niður sama hvað Conor kýldi mikið hafði það talsverð áhrif á þreytuna.

Það má líkja þessu við maraþonhlaupara sem heldur að það sé bara stutt eftir af hlaupinu en áttar sig svo á því að það eru 10 km eftir. Conor hélt (rétt eins og hlauparinn) að það væri stutt í endamarkið en sá svo að það var mun lengra í rothöggið en hann hélt. Það hefur eflaust haft áhrif á Conor enda hélt hann að þetta yrði enn eitt rothöggið í safnið. Núna verður Conor að vera tilbúinn í 25 mínútna stríð við Nate Diaz.

Conor gekk samt vel í 1. lotu. Hann var að koma með góð gagnhögg eins og yfirhandar vinstri yfir stunguna hans Diaz og gætum við fengið að sjá meira af því á morgun. Í stað þess að Conor pressi strax frá fyrstu sekúndu gætum við séð Conor halda sig meira til baka. Conor er hraðari og nákvæmari en Diaz og gæti nýtt sér gagnhöggin í meira mæli í þetta sinn.

Við vitum alveg að Conor er enginn vitleysingur. Hann lærir af mistökunum en verður það nóg?

nate diaz

Nate Diaz kom síðast inn með aðeins 11 daga fyrirvara. Hann kemur umtalsvert sterkari til leiks í þetta sinn enda fengið almennilegan undirbúning. Diaz hefur alltaf verið með mjög gott þol og verður eflaust engin breyting á því að þessu sinni.

Flestir eru að spá í því hvernig Conor McGregor kemur til leiks en hvernig mun Diaz koma til leiks? Það skemmtilega við Diaz bræðurna er að þeir hafa í raun lítið breyst undanfarin ár og vitum við nokkurn veginn hvað Nate Diaz er að fara að gera á morgun. Hann er betri í gólfinu og komist hann í yfirburðarstöðu eins og „mount“ eða nái bakinu er Conor í miklum vanda.

Diaz er auðvitað með mjög harða höku og aðeins einu sinni tapað eftir rothögg. Josh Thomson smellti sköflungi í höfuð Diaz og fylgdi því svo eftir með höggum í gólfinu og er hann sá eini sem hefur tekist að stöðva Diaz með höggum.

Diaz má samt ekki treysta of mikið á hökuna. Hann var að fá of mikið af höggum í sig síðast og vill eflaust sleppa við það í þetta sinn. Hann mun væntanlega gera örlitlar breytingar hjá sér en annars má búast við sama gamla góða Nate Diaz.

Nate Diaz veit samt að andstæðingarnir brotna oft þegar þeir sjá að hann er ekki að falla niður. Nick Diaz sá það gegn Paul Daley og Takenori Gomi á sínum tíma. Báðir reyndu Gomi og Daley hvað þeir gátu að rota Nick en tókst ekki. Smám saman fóru þeir að brotna og þegar Diaz bræðurnir sjá það auka þeir hraðann og setja pressu á andstæðinginn. Það var það sem Nate Diaz gerði gegn Conor og er spurning hvort hann muni gera það aftur í kvöld. Nate Diaz er með frábæra 1-2 fléttu (stunga og bein vinstri úr örvhentri stöðu) og á Conor von á því að fá mikið af beinum höggum í sig frá Diaz.

Stóra spurningin er hvers konar leikáætlun mun Conor McGregor koma með til leiks á morgun. Hann getur ekki gert það sama og síðast og búist við að vinna. Hann má ekki halda að hann hafi bara verið óheppinn og þess vegna tapað. Conor þarf að læra og vaxa sem bardagalistamaður. Hvernig Conor hefur lært og aðlagast eftir tapið er eitt það áhugaverðasta við þennan bardaga. Í kvöld munum við komast að því úr hverju Conor McGregor er gerður.

UFC 202 fer fram í kvöld og er bardagi Conor McGregor og Nate Diaz aðalbardagi kvöldsins.

conor ufc 196 done

spot_img
spot_img
spot_img
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular