Saturday, April 20, 2024
HomeForsíðaUFC Fight Night 30: Umfjöllun um úrslit

UFC Fight Night 30: Umfjöllun um úrslit

UFC Fight Night 30: Machida vs. Munoz fór fram á laugardagskvöldið í Manchester. Aðeins fjórir bardagar fóru í dómaraákvörðun og því var mikið um rothögg og uppgjafartök!

Machida stimplaði sig rækilega inn í millivigtina með frábæru haussparki! Machida rotaði Munoz í fyrstu lotu og hefði getað fylgt sparkinu eftir með höggum í gólfinu en hætti við þegar hann sá að Munoz var ekki fær um að verja sig. Machida hneigði sig fyrir andstæðingi sínum og bauð honum svo út að borða eftir á, þvílíkur klassi! Það verður gaman að sjá hvern hann berst við næst og hafa Vitor Belfort, Jacare og Gegard Mousasi allir verið nefndir. Þetta eru allt virkilega spenanndi bardagar en persónulega er ég spenntastur fyrir að sjá Mousasi mæta drekanum. Mosuasi hefur barist í léttþungavigt undanfarin ár en hefur lýst því yfir að hann vilji fara niður í millivigt. Allt í einu er millivigtin orðin mest spennandi þyngdarflokkurinn í UFC. Mark Munoz reyndi aðeins eina fellu en Machida fór frá fellunni eins og nautabani!

 

Ross Pearson og Melvin Guillard endaði frekar leiðinlega þar sem bardaginn var dæmdur ógildur vegna ólöglegs hnésparks hjá Guillard. Ákvörðunin var umdeild þar sem hnéspörkin virtust lögleg í endursýningu. Dómarinn sér þetta þó bara einu sinni svo það var erfitt að meta þetta. Pearson var þarna klárlega að spila eftir reglunum með því að hafa aðra höndina á gólfinu en þá er bannað að hnjáa andstæðing í höfuð. Sú regla er fáranleg en er sem betur fer í endurskoðun. Þeir mætast þó aftur í mars í London.

Jimi Manuwa sigraði annan bardagann sinn í röð eftir undarleg meiðsli andstæðings. Hann hefur núna sigrað alla þrjá bardaga sína í UFC en á líklegast eftir að eiga í vandræðum með sterka glímumenn eins og Ryan Bader svo dæmi sé tekið. Það er þó alltaf gaman að sjá hann berjast þar sem hann er með ótrúlegan kraft. Vonandi fær hann bara „striker” næst eins og t.d. James Te Huna eða Rafael „Feijao“ Cavalcante. Ég skil ekki af hverju Ryan Jimmo er alltaf að leitast við að „clincha“ við andstæðinga sína en gera svo ekkert þar? Það er einhver leiðinlegasta taktík sem ég hef séð! Það hefur verið talað um að Manuwa geti ekki fengið að berjast í Bandaríkjunum þar sem hann gæti ekki fengið landvistarleyfi þar sökum vafasamrar fortíðar. Allt slíkt tal eru bara orðrómar en það er þó vitað að Manuwa á vafasama fortíð áður en hann snéri sér að MMA.

Norman Parke leit ágætlega út þegar hann sigraði Jon Tuck eftir dómaraákvörðun. Parke er nú 3-0 í UFC og verður spennandi að sjá hvern UFC láta hann berjast við næst. Jon Tuck gerði það sem mér þykir leiðinlegast að sjá í UFC; þegar menn eru augljóslega búnir að tapa fyrstur tveimur lotunum en gera ekkert í þriðju lotu til að reyna að klára bardagann.

Nicholas Musoke sigraði Alessio Sakara mjög óvænt í fyrstu lotu. Eftir að hafa verið vankaður snemma náði Musoke að svara fyrir sig og endaði á að ná frábærum „armbar“. Þetta er líklegast síðasti bardagi Sakara í UFC í bili en hann hefur nú tapað fjórum bardögum í röð.

John Lineker sigraði þriðja bardagann í röð eftir tæknilegt rothögg og er líklegast eini maðurinn sem hefur náð því í fluguvigtinni í UFC. Því miður þá náði hann ekki vigt í þriðja sinn í UFC. Það veldur því að hann fær ekki titilbardaga næst. Talað er um að Mike Dolce muni þó mæta á svæðið og láta hann ná 125 punda takmarkinu. Ef hann hefði tapað þessum bardaga hefði hann jafnvel getað verið látinn fara úr UFC þar sem UFC eru ekki ánægðir þegar menn ná ekki vigt, hvað þá þrisvar sinnum!

Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular