Saturday, May 18, 2024
HomeErlentUFC molar - Cerrone bókaður aftur, þungavigtarslagir og Gastelum áfram í millivigt

UFC molar – Cerrone bókaður aftur, þungavigtarslagir og Gastelum áfram í millivigt

donald cerroneÞað hefur mikið verið um að vera á skrifstofum UFC síðustu daga og bardagasamtökin bókað marga áhugaverða bardaga. Í UFC molunum tökum við fyrir þá áhugaverðustu sem bókaðir hafa verið.

Donald Cerrone fljótur að fá bardaga

Donald Cerrone bar sigur úr býtum gegn Matt Brown um síðustu helgi. Eftir bardagann óskaði hann eftir bardaga á bardagakvöldinu í Denver þann 28. janúar og hefur hann fengið ósk sína uppfyllta. Cerrone vildi helst fá Demian Maia en var svo sem til í að mæta hverjum sem er. Hann fær Jorge Masvidal í Denver en þetta verður þá fimmti bardaginn hans á 12 mánuðum. Jorge Masvidal vann Jake Ellenberger viku fyrr og snúa þeir því báðir aftur í búrið skömmu eftir bardaga. Þær Valentina Shevchenko og Julianna Pena berjast í aðalbardaga kvöldsins.

Þungavigtarslagir

Francis Ngannou barðist á UFC bardagakvöldinu í Albany síðastliðinn föstudag. Hann fór tiltölulega létt með Anthony Hamilton og kláraði hann í 1. lotu með „kimura“ uppgjafartaki. Hann kom því ansi heill úr bardaganum og er strax kominn með næsta bardaga. Ngannou mætir gamla brýninu Andrei Arlovski á UFC on Fox 23 í Denver þann 28. janúar. Ngannou er 4-0 í UFC en hann óskaði eftir topp 10 andstæðingi líkt og Arlovski og fær því bardagann sem hann óskaði eftir. Arlovski hefur átt erfitt uppdráttar en hann tapaði öllum þremur bardögum sínum í ár og alla eftir rothögg.

Annar þungavigtarmaður sem barðist á föstudaginn, Derrick Lewis, er líka strax kominn með næsta bardaga. Lewis mætir Travis Browne á UFC 208 þann 11. febrúar. Browne hefur tapað tveimur af síðustu þremur bardögum sínum á meðan Lewis hefur unnið fimm í röð í þungavigtinni.

Kelvin Gastelum verður áfram í millivigtinni (í bili)

Kelvin Gastelum verður áfram í millivigt en hann mætir Vitor Belfort á UFC bardagakvöldi í Brasilíu þann 11. mars. Gastelum langar að berjast í veltivigt en hefur átt erfitt með að komast niður í 77 kg og hefur þrívegis mistekist að ná vigt. Hann hefur þó alltaf litið vel út í millivigtinni líkt og hann sýndi gegn Tim Kennedy á UFC 206 um síðustu helgi.

Bardaginn fer fram á UFC Fight Night 107 í Fortaleza og verður aðalbardagi kvöldsins. Þess má geta að UFC bætti einnig við léttvigtarbardaga Edson Barboza og Beneil Dariush sama kvöld. Tveir hörku bardagar eru því komnir á bardagakvöldið í Brasilíu í mars.

Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular