Eins og vanalega er nóg að gerast í MMA heiminum. Meiðsli, Twitter-deilur og samningur við Bellator er það sem finna má í UFC molunum.
Rick Story meiddur
Rick Story átti að mæta Erick Silva á UFC bardagakvöldi í Kanada þann 23. ágúst. Hann hefur nú dregið sig úr bardaganum vegna meiðsla en Story hefur ekkert barist síðan hann sigraði Gunnar Nelson í október í fyrra. Neil Magny tekur hans stað en Magny tapaði nýlega gegn Demian Maia eftir uppgjafartak. Tapið markaði endalokin á sjö bardaga sigurgöngu hans. Það verða því aðeins þrjár vikur milli bardaga hjá Magny í ágúst en Magny barðist fimm sinnum árið 2014.
Cathal Pendred vs. CM Punk
Cathal Pendred og fyrrum fjölbragðaglímukappinn CM Punk áttu í deilum á Twitter í gærkvöldi. CM Punk samdi við UFC í lok árs 2014 en hefur enn ekki barist. Hann hefur aldrei barist bardaga í MMA áður og er frumraun hans beðið með mikilli eftirvæntingu. Hann er þó stórt nafn í Bandaríkjunum og vilja margir fá bardaga gegn honum þar sem viðureignin myndi vekja mikla athygli. Einn af þeim sem hefur óskað eftir bardaga við Punk er Íslandsvinurinn Cathal Pendred. Pendred gerði grín að getu Punk á Twitter í gær og skutu þeir á hvorn annan um nokkurt skeið. Deiluna má sjá á vef Bloody Elbow hér.
Josh Thomson í Bellator
Josh Thomson samdi í gær við Bellator eftir að samningur hans við UFC rann út. Thomson hefur tapað síðustu þremur bardögum sínum og ákvað UFC að endurnýja ekki samninginn hans. Hann hefur þess í stað samið við Bellator eins og fastlega var búist við. Scott Coker, forseti Bellator og áður forseti Strikeforce, átti gott samstarf við Thomson í Strikeforce þegar Thomson barðist þar og því kemur það ekki á óvart að Coker skyldi hafa boðið honum samning við Bellator. Thomson snéri aftur í UFC eftir níu ára fjarveru þegar hann sigraði Nate Diaz í apríl 2013. Í kjölfarið fékk hann titilbardaga gegn Anthony Pettis en ekkert varð úr bardaganum vegna meiðsla Pettis. Í kjölfarið fór hann á þriggja bardaga taphrynu gegn Benson Henderson, Bobby Green og Tony Ferguson.