Fjölmargir bardagar voru staðfestir í gær á UFC 214. Jon Jones og Daniel Cormier verða í aðalbardaga kvöldsins á UFC 214 í Anaheim þann 29. júlí en nokkrir bardagar hafa nú bæst við.
Sage Northcutt mætir Claudio Puelles (7-2, 0-1 í UFC) í léttvigt. Northcutt hefur ekkert barist síðan hann tapaði fyrir Mickey Gall í desember eftir hengingu í 2. lotu. Northcutt þurfti að láta fjarlægja hálskirtlana á dögunum en er nú tilbúinn til að fara aftur á fullt.
Northcutt er 3-2 í UFC en bæði töpin hafa komið eftir uppgjafartök. Hann er nú hættur í háskólanum til að einbeita sér að MMA ferlinum en Northcutt hefur verið að æfa mikið með veltivigtarmeistaranum Tyron Woodley.
Fyrrum bantamvigtarmeistarinn Renan Barao fer aftur niður í bantamvigt eftir tvo bardaga í fjaðurvigt. Barao var lengi vel í erfiðleikum með niðurskurðinn í bantamvigtina og fór því upp í fjaðurvigt. Þar tapaði hann gegn Jeremy Stephens en vann svo Philippe Nover í fyrrahaust.
Barao mætir Aljamain Sterling og verður mjög áhugavert að fylgjast með niðurskurði Barao fyrir bardagann, sérstaklega í ljósi þess að bardaginn fer fram í Kaliforníu. Íþróttasamband Kaliforníu ríkis samþykkti á dögunum nýjar vigtunarreglur sem eiga að koma í veg fyrir stóran niðurskurð hjá bardagamönnum.
Þá munu þeir Chan Sung Jung, betur þekktur sem The Korean Zombie, og Ricardo Lamas eigast við í hörku fjaðurvigtarslag á kvöldinu. Chan Sung Jung snéri aftur eftir þriggja ára fjarveru í febrúar þegar hann rotaði Dennis Bermudez í 1. lotu.
Þeir Lamas og Jung áttu að mætast á UFC 162 árið 2013 en Jung fékk í staðinn titilbardaga gegn Jose Aldo eftir að andstæðingur Aldo, Anthony Pettis, meiddist.
Fjórum bardögum hjá minni spámönnum var einnig bætt á bardagakvöldið. Josh Burkman og Drew Dober mætast í léttvigt, Kailin Curran og Alexandra Albu mætast í strávigt kvenna, Eric Shelton og Jarred Brooks mætast í fluguvigt og Dmitrii Smoliakov og Adam Wieczorek mætast í þungavigt.