spot_img
Friday, December 20, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeErlentUFC virðist ætla að bóka Conor-Diaz 2 og það er fáranlegt

UFC virðist ætla að bóka Conor-Diaz 2 og það er fáranlegt

nate conorSamkvæmt háværum orðrómi munu þeir Conor McGregor og Nate Diaz mætast aftur á UFC 200. Kapparnir mættust fyrir tæpum tveimur vikum síðan en þá fór Diaz með sigur af hólmi.

Bardaginn var gríðarlega vel heppnaður tekjulega séð fyrir UFC. Talið er að um 1,5 milljón heimili hafi keypt „Pay Per View-ið“ á UFC 196 og var kvöldið eitt það söluhæsta í sögu UFC. Conor McGregor er gríðarlega vinsæll bardagamaður en það má ekki vanmeta hæfileika Nate Diaz til að selja bardaga og vekja áhuga.

Svo virðist sem UFC ætli að endurtaka þessa formúlu á UFC 200 í júlí. Óhætt er að segja að harðkjarna aðdáendur séu gríðarlega óánægðir með þessa ákvörðun enda virðist hún eingöngu vera tekin út frá viðskiptalegum sjónarmiðum.

Þessi bardagi mun selja og það er það eina sem UFC er að hugsa um. Conor McGregor er enn fjaðurvigtarmeistari en mun ekki verja beltið sitt eins og hann sagðist ætla að gera eftir tapið gegn Diaz.

McGregor varð fjaðurvigtarmeistari í desember er hann rotaði Jose Aldo. Hann hefur ekki enn varið beltið sitt en freistaði þess að verða tveggja flokka meistari með því að skora á léttvigtarmeistarann Rafael dos Anjos. Eftir að dos Anjos meiddist kom Nate Diaz í hans stað.

Svikin loforð

Eftir að McGregor varð fjaðurvigtarmeistari var planið hans að skiptast á að verja fjaðurvigtar- og léttvigtarbeltið (eftir að hann væri búinn að sigra dos Anjos). UFC leyfði fjaðurvigtarmeistaranum að skora á léttvigtarmeistarann af því að McGregor hefur alltaf staðið við orð sín.

En nú eru bæði UFC og McGregor að svíkja gefin „loforð“. Það er svo sannarlega ekki skortur á áskorendum fyrir McGregor í fjaðurvigtinni en bæði Jose Aldo og Frankie Edgar eiga skilið að fá titilabardaga. Samt sem áður hefur UFC ákveðið að leyfa McGregor berjast í veltivigt gegn Nate Diaz.

Þegar Nate Diaz vann McGregor var hann ekki að taka neitt belti af honum. Þetta var bara skemmtilegur veltivigtarbardagi fyrir okkur aðdáendur. Núna ætlar UFC hins vegar að leyfa McGregor að fá einhvers konar hefnd aðeins nokkrum mánuðum eftir bardaga þeirra. Það er sturluð ákvörðun með tilliti til annarra möguleika fyrir McGregor. Þetta er sturluð ákvörðun út frá íþróttalegu sjónarmiði en frábær ákvörðun fyrir UFC viðskiptalega séð.

Aðdáendur pirraðir en munu samt horfa

Harðkjarna bardagaaðdáendur eru æfir yfir þessum fréttum. UFC hefur oft verið sagt vernda McGregor gegn sterkum glímumönnum (eins og Frankie Edgar) og enn einu sinni er UFC að setja Edgar á bekkinn. Þessi sami hópur hugsar eflaust með sér „þetta er fáranlegur bardagi, en ég mun samt horfa“ og seinni hluti setningarinnar er það sem skiptir mestu máli fyrir UFC. Fólk mun horfa.

Hvað ætlar UFC að gera ef McGregor tapar aftur fyrir Diaz? Framtíðar möguleikar hans í léttvigtinni yrðu eflaust talsvert síðri. Væri UFC að setja saman þennan bardaga ef McGregor hefði unnið?

Það er klárt mál að það yrði alltaf mikill áhugi á seinni bardaga þeirra en af hverju að flýta sér og gera hann strax aftur? Af hverju ekki að bíða aðeins og láta McGregor verja fjaðurvigtarbeltið sitt í fyrsta sinn? UFC ákvað þess í stað að setja fjaðurvigtina í enn meiri kyrrstöðu og græða aðeins.

Hvað með Frankie?

Frankie Edgar hefur glímt við nárameiðsli að undanförnu en samkvæmt fjölmiðlamanninum Luke Thomas myndi Edgar vera tilbúinn fyrir UFC 200 í júlí.

UFC gæti þó hugsanlega verið að fresta bardaga McGregor og Edgar þar til MMA verður löglegt í New York ríki. Talið er að MMA sé nú ansi nálægt því að verða lögleitt í New York og gæti það jafnvel gerst á árinu. Frankie Edgar kemur úr New Jersey og yrði bardagi milli McGregor og Edgar í Madison Square Garden risastór fyrir New York og UFC.

Það er ljóst að mikið á eftir að vera rætt um þennan bardaga og ekki allir sammála um ágæti þessa bardaga. Bardaginn er þó ekki enn staðfestur af hálfu UFC svo kannski er öll gagnrýnin ótímabær.

conor mcgregor
Mynd: Kjartan Páll Sæmundsson.
spot_img
spot_img
spot_img
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular