spot_img
Sunday, December 22, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeForsíðaUppáhalds bardagamaður: Shogun Rua

Uppáhalds bardagamaður: Shogun Rua

Shogun Rua er uppáhalds bardagamaður margra bardagaáhugamanna og ekki að ástæðulausu. Hann er hrikalega árásargjarn og leitast alltaf eftir að klára andstæðingana en það er eitthvað sem aðdáendur kunna að meta.

shogun-ruaMauricio “Shogun” Rua (oftast kallaður Shogun) fæddist í Curitiba í Brasilíu og byrjaði að æfa Muay Thai 15 ára og brasilískt jiu jitsu tveimur árum síðar. Fljótlega kom í ljós að bardagaíþróttir áttu vel við hann og gerðist hann atvinnumaður í íþróttinni. Hann starfaði sem fyrirsæta samhliða bardagaferlinum í upphafi til að afla tekna. Það kunni ekki góðri lukku að stýra að mæta með glóðarauga í myndatökur en sem betur varð hann fljótt sigursæll bardagamaður.

Shogun skrifaði nafn sitt á sögubækurnar þegar hann sigraði Pride titilinn árið 2005 aðeins 23 ára gamall. Í Pride var barist um titilinn í útsláttarkeppni og var þessi tiltekna keppni sögð sú erfiðasta í sögu MMA. Í þessari millivigtarkeppni (var 205 punda flokkur líkt og léttþungavigtin í UFC en bar nafnið millivigt) voru margir af bestu bardagamönnum sögunnar. Leið Shogun í úrslitin var langt í frá að vera auðveld. Hann byrjaði á að gjörsigra Quinton “Rampage” Jackson, sigraði svo Antonio “Lil Nog” Nogueira í besta bardaga ársins 2005 og komst þar með í undanúrslitin. Undanúrslitin og úrslitin voru háð á sama kvöldi en þar mætti Shogun Alistair Overeem. Hinu megin mættust þeir Ricardo Arona og Wanderlei Silva og var mikið gert úr því hvað myndi gerast ef Silva og Shogun myndu báðir sigra þar sem þeir voru æfingafélagar og góðir vinir.

Þann 28. ágúst fóru undanúrslitin og úrslitin fram. Shogun rotaði Alistair Overeem í fyrstu lotu á meðan Wanderlei Silva tapaði óvænt fyrir Ricardo Arona. Það voru því Arona og Shogun sem mættust um titilinn. Shogun endaði á að rota Arona og varð þar með Pride Grand Prix millivigtarmeistarinn. Þetta þótti svo sannarlega ótrúlegt afrek fyrir þennan 23 ára bardagamann. Þessi útsláttarkeppni þykir sú sterkasta í sögu MMA en auk fyrrnefndra manna voru aðrir keppendur: Dean Lister, Dan Henderson, Kevin Randleman, Vitor Belfort, Igor Vovchanchyn, Kazushi Sakuraba og fleiri.

Shogun rotar Arona.

Eftir þennan glæsta sigur barðist hann áfram í Pride þangað til Zuffa (eigendur UFC) keyptu Pride og fluttu flesta keppendurna yfir í UFC. Fyrsta bardaga Shogun í UFC var beðið með mikill eftirvæntingu en þar barðist hann við Forrest Griffin. Öllum að óvörum sigraði Forrest Griffin bardagann með hengingu þegar aðeins 15 sekúndur voru eftir af bardaganum. Shogun leit ekki vel út í bardaganum, varð fljótt þreyttur og leit ekki út fyrir að vera í góðu formi. Fyrsti UFC bardagi Shogun reyndust vera mikil vongrigði.

Shogun rotar Chuck Liddell.

Margir voru fljótir að afskrifa Shogun en eftir tvo sigra gegn Chuck Liddell og Mark Coleman fékk hann titilbardaga gegn Lyoto Machida. Fram að bardaganum hafði Machida litið út fyrir að vera ósigrandi á meðan menn höfðu efasemdir um Shogun. Það breyttist fljótt eftir bardagann. Shogun kom inn með gríðarlega góða leikáætlun sem byggðist á því að koma inn með fléttur og enda á lágsparki þegar Machida var kominn of langt í burtu. Það virkaði gríðarlega vel í bardaganum og náði Shogun inn mörgum spörkum. Bardaginn var frábær en afar umdeildur þar sem Machida sigraði eftir dómaraákvörðun en í augum margra var Shogun rétthafi UFC beltsins. Dana White var á sama máli og börðust þeir aftur nokkrum mánuðum seinna. Mikil eftirvænting var eftir bardaganum en hann endaði snögglega þar sem Shogun rotaði Machida eftir aðeins 3:35 í fyrstu lotu. Hann varð þar með fyrsti maðurinn til að sigra Machida og varð léttþungavigtarmeistari UFC. Shogun er einn af fáum mönnum sem hafa sigrað titil í bæði Pride og UFC.

Shogun tekur titilinn af Machida.

Shogun hefur lengi glímt við hnévandamál en hann fór í aðgerð á hné eftir Griffin bardagann. Fyrir seinni bardagann gegn Machida var Shogun mjög tæpur í hnénu og var til að mynda Randy Coute tilbúinn á “standby” ef Shogun skyldi þurfa að bakka skyndilega út vegna meiðslanna. Eftir að hann sigraði titilinn fór hann í aðgerð á hinu hnénu.

Shogun var frá í tæpt ár en snéri aftur gegn Jon Jones. Bardaginn gegn Jon Jones var erfiður á að horfa fyrir Shogun aðdáendur. Shogun átti einfaldlega ekki séns í Jones. Jones gekk gjörsamlega frá Shogun áður en dómarinn stöðvaði bardagann í þriðju lotu.

Eftir tapið gegn Jones hefur ferill Shogun verið upp og niður. Hann leit vel út í sigri á Forrest Griffin og James Te-Huna og fór í fimm lotu stríð gegn Dan Henderson sem verður minnst sem eins besta bardaga allra tíma. Inn á milli hafa komið bardagar þar sem hann hefur ekki litið nægilega vel út eins og t.d. í sigri á Brandon Vera og tapið gegn Gustafsson. Þar hefur hann virkað þreyttur fljótt og með smá bumbu.

Síðasta sunnudagskvöld tapaði hann svo gegn Dan Henderson sem var 7. tapið hans í UFC. Margir bjuggust eflaust við að Shogun yrði betri í UFC en það er samt ekki alslæmt að hafa nælt sér í einn léttþungavigtartitil þrátt fyrir að hafa aldrei varið beltið. Það segir í raun mikið um væntingarnar sem gerðar voru til hans eftir Pride titilinn og má segja að hann sé fórnarlamb eigin velgengnis.

Síðar í vikunni munum við birta meira um Shogun og varpa fram þeirri spurningu hvort hann eigi að halda áfram að keppa eða ekki.

spot_img
spot_img
spot_img
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

1 COMMENT

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular