Thursday, April 25, 2024
HomeForsíðaMetamoris 3 er næsta laugardag

Metamoris 3 er næsta laugardag

Metamoris 3 fer fram á laugardagskvöldið og er glímunum beðið með mikilli eftirvæntingu. Í aðalglímu kvöldsins mætast þeir Eddie Bravo og Royler Gracie.

Þeir sem þekkja til hafa beðið eftir næsta laugardagskvöldi með mikilli eftirvæntingu. Aðalbardagi kvöldins er „rematch“ á milli tveggja risa í jiu jitsu heiminum. Það var árið 2003 sem lítt þekktur náungi með brúna beltið að nafni Eddie Bravo sigraði margfaldan heimsmeistara og einn þann besta í heiminum, Royler Gracie. Ekki nóg með það að hann sigraði heldur var það á einu stærsta glímumóti í heimi, ADCC (Abu Dhabi). Auk þess kláraði hann glímuna með uppgjafartaki, “triangle” hengingu. Upphaflegu glímuna má finna á vef MMA Frétta hér en margir skrifðu sigur Bravo á heppni og hafa beðið eftir hefnd Royler í 11 ár. Það verður því gaman að sjá hvað gerist á laugardaginn.

metamoris3

Hvað er Metamoris?

Metamoris er röð jiu-jitsu móta í hæsta gæðaflokki. Keppnin er nokkurs konar tilraun til að koma jiu jitsu fyrir augu almennings og einnig til að þróa íþróttina. Helsti munurinn á Metamoris og öðrum jiu jitsu keppnum er að það eru engin stig og enginn dómari. Ef enginn gefst upp er niðurstaðan jafntefli. Niðurstaðan er oft á tíðum skemmtilegri glímur þar sem markmiðið er ekki að komast í betri stöðu, halda henni og fá stig, heldur er áherlsan á að klára andstæðinginn. Annað sem er öðruvísi við Metamoris er að þetta er ekki mót heldur stakir bardagar eins og þekkist í öðrum bardagaíþróttum og aðeins þeim bestu er boðið að taka þátt. Hver glíma er að hámarki 20 mínútur. Lýsendur að þessu sinni verða Kenny Florian og Jeff Glover en maðurinn á bakvið allt saman er Ralek Gracie. Ralek er sonur Rorion Gracie sem er sonur Helio Gracie, guðföður brasilísks jiu jitsu. Keppnina er hægt að sjá í beinni útsendingu á heimasíðu Metamoris.

Lítum yfir bardagana í réttri röð:

Zak Maxwell vs. Sean Roberts

Maxwell og Roberts eru tveir ungir svartbeltingar sem hafa verið að vekja mikla athygli. Maxwell var heimsmeistari í flokki brúnbeltinga árið 2009 en hann fékk svarta beltið árið 2011. Zak Maxwell er sonur Steve Maxwell sem er heimsþekktur styrktarþjálfari og hefur margoft komið hingað til lands og haldið námskeið. Roberts fékk svarta beltið í fyrra en hefur engu að síður mikla reynslu af mótum. Roberts er þekktur fyrir rosalegan “calf slicer”. Þetta ætti að vera fjörug og áhugaverð glíma.

Gui Mendes vs. Samir Chantre

Gui (Guilherme) Mendes var heimsmeistari í 64 kg flokki árin 2009, 2011 og 2012. Hann er bróðir Rafael Mendes sem er einnig þrefaldur heimsmeistari. Hér mætir hann Samir Chantre sem hefur ekki náð sömu hæðum og Mendes en er mjög reynslumikill og hefur náð langt í hinum ýmsu mótum. Chantre fékk svarta beltið árið 2009 en Mendes fékk sitt árið 2008. Báðir eru frá Brazilíu.

Dean-Lister

Dean Lister vs. Renato Sobral

Lister og „Babalu“ Sobral eru nöfn sem varla þarf að kynna. Þeir hafa báðir keppt mikið í MMA, meðal annars í UFC. Báðir eru með svart belti í jiu jitstu en Lister er betur þekktur í glímuheiminum. Lister er fótalásasérfræðingur í fremstu röð. Hann er líkamlega sterkur og gríðarlega reynslumikill. Hann hefur tvisvar sigrað sinn flokk í ADCC og hefur keppt áður í Metamoris á móti Xande Ribeiro (jafntefli).

Sobral hefur lítið keppt í jiu jitsu en hefur klárað 15 MMA bardaga með uppgjafartaki. Báðir eru 38 ára og sennilega komnir yfir sitt besta en glíman ætti að vera mjög skemmtileg.

keenanvinny

Keenan Cornelius vs. Vinny Malgalhaes

Hér kemur ein áhugaverðasta glíma kvöldsins. Keenan hefur á stuttum tíma orðið ein skærasta stjarnan í jiu jitsu þrátt fyrir að vera nýbúinn að fá svarta beltið. Hann var frægur fyrir að sigra 109 glímur í röð í keppnum brúnbeltinga. Keenan er lærisveinn André Galvão og er til alls líklegur.

Hér mætir hann Vinny Malgalhaes sem er best þekktur fyrir að hafa barist í UFC en hans helsti styrkleiki er jiu jitsu. Vinny hefur verið svartbeltingur talsvert lengi og varð heimsmeistari í No-Gi árið 2007. Árið 2011 sigraði hann einnig sinn flokk á ADCC. Keenan hefur ekki náð sér í slíka titla með svart belti en hann er margfaldur meistari á meðal brúnbeltinga.

Þetta ætti að verða skemmtileg glíma þar sem báðir eru þekktir fyrir að vera árásagjarnir. Stílarnir eru þó ólíkir. Vinny ætti að vera líkamlega sterkari og Keenan virðist taka meiri áhættur. Ef Keenan tekst að sigra Vinny segir það mikið um hversu langt hann getur náð í íþróttinni.

Rafael Mendes vs. Clark Gracie

Eins og fram kom að ofan er Rafeal Mendes bróðir Gui Mendes. Rafael er þrefaldur heimsmeistari og tvöfaldur ADCC meistari. Andstæðingur hans, Clark Gracie, er auðvitað meðlimur Gracie fjölskyldunnar sem segir nánast allt sem segja þarf. Clark er sonur Carley Gracie sem er sonur Carlos Gracie sem var bróðir Helio Gracie. Clark var No-Gi heimsmeistari árið 2009 og Pan-American meistari árið 2013. Þess má geta að Gunnar Nelson sigraði Clark Gracie í flokki brúnbeltinga á Pan-Ams 2009.

bravo gracie

Royler Gracie vs. Eddie Bravo

Glíman sem beðið hefur verið eftir í 11 ár verður loksins að veruleika. Eddie Bravo og Royler Gracie eru nokkuð gamlir til að vera í keppni af þessu tagi en hvorugur hefur keppt árum saman. Royler er 48 ára á meðan Eddie er 43 ára. Niðurstaðan segir okkur því kannski ekki hver var betri þegar þeir voru upp á sitt besta en bardaginn er engu að síður mjög heillandi. Bravo segist vera miklu betri á allan hátt en þegar þeir mættust fyrst en það er lítið vita í dag um getu Royler Gracie. Stílar þessara manna eru mjög ólíkir. Royler er af klassíska skólanum á meðan Bravo hefur þróað sinn eigin stíl sem byggist upp á “rubber guard” og No-Gi glímu. Eftir öll þessi ár mætast þessir kappar loksins aftur í einstökum bardaga sem enginn má missa af.

Keppnin hefst kl 23 á laugardagskvöldið og er þetta eitthvað sem glímuáhugamenn mega alls ekki missa af!

RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular