Í kvöld fer fram UFC Fight Night 33 í Ástralíu. Á þessu bardagakvöldi eru margir stórfínir bardagar og ætti að vera mikil veisla! Í aðalbardaga kvöldsins mætast þeir Mark Hunt og Antonio Silva.
Mark Hunt (9-8) vs. Antonio “Bigfoot” Silva (18-5) – þungavigt
Þessi aðalbardagi kvöldsins er gríðarlega áhugaverður sé litið til bardagastíla þessara tveggja. Mark Hunt er frábær rotari en afar lágvaxinn á meðan Antonio Silva er góður gólfglímumaður og einn sá hæsti í UFC.
Mark Hunt er sennilega með eitt versta bardagaskor í UFC, níu sigrar og átta töp, en hefur unnið fjóra af síðustu fimm bardögum. Staða hans í UFC í dag er hálfgert öskubusku ævintýri. Þegar Zuffa (eigendur UFC) keyptu Pride á sínum tíma eignuðust þeir á sama tíma alla samninga Pride við bardagamenn sína. Mark Hunt átti inni bardaga í Pride samkvæmt samningnum og vildi fá að berjast í UFC. UFC var tilbúið að borga upp samninginn hans en Hunt var ekki á sama máli og vildi fá að vinna fyrir þessum peningum. Hann fékk bardaga gegn Sean McCorkle og tapaði eftir uppgjafartak eftir rúmlega mínútu í fyrstu lotu. Í næsta bardaga snéri hann taflinu við og rotaði Chris Tuchscherer glæsilega og fékk bónus fyrir rothögg kvöldsins.
Hann sigraði svo næstu þrjá bardaga áður en hann tapaði gegn Junior Dos Santos í spennuþrungnum bardaga. Að Mark Hunt skyldi hafa sigrað fjóra bardaga í röð í UFC er eitthvað sem enginn bjóst við. Hunt á góða möguleika gegn Antonio Silva þar sem Silva er ekki með bestu boxvörnina og Hunt er frábær “striker”. Silva ætlar sér væntanlega að taka Hunt niður og þarf því að komast nálægt Hunt til að ná fellunni. Þar gæti Hunt náð góðum höggum inn og rotað Silva.
Antonio Silva hefur átt misjöfnu gengi að fagna á undanförnum árum. Eftir að hafa sigrað Fedor Emelianenko nokkuð óvænt í Strikeforce var hann rotaður illa af Daniel Cormier. Hann sigraði svo Alistair Overeem mjög óvænt en hefur tapað tvisvar fyrir Cain Velasquez þar sem hann átti einfaldlega ekki séns í meistarann. Hann er klárlega einn af bestu þungavigtarmönnum heims en virðist eiga langt í land gegn þeim allra bestu. Þrátt fyrir að vera ekki þekktur fyrir frábæra boxtækni hefur hann sigrað 13 bardaga með rothöggi og hefur sýnt að hann hefur góðan kraft í höndunum. Aftur á móti eru fjögur af fimm töpum hans eftir rothögg. Silva mun líklegast reyna að koma bardaganum í gólfið þar sem hann mun hafa talsverða yfirburði enda svart belti í BJJ.
Það er nokkuð ljóst að þetta verður áhugaverð rimma og mun líklegast ekki fara allar þrjár loturnar.
Spá MMA frétta: Mark Hunt nær lúmsku höggi á Silva þegar hann skýtur inn og rotar hann í fyrstu lotu.
Walk away K.O eins og venjulega fyrir Mark Hunt