spot_img
Friday, October 4, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeForsíða10 áhugaverðustu MMA bardagarnir í september 2020

10 áhugaverðustu MMA bardagarnir í september 2020

Það er kominn september mánuður og verður nóg um að vera í mánuðinum. Tveir stórir titilbardagar verða á dagskrá og þar af nýr meistari í léttþungavigt UFC.

UFC verður með fjögur bardagakvöld í mánuðinum og Bellator tvö. Rizin er með bardagakvöld 27. september og ONE Championship með þrjú en fátt um stóra MMA bardaga þar.

10. Phil Davis vs. Lyoto Machida (Bellator 245, 11. september)

Þetta endurat verður kannski ekki skemmtilegasti bardagi heims en verður aðalbardaginn á Bellator 245. Kapparnir mættust fyrst á UFC 163 fyrir rúmum sjö árum síðan. Davis er í dag 35 ára gamall og Machida 42 ára en eru ekki langt frá titilbardaga gegn nýkrýnda meistara Vadim Nemkov. Davis hefur þegar tapað fyrir Nemkov eftir klofna dómaraákvörðun og vonast eflaust eftir að fá annað tækifæri gegn Nemkov með sigri á Machida.

Spá: Phil Davis vinnur eftir dómaraákvörðun í leiðinlegum bardaga.

9. Angela Hill gegn Michelle Waterson (UFC Fight Night: Santos vs. Teixeira, 12. september)

Það er alltaf líf í strávigt kvenna enda langskemmtilegasti kvennaflokkurinn. Angela Hill berst sinn fjórða bardaga á árinu en hún er að koma til baka eftir mjög tæpt tap gegn Claudia Gadelha í maí. Hill fær hér annað tækifæri á að komast á topp 10 í strávigtinni með sigri gegn Waterson en sú síðarnefnda hefur tapað tveimur bardögum í röð. Gæti orðið skemmtilegur bardagi.

Spá: Hill er stöðugt að bæta sig á meðan Waterson hefur staðnað. Hill sigrar eftir dómaraákvörðun.

8. Alistair Overeem gegn Augusto Sakai (UFC Fight Night: Overeem vs. Sakai, 5. september)

Brasilíumaðurinn með japanska nafnið hefur verið að gera það gott síðan hann kom í UFC og unnið alla fjóra bardaga sína. Hér fær hann tækifæri á að vera í aðalbardaga kvöldsins gegn Alistair Overeem og verður þetta stærsti bardagi ferilsins hjá Sakai hingað til. Alistair Overeem er með níu líf og alltaf þegar maður heldur að hann sé alveg búinn vinnur hann nokkra í röð.

Spá: Overeem er hliðvörðurinn inn á topp 5 í þungavigtinni. Overeem sendir Sakai aftur í röðina og vinnur eftir dómaraákvörðun.

7. Johnny Walker gegn Ryan Spann (UFC Fight Night: Covington vs. Woodley, 19. september)

Johnny Walker blaðran sprakk rækilega þegar hann tapaði tveimur bardögum í röð. Núna þarf hann sigur ef hann ætlar ekki að enda eins og Houston Alexander nútímans. Ryan Spann er þó ekkert lamb að leika sér við og hefur unnið alla fjóra bardaga sína í UFC.

Spá: Walker kemst aftur á sigurbrautina og vinnur með rothöggi í 1. lotu.

6. Shamil Abdurakhimov gegn Ciryl Gane (UFC 253, 26. september)

UFC er greinilega að passa vel upp á Ciryl Gane enda einn sá efnilegasti í þungavigt UFC núna. Gane hefur unnið alla þrjá bardaga sína í UFC og hefur fengið ögn erfiðari andstæðinga í hvert sinn. Hér er ekki verið að henda honum fyrir úlfana heldur fær hann rússneskan reynslubolta sem hann ætti að vinna án þess að það verði of auðvelt.

Spá: Gane tekur þetta allan daginn. Segjum TKO í 2. lotu.

5. Donald Cerrone gegn Niko Price (UFC Fight Night: Covington vs. Woodley, 19. september)

Þessi verður geggjaður. Donald Cerrone hefur tapað fjórum bardögum í röð og er orðinn hættulega nálægt því að vera brunninn út. Orðinn 37 ára gamall og búinn með 52 bardaga í MMA og 29 í kickboxi – það tekur sinn toll. Allir sem sverði bregða munu fyrir sverði falla, en þannig berst Niko Price. Allir 11 UFC bardagar Price hafa klárast með rothöggi eða uppgjafartaki en þar af eru fjögur töp. Price er því ekkert mikið í því að safna stigum og reyna að heilla dómarana sem býður upp á góða skemmtun.

Spá: Þetta verður veisla og mun Cerrone klára Price með uppgjafartaki í 2. lotu í hörku bardaga.

4. Thiago Santos vs. Glover Teixeira (UFC Fight Night: Santos vs. Teixeira, 12. september)

Það hefði kannski þótt fráleitt fyrir ekki svo löngu að Glover Teixeira ætti séns á titilbardaga. Það er þó staðreynd eftir fjóra sigra í röð hjá þessum fertuga reynslubolta en nú síðast sigraði hann Anthony Smith með tæknilegu rothöggi í 5. lotu. Thiago Santos var nálægt því að sigra Jon Jones í fyrra en í bardaganum sleit hann nánast allt sem hægt var að slíta í hnénu. Nú er hann kominn til baka og fer beint í mikilvægan fimm lotu bardaga. Sigurvegarinn hér fær eflaust næsta titilbardaga í léttþungavigtinni.

Spá: Santos bindur enda á flotta sigurgöngu Teixeira með rothöggi í 2. lotu.

3. Colby Covington gegn Tyron Woodley (UFC Fight Night: Covington vs. Woodley, 19. september)

Loksins, loksins fá þessir að mætast. Þessi bardagi hefði verið mun stærri ef Woodley væri enn meistari en er engu að síður mjög mikilvægur fyrir veltivigtina og fyrir báða. Þetta verður persónulegur slagur og þarf Woodley að koma með sitt allra besta til að eiga möguleika á sigri. Hann hefur verið slappur í síðustu tveimur bardögum og einfaldlega ekki komist í gang. Nú er spurning hvort sorakjafturinn á Covington kveiki í Woodley.

Spá: Woodley kemst ekki í gang og hann mun ekki ráða við tempóið sem Colby setur. Colby glímir Woodley í drasl yfir fimm lotur og vinnur eftir dómaraákvörðun.

2. Dominick Reyes gegn Blachowicz (UFC 253, 26. september)

September mánuður verður mikilvægur fyrir léttþungavigtina. Jon Jones hefur látið beltið af hendi og verður nýr meistari krýndur þann 26. september. Dominick Reyes var nálægt því að sigra Jon Jones og fær réttilega titilbardaga aftur. Jan Blachowicz hefur verið á blússandi skriði og hefur unnið sjö af síðustu átta bardögum sínum.

Spá: Reyes er framtíðin og vinnur titilinn eftir dómaraákvörðun.

1. Israel Adesanya gegn Paulo Costa (UFC 253, 26. september)

Einn mest spennandi bardagi ársins. Það hefur verið beðið eftir þessum bardaga síðan Adesanya vann beltið í október í fyrra. Meiðsli hafa tafið Costa á sínum ferli en hann er ósigraður og litið mjög vel út. Þetta verður nautið gegn nautabananum og algjör synd að áhorfendur verði ekki til staðar fyrir þennan risabardaga. Tveir ólíkir en frábærir bardagamenn, þessum máttu ekki missa af!

Spá: Þetta verður erfiðasta próf Adesanya hingað til. Hann sigrar Costa eftir dómaraákvörðun í fimm lotu stríði.

spot_img
spot_img
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img

Most Popular