spot_img
Sunday, December 22, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeForsíða10 áhugaverðustu MMA bardagarnir í ágúst 2014

10 áhugaverðustu MMA bardagarnir í ágúst 2014

Júlí var frábær mánuður fyrir MMA aðdáendur. Ágúst verður talsvert rólegri en það hafa sennilega allir gott af smá pásu. Hér eru 10 athyglisverðustu bardagarnir í mánuðinum.

Það er einn WSOF viðburður og einn ONE FC viðburður þar sem bæði Ben Askren og Shinya Aoki keppa. Því miður eru þeir hins vegar ekki í sama þyngdarflokki svo þeir geta ekki mætt hvor öðrum. Bellator heldur áfram í september en þangað til er það bara UFC og aftur UFC. Það var hætt við UFC 176 svo það er enginn UFC viðburður fyrr en 16. ágúst. Lítum á það besta sem er í boði í ágúst.

mcmann

10. UFC Fight Night 47, 16. ágúst – Sara McMann gegn Lauren Murphy (bantamvigt)

Við hefðum getað valið nánast hvaða bardaga sem er í 10. sætið. Sara McMann snýr aftur og mætir fyrrverandi Invicta meistara Lauren Murphy. Murphy er ósigruð en ekki glímukona í klassa með McMann. Það verður áhugavert að sjá hvernig McMann kemur til baka eftir tapið á móti Rousey.

Spá: McMann afgreiðir Murphy í annarri lotu með yfirburða glímu og höggum á gólfinu.

pearsson trujillo

9. UFC Fight Night 47, 16. ágúst – Abel Trujillo gegn Ross Pearson  (léttvigt)

Hvað sem dómararnir sögðu þá vann Ross Pearson Diego Sanchez í júní. Pearson hefur verið misjafn síðan hann vann The Ultimate Fighter en hefur litið vel út undanfarið. Hér mætir hann hreinræktuðum harðjaxli. Abel Trujillo lenti illa í því á móti Khabib Nurmagomedov en hefur rotað alla aðra andstæðinga sína í UFC.

Spá: Þetta verður erfiður bardagi fyrir báða aðila en Trujillo nagar Pearson niður og klárar hann í þriðju lotu.

leites carmont

8. UFC Fight Night 49, 23. ágúst – Thales Leites gegn Francis Carmont (millivigt)

Thales Leites er búinn að vinna þrjá bardaga eftir að hafa snúið aftur til UFC eftir fjögurra ára fjarveru. Hér fær hann sitt erfiðasta verkefni til þessa, sterka Frakkann Francis Carmont. Carmont er búinn að tapa síðustu tveimur bardögum sínum eftir að hafa unnið sex í röð í UFC. Carmont verður því að vinna. Spurningin er hvort að jiu-jitsu Leites eða glíma Carmont nái yfirhöndinni.

Spá: Leites er mjög fær en Carmont gæti verið aðeins of stór og sterkur fyrir hann. Carmont sigrar á stigum, tvær lotur á móti einni.

bader stpreux

7. UFC Fight Night 47, 16. ágúst – Ryan Bader gegn Ovince St. Preux (létt þungavigt)

Það er ótrúlegt að hugsa til þess að þessi bardagi verði aðalbardagi á UFC bardagakvöldi. Ryan Bader virðist vera einn af þessum bardagamönnum sem vinnur alla nema þá allra bestu. Hann er höggþungur og einn besti glímukappinn í léttþungavigt. St. Preux er smá saman búinn að vinna sig upp listann með fjóra sigra í röð í UFC eftir að hann fluttist frá Strikeforce.

Spá: Það verður gaman að sjá hversu langt St. Preux kemst. Líklegasta niðurstaðan er hins vegar að Bader sigri, segjum á tæknilegu rothöggi í fyrstu lotu, „ground & pound“.

bisping le

6. UFC Fight Night 48, 23. ágúst – Michael Bisping gegn Cung Le (millivigt)

Þetta er einn af þessum skemmtilegu af því bara bardögum. Hvorugur er líklegur til að skora á meistarann í nánustu framtíð. Cung Le er höggþungur eins og hann sannaði í hans síðasta bardaga á móti Rich Franklin. Hann er hins vegar 42 ára á meðan Bisping er 35 ára og talsvert sprækari.

Spá: Þetta er fimm lotu bardagi sem verður of mikið fyrir Le. Hann þreytist í þriðju og Bisping klárar hann með höggum í fjórðu lotu.

maia pyle

5. UFC Fight Night 49, 23. ágúst – Demian Maia gegn Mike Pyle (veltivigt)

Þetta er áhugaverður bardagi, ekki síst af því að hér er um hugsanlega framtíðar andstæðinga að ræða fyrir Gunnar Nelson. Báðir eru þaulreyndir. Pyle er alhliða góður en Maia er yfirburðamaður í jiu-jitsu. Þetta er snúinn bardagi af því að Pyle er góður í að verjast á gólfinu og gæti komið inn þungum höggum upp við búrið. Maia er hins vegar alltaf hættulegur ef hann kemst í góða stöðu.

Spá: Tilfinningin er sú að annað hvort sigri Maia í fyrstu lotu með uppgjafartaki eða Pyle á stigum fari þetta upp úr fyrstu lotu. Spáum seinni valkostinum.

johnson cariaso

4. UFC 177, 30. ágúst – Demetrious Johnson gegn Chris Cariaso (fluguvigt)

Það vita ekki margir hver Chris Cariaso er en hann er samt búinn að berjast tíu sinnum í UFC og sigra sjö sinnum. Hann er öflugur og talsvert reyndur bardagamaður en mætir hér einum þeim besta í heimi, pund fyrir pund. Johnson er búinn að verja beltið fjórum sinnum og virðist alltaf vera að bæta sig. Spurningin í þessum bardaga er fyrst og fremst, hvernig vinnur Johnson?

Spá: Cariaso mun gefa allt í þetta en Johnson mun eiga svar við öllum tilraunum hans. Johnson sigrar með uppgjafartaki í annarri lotu.

henderson dos anjos

3. UFC Fight Night 49, 23. ágúst – Ben Henderson gegn Rafael dos Anjos (léttvigt)

Þessi bardagi er áhugaverður og talsvert mikilvægur í léttvigt. Báðir eru hátt skrifaðir á styrkleikalistanum, Henderson nr. 1 og dos Anjos nr. 5. Sigurvegarinn mun alveg örugglega þurfa að berjast aftur áður en hann fær að berjast um titil en nokkrir spennandi andstæðingar bíða eins og Donaled Cerrone og Khabib Nurmagomedov.

Spá: Henderson er seigur og leit mjög vel út í síðasta bardaga. Hann sigrar dos Anjos á stigum.

woodley kim

2. UFC Fight Night 48, 23. ágúst – Tyron Woodley gegn Dong Hyun Kim (veltivigt)

Tyron Woodley fær hér gullið tækifæri til að koma sér á beinu brautina eftir slæma frammistöðu á móti Rory MacDonald í júní. Kim er hinsvegar búinn að vera á rosalegri siglingu. Hann er búinn að vinna fjóra bardaga í röð og rotaði síðustu tvo andstæðinga sína með tilþrifum. Kim er smá saman búinn að breytast út pressu glímumanni í árásagjarnan rotara.

Spá: Það er erfitt að spá fyrir um þennan. Kim mun vaða áfram með högg en það er ólíklegt að hann nái að rota Woodley. Það verður líka erfitt að stjórna Woodley með glímu. Það getur allt gerst en við skulum segja að Woodley klári Kim með tæknilegu rothöggi í þriðju lotu.

barao dillashwa

1. UFC 177, 30. ágúst – T.J. Dillashaw gegn Renan Barão (bantamvigt)

Það er hálf skrítið að þessir skulu vera að berjast strax aftur. Dillashaw sigraði Barão í fyrsta bardaganum með þvílíkum yfirburðum að það hefði átt að taka af allan vafa hvor væri betri. Það hafa hins vegar heyrst raddir um að Barão hafi ekki undirbúið sig nægilega vel og að þungt högg í fyrstu lotu bardagans hafi bókstaflega slegið hann út af laginu. Við fáum að sjá í ágúst hvort eitthvað sé til í þessu.

Spá: Það er erfitt að spá fyrir um að þetta verða eitthvað öðruvísi en síðast. Segjum að Dillashaw sigri á stigum í þetta skipti.

spot_img
spot_img
spot_img
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular