spot_img
Friday, November 22, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeErlent10 áhugaverðustu MMA bardagarnir í desember 2016

10 áhugaverðustu MMA bardagarnir í desember 2016

Þar með hefst síðasti mánuður ársins. Þetta ár hefur verið mjög gott en lumar þó enn á nokkrum gullmolum. Það eru fimm UFC og fjögur Bellator kvöld í desember en það er UFC 207 sem allt snýst um. Kíkjum á þetta.

tarec-dong-hyun

10. UFC 207, 30. desember – Tarec Saffiedine gegn Dong Hyun Kim (veltivigt)

Við fengum því miður ekki að sjá Dong Hyun Kim á móti Gunnari Nelson en hér fáum við að sjá hann á móti mjög öflugum andstæðingi. Tarec Saffiedine er klárlega einn af þeim bestu í veltivigt en þó er hann enn í leit að virkilega stórum sigri. Þessir tveir þurfa báðir á einhverju rosalegu að halda til að stimpla sig inn með stóru strákunum í þyngdarflokknum. Afgerandi sigur hér væri mikilvægt skref í því samhengi.

Spá: Kim lendir í vandræðum standandi en notar glímuna til að tryggja sér sigur á stigum.

cejudo-benevidez

9. TUF 24 Finale, 3. desember – Joseph Benavidez gegn Henry Cejudo (fluguvigt)

Báðir þessir kappar hafa barist við meistarann en sigurvegarinn fær sennilega annað tækifæri. Tveir aðrir koma þó til greina, þeir Jussier Formiga og Kyoji Horiguchi, en kannski þurfa þeir að mæta hvor öðrum fyrst. Henry Cejudo er einn besti ólympíski glímumaðurinn í UFC en Joseph Benevidez er sjálfur ansi seigur á gólfinu og mögulega með betri glímu fyrir MMA.

Spá: Cejudo gæti verið framtíðin en Benevidez tekur þetta á reynslunni og sigrar á stigum.

UFC 174 News Conference

8. TUF 24 Finale, 3. desember – Demetrious Johnson gegn TUF 24 sigurvegara (fluguvigt)

Þeir sem ekki hafa fylgst með nýjustu seríu af The Ultimate Fighter verða sennilega ekki mjög spenntir fyrir þessum. Þeir sem hafa ekki séð lokaþáttinn og vilja ekki vita úrslitin ættu að hætta að lesa núna. Í lokaþættinum mættust í úrslitum Tim Elliot og Hiromasa Ogikubo þar sem Elliot sigraði eftir dómaraákvörðun. Elliot berst við meistarann í þyngdarflokknum en slíkt hefur ekki verið gert síðan í fjórðu seríu TUF. Eins og gamlir MMA hundar ættu að muna tókst Matt Serra að koma öllum á óvart og rota Georges St. Pierre. Líkurnar verða á móti óvæntum úrslitum en allt getur gerst.

Spá: Mighty Mouse afgreiðir Elliot í þremur lotum með uppgjafartaki.

gall-vs-northcutt

7. UFC on Fox 22, 17. desember – Sage Northcutt gegn Mickey Gall (veltivigt)

Þessi ætti sennilega ekki að vera svona hátt á lista og ef þessu væri raðað eftir mikilvægi væri hann hreinlega ekki með. Engu að síður er þetta mjög áhugaverður bardagi. Það var nýstrinið Mickey Gall sem óskaði eftir þessum bardaga eftir að hafa jarðað CM Punk í september. Gall hefur litið mjög vel út en á móti frekar slöppum andstæðingum. Hér fáum við að sjá hversu góður hann er í raun á veru á móti öðru nýstirni sem við vitum aðeins meira um.

Spá: Úff erfitt, segjum að Gall taki þetta á „rear naked choke“ í annarri lotu.

matt-brown-donald-cerrone

6. UFC 206, 10. desember – Matt Brown gegn Donald Cerrone (veltivigt)

Það var fúlt fyrir Donald Cerrone að missa af UFC 205 þegar Kelvin Gastelum náði ekki vigt. Hér fær hann hins vegar skemmtilegri bardaga á móti harðjaxlinum Matt Brown. Brown mun sennilega vilja standa með kúrekanum en Cerrone er alveg eins líklegur til að fara með bardagann í gólfið.

Spá: Cerrone sigrar sannfærandi, meiðir Brown á fótum og klárar með uppgafartaki í gólfinu í fyrstu lotu.

dillashaw-lineker

5. UFC 207, 30. desember – T.J. Dillashaw gegn John Lineker (bantamvigt)

Maður hálf finnur til með T.J. Dillashaw. Hann sigrar fyrst Renan Barão í tvígang og tapar beltinu svo til Dominick Cruz eftir klofinn dómaraúrskurð. Í kjölfarið sigrar hann Raphael Assunção á UFC 200 en enginn tekur eftir því. Nú virðist hann aftur ætla að lenda í upphitunarbardaga á stóru kvöldi og það á móti algjöru skrímsli. John Lineker er einn skemmtilegasti bardagamaðurinn í UFC að horfa á – vonum bara að hann nái vigtinni.

Spá: Dillashaw ætti að geta útboxað Lineker en hættulegt verður það. Dillashaw sigrar á stigum.

velasquez-werdum

4. UFC 207, 30. desember – Cain Velasquez gegn Fabrício Werdum (þungavigt)

Var það þunna loftslagið sem fór með Cain Velasquez síðast þegar hann mætti Fabricio Werdum í Mexíkóborg hátt yfir sjávarmáli? Þessi bardagi ætti að gefa okkur vísbendingu um það. Werdum var samt með góða bardagaáætlun sem gæti skilað honum sigri aftur. Þessi verður spennandi.

Spá: „Sea level“ Cain valtar yfir Werdum og klárar með höggum í annarri lotu.

max-holloway-anthony-pettis

3. UFC 206, 10. desember – Max Holloway gegn Anthony Pettis (fjaðurvigt)

Það er alveg út í hött að þessi bardagi sé upp á bráðabirgðarbelti í fjaðurvigt. Vonandi verður þetta ekki þróunin í öðrum þyngdarflokkum. Þessi bardagi er þó ferlega spennandi og það besta er að hvorugur hefur barist við Jose Aldo svo við fáum ferskan titilbardaga sama hvað gerist. Max Holloway hefur verið að bæta sig mikið undanfarin ár og hefur nú unnið níu bardaga í röð. Pettis á hinn bóginn er nýr í þyngdarflokknum en fær samt gullið tækifæri til að koma sér í titilbardaga með sigri.

Spá: Holloway lætur þetta tækifæri ekki framhjá sér fara, hann sigrar á stigum í fjörugum bardaga.

cruz-garbrandt

 

2. UFC 207, 30. desember – Dominick Cruz gegn Cody Garbrandt (bantamvigt)

Það verður að teljast vel gert hjá Cody Garbrandt að kjafta sig upp í titilbardaga þrátt fyrir engan sigur gegn topp fimm andstæðingi. Kannski hefði T.J. Dillashaw átt að fá tækifærið en það var einfaldlega meiri áhugi fyrir þessum bardaga og peningar tala. Garbrandt er ungur og graður en Dominick Cruz er erfið ráðgáta að leysa úr. Bilið í reynslu er ansi stórt en eitt gott högg getur breytt því á augabragði eins og við þekkjum.

Spá: Cruz sigrar á stigum.

nunes-rousey

1. UFC 207, 30. desember – Amanda Nunes gegn Ronda Rousey (bantamvigt kvenna)

Hvernig kemur Ronda Rousey til baka? Ýmislegt virðist benda til að hún sé ekki í topp standi andlega og hún heldur sig enn við þjálfarann sinn Edmond Tarverdyan. Amanda Nunes er ekkert grín, bæði með svart belt í Jiu-Jitsu og með banvænar hendur eins og Miesha Tate fékk að finna fyrir. Ronda er samt sem áður Ronda. Það eru ekki margar bardagakonur sem geta varist júdó fellunum hennar og þrátt fyrir svart belti er ekki auðvelt að verjast „armbar“ árásum.

Spá: Nunes mun reyna að verjast en lendir samt fljótlega á gólfinu þar sem Ronda nær henni í „armbar“ og sigrar í fyrstu lotu.

spot_img
spot_img
spot_img
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular