spot_img
Sunday, December 22, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeErlent10 áhugaverðustu MMA bardagarnir í mars 2017

10 áhugaverðustu MMA bardagarnir í mars 2017

Eftir tvo fremur rólega mánuði í MMA heiminum færist fjör í leikana í mars. UFC 209 fer fram, Gunnar Nelson berst og Sunna Rannveig! Kíkjum á 10 áhugaverðustu bardaga mars mánaðar.

Um helgina fer UFC 209 fram en bardagasamtökin verða með þrjú bardagakvöld í mánuðinum. Bellator er með tvö bardagakvöld en þar ber helst að nefna að Quinton ‘Rampage’ Jackson mætir Muhammad ‘KingMo’ Lawal en fyrri bardagi þeirra var ekkert sérstakur svo seinni bardaginn náði ekki inn á lista.

Þá er einn sá efnilegasti í fjaðurvigt UFC, Mirsad Bektic, að berjast og Tim Means og Alex Oliveira mætast aftur eftir að fyrri bardagi þeirra endaði með umdeildum hætti. Hér eru þó þeir tíu áhugaverðustu í mars.

Lando Vannata
Lando Vannata.

10. UFC 209, 4. mars – Lando Vannata gegn David Teymur (léttvigt)

Landa Vannata er kannski bara 1-1 í UFC en hann hefur fljótt orðið mjög vinsæll meðal harðkjarna bardagaaðdáenda. Í hans fyrsta bardaga olli hann Tony Ferguson töluverðum vandræðum eftir að hafa komið inn með skömmum fyrirvara og kýldi hann meira að segja niður. Í seinni bardaganum rotaði hann John Madkessi á UFC 206 og var það eitt af bestu rothöggum síðasta árs. Nú mætir hann David Teymur sem hefur unnið báða bardaga sína í UFC með rothöggi. Ekki stærstu nöfnin en verður hörku bardagi.

Spá: Þetta verður standandi stríð, Lando klárar Teymur með rothöggi í 2. lotu.

9. UFC Fight Night 107, 18. mars – Joseph Duffy gegn Reza Madadi (léttvigt)

Joe Duffy snýr aftur í búrið eftir erfiðar samningaviðræður við UFC og mætir Reza Madadi. Allir bardagar Duffy í UFC hafa verið mjög skemmtilegir og hefur hann klárað alla sigra sína. Madadi er nett klikkaður og það er alltaf skemmtilegt að fylgjast með honum.

Spá: Þetta ætti að verða skemmtilegur bardagi en Duffy er bara betri bardagamaður og klárar Madadi með höggum í 1. lotu, TKO.

8. UFC Fight Night 107, 18. mars – Jimi Manuwa gegn Corey Anderson (léttþungavigt)

Aðalbardaginn á bardagakvöldinu í London þar sem Gunnar berst. Ólíkir stílar, Jimi Manuwa er rotari á meðan Corey Anderson er glímukall. Anderson étur högg og það er ekki gott gegn Jimi Manuwa.

Spá: Manuwa steinrotaði OSP síðast en Corey Anderson nær að nota glímuna og vinnur eftir uppgjafartak í 4. lotu.

7. UFC Fight Night 106, 11. mars – Vitor Belfort gegn Kelvin Gastelum (millivigt)

Furðulegur bardagi enda á Vitor Belfort ekkert erindi í topp bardagamenn í dag. Belfort hefur tapað þremur af síðustu fjórum bardögum sínum en allt gegn topp bardagamönnum en er ennþá hættulegur fyrstu tvær mínúturnar. Kelvin Gastelum leit skuggalega vel út í millivigtinni gegn Tim Kennedy á dögunum og mun gera það sama gegn Belfort.

Spá: Gastelum valtar yfir Belfort og klárar hann með höggum í gólfinu í 2. lotu í Brasilíu.

Sunna Rannveig Davíðsdóttir
Mynd: Kjartan Páll Sæmundsson.

6. Invicta FC 22, 25. mars – Sunna Rannveig Davíðsdóttir gegn Mallory Martin (strávigt kvenna)

Sunna Rannveig okkar fær sinn annan bardaga í Invicta núna í mars og mætir þá Mallory Martin sem er líka 1-0 sem atvinnumaður. Sunna vann Ashley Greenway í frumraun sinni í Invicta og verður virkilega gaman að sjá hana aftur í búrinu.

Spá: Sunna Rannveig heldur sigurgöngu sinni áfram og sigrar eftir dómaraákvörðun.

5. UFC 209, 4. mars – Alistair Overeem gegn Mark Hunt 2 (þungavigt)

Tveir fyrrum K-1 sparkboxmeistarar mætast í mjög áhugaverðum bardaga. Kapparnir mættust fyrst árið 2008 þar sem Overeem sigraði með uppgjafartaki. Alistair Overeem hefur aldrei verið þekktur fyrir að geta tekið vel á móti höggum á meðan Mark Hunt er með einhverja hörðustu höku sem sést hefur í MMA. Báðir eru auðvitað höggþungir og með marga sigra eftir rothögg á ferilskránni.

Spá: Það er óhætt að segja að Hunt sé ansi líklegur til að rota Overeem. Overeem gæti líka verið mjög skynsamur, komið inn með góða leikáætlun og verið varkár og unnið eftir dómaraákvörðun. Segjum að síðari kosturinn verði að veruleika. Overeem eftir dómaraákvörðun.

4. UFC Fight Night 106, 11. mars – Edson Barboza gegn Beneil Dariush (léttvigt)

Magnaður bardagi í léttvigtinni. Barboza er í fimmta sæti á listanum á meðan Dariush er því níunda. Dariush er 8-2 í UFC og Barboza hefur sennilega aldrei verið betri eftir tvo flotta sigra í röð, fyrst gegn Anthony Pettis og svo gegn Gilbert Melendez. Báðir eru góðir á öllum vígstöðum bardagans en Barboza er með eitrað Muay Thai og Dariush mjög gott svart belti í brasilísku jiu-jitsu.

Spá: Barboza hefur yfirburði standandi en lendir undir í 2. lotu og tapar eftir uppgjafartak.

3. UFC 209, 4. mars – Tyron Woodley gegn Stephen Thompson (titilbardagi í veltivigt)

Enduratið mikla. Fyrri bardagi þeirra var gríðarlega spennandi eftir hreinilega magnaða fjórðu lotu. Núna munu þeir endurtaka leikinn og vonandi klára málið. Tveir af bestu veltivigtarmönnum heims, fimm lotur, allt getur gerst.

Spá: Stephen Thompson hefur lært meira af fyrri bardaganum en Woodley. Thompson sigrar eftir dómaraákvörðun.

2. UFC Fight Night 107, 18. mars – Gunnar Nelson gegn Alan Jouban (veltivigt)

Loksins fáum við að sjá okkar mann aftur í búrinu þann 18. mars. Gunnar tekur á móti Alan Jouban í næstsíðasta bardaga kvöldsins í London. Gunnar hefur ekkert barist síðan í maí á síðasta ári og mætir hinum hættulega Alan Jouban. Þetta er sá bardagi sem Íslendingar eru hvað spenntastir fyrir og mun þjóðin sitja límd við skjáinn þann 18. mars.

Spá: Þetta verður ekki auðvelt, Jouban er hættulegur og það má ekki vanmeta hann. Gunnar heldur samt uppteknum hætti og nær bakinu á Jouban í 2. lotu og klárar með „rear naked choke“.

1. UFC 209, 4. mars – Khabib Nurmagomedov gegn Tony Ferguson (titilbardagi í léttvigt)

Besti bardagi ársins hingað til, svo einfalt er það. Tveir af bestu léttvigtarmönnum heims sem eru samanlagt 20-1 í UFC. Khabib er einn allra öflugasti glímumaður sem við höfum séð og fáum tekist að stöðva fellurnar hans og enn erfiðara að standa upp eftir að hann tekur menn niður. Tony Ferguson er brögðóttur og frábær á öllum vígstöðum. Hann er með góðar hendur, góður í gólfinu, með góða felluvörn og getur tekið upp á alls kins kúnstum í bardaganum.

Spá: Ferguson getur klárað bardagann bæði standandi og í gólfinu. Khabib sýndi gegn Johnson að hann er oft opinn fyrir höggum standandi og það er hættulegt gegn Tony Ferguson. Khabib nær samt að ná bardaganum í gólfið og forðast sóknir Ferguson. Khabib sigrar eftir „arm-triangle“ í 4. lotu.

spot_img
spot_img
spot_img
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular