0

10 áhugaverðustu MMA bardagarnir í mars 2018

Eftir mjög þétta dagskrá í febrúar dettur þetta talsvert niður í mars sem er kannski ágætt. Það eru aðeins tvö UFC kvöld í mars og eitt pínulítið Bellator kvöld. Vegna þessa er listinn þennan mánuðinn nánast allur úr UFC 222.


10. Bellator 195, 2. mars – Darrion Caldwell gegn Leandro Higo (bantamvigt)

Darrion Caldwell er einn af þessum Bellator bardagamönnum sem mundi plumma sig mjög vel í UFC. Hann er með ferilinn 11-1 og hefur hefnt fyrir eina tapið sitt á ferlinum. Hann sigraði þáverandi meistara, Eduardo Dantas, í hans síðasta bardaga og reynir nú að verja beltið. Leandro Higo virðist öflugur Brasílíumaður með ferilinn 18-3 og tíu uppgjafartök á ferilskránni. Þessi bardagi gæti orðið skemmtilegur.

Spá: Caldwell sigrar á stigum.

9. UFC 222, 3. mars – C. B. Dollaway gegn Hector Lombard (millivigt)

Hector Lombar var áður „must-see TV“ en það má deila um hvort hann sé það ennþá. Þessi bardagi er góður bónus á upphitunarhluta kvöldsins og gæti komið á óvart. Mun Lombard næla sér í sigur eftir fjögur töp eða mun Dolloway fá stórt nafn á ferilskrána?

Spá: Lombard rotar Dollaway í fyrstu lotu.

8. UFC 222, 3. mars – Ashley Yoder gegn Mackenzie Dern (strávigt kvenna)

Macenzie Dern er einn heitasti nýliðinn í MMA um þessar mundir. Hún er aðeins 24 ára, margfaldur heimsmeistari í brasilísku jiu-jitsu og ósigruð í fimm bardögum sem atvinnumaður í MMA. Stóra spurningin er hvort að þessi flutningur í UFC hafi komið of fljótt? UFC þyrstir í nýja stjörnu en taka ákveðna áhættu með Dern. Ashley Yoder er sennilega rétt tegund andstæðings – einhver sem er einnig frekar græn og hefur tapað tveimur fyrstu bardögum sínum í UFC.

Spá: Dern sigrar með uppgjafartaki í fyrstu lotu.

7. UFC Fight Night 127, 17. mars – Jimi Manuwa gegn Jan Błachowicz (léttþungavigt)

Þessir tveir léttþungu kappar mættust árið 2015 á heimavelli Blachowicz í Póllandi. Þá sigraði Manuwa á stigum í drepleiðinlegum bardaga. Af einhverjum ástæðum þurftu þeir að berjast aftur, sennilega af því að enginn annar var laus. Spurningin er því, fáum við það sama aftur eða hefur annar lært eitthvað þýðingarmikið frá fyrstu viðureigninni?

Spá: Líklegasta niðurstaðan hlýtur að vera endurtekning, Manuwa sigrar á stigum.

6. UFC Fight Night 127, 17. mars – Fabrício Werdum gegn Alexander Volkov (þungavigt)

Hinn fertugi Fabício Werdum er í fastri vinnu þessa dagana við að verjast yngri mönnum á uppleið. Hann er samt enginn hliðarvörður enda stutt síðan hann var sjálfur með beltið um mittið. Nú þarf hann að verja stöðu sína gegn risa frá Rússlandi. Alexander Volkov hefur sigrað sína fyrstu þrjá bardaga í UFC gegn nokkuð góðum andstæðingum en fær hér sinn erfiðasta andstæðing til þessa.

Spá: Volkov gæti komið á óvart en við veðjum frekar á reynsluboltann Werdum sem sigrar með uppgjafartaki í fyrstu lotu.

5. UFC 222, 3. mars – Cat Zingano gegn Ketlen Vieira (bantamvigt kvenna)

Loksins snýr Cat Zingano aftur í búrið eftir um eins og hálfs árs fjarveru. Zingano er síðasta konan til að sigra ríkjandi meistara, Amönda Nunes. Hún sigraði einnig fyrrum meistarann Mieshu Tate og næsta titiláskoranda, Raquel Pennington, þar áður. Nú mætir hún mjög hættulegum andstæðingi frá Brasilíu. Ketlen Vieira er ósigruð og afgreiddi Söru McMann með uppgjafartaki í hennar síðasta bardaga.

Spá: Þetta verður harður bardagi en Vieira nær uppgjafartaki í annarri lotu, „rear-naked choke“.

4. UFC 222, 3. mars – John Dodson gegn Pedro Munhoz (bantamvigt)

Þessi topp tíu bantamvigtarbardagi gæti orðið mikið fyrir augað. John Dodson þarf ekki að kynna en hann er einn hraðasti og höggþyngsti bardagamaðurinn í léttari þyngdarflokkunum. Hann rotaði til að mynda ríkjandi meistara T.J. Dillashaw á sínum tíma. Perdo Munhoz er minna þekktur en hann hefur litið frábærlega út upp á síðkastið og unnið fjóra bardaga í röð. Nú síðast í október afgreiddi hann Rob Font með uppgjafartaki í fyrstu lotu.

Spá: Hinn stærri Munhoz kemur á óvart og sigrar Dodson á stigum.

3. UFC 222, 3. mars – Stefan Struve gegn Andrei Arlovski (þungavigt)

Það er hálf skrítið að þessir tveir hafi aldrei mæst áður en það verður bætt úr því í mars. Struve er aðeins 30 ára gamall eða 9 árum yngri en Arlovski sem barðist sinn fyrsta UFC bardaga árið 2000 á UFC 28. Þessi bardagi gæti snúist um hver nær fyrst inn þungu höggi svo ekki búast við of löngum bardaga.

Spá: Struve rotar Arlovski í fyrstu lotu.

2. UFC 222, 3. mars – Cris Cyborg gegn Yana Kunitskaya (fjaðurvigt kvenna)

Fjaðurvigt kvenna er bara Cris Cyborg og svo dúkkar upp einn og einn áskorandi úr ýmsum áttum. Þetta minnir svolítið að landslagið í bantamvigt kvenna þegar Ronda Rousey réð þar ríkjum fyrir fáeinum árum nema þá var um að ræða alvöru þyngdarflokk sem fjaðurviktin er ekki í UFC. Yana Kunitskaya er lítið þekkt, hún hefur aldrei barist í UFC en er ríkjandi meistari í Invicta með ferilinn 14-3. Hin rússneska 28 ára gamla Kunitskaya þarf á kraftaverki að halda en það vill svo til að MMA er staðurinn þar sem hið ótrúlega gerist nokkuð reglulega.

Spá: Cyborg afgreiðir Kuntiskaya með tæknilegu rothöggi í þriðju lotu.

1. UFC 222, 3. mars – Frankie Edgar gegn Brian Ortega (fjaðurvigt)

Upphaflega átti Frankie Edgar að berjast við Max Holloway um beltið í fjaðurvigt en eftir meiðsli Holloway steig hinn sjóðheiti Brian Ortega inn. Ortega er einn mest spennandi bardagamaður í UFC um þessar mundir og gæti hugsanlega orðið nokkuð stór stjarna. Uppgjafartök hans eru eins og rothögg, afgreidd með grimmdarlegu öryggi. Hér mætir hann manni sem hefur aldrei tapað á rothöggi eða með uppgjafartaki svo útkoman ætti að verða áhugaverð. Nær Edgar að útboxa hinn unga Ortega og stjórna ferðinni með glímu eða verður þetta stóra stund Ortega?

Spá: Ortega á framtíðina fyrir sér en Edgar vinnur þessa viðureign á stigum.

Óskar Örn Árnason

- Blátt belti í jiu-jitsu
- Hlaupari
- Þriggja barna faðir
Óskar Örn Árnason

Latest posts by Óskar Örn Árnason (see all)

Comments

comments

Óskar Örn Árnason

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.