0

10 áhugaverðustu MMA bardagarnir í nóvember 2017

Það verður nóg um að vera í nóvember til að ylja MMA aðdáendum þegar myrkrið færist yfir og hitastigið lækkar. Það verða samtals 43 UFC bardagar og 32 Bellator bardagar en þetta er það sem stendur upp úr.

10. UFC 217, 4. nóvember – Randy Brown gegn Mickey Gall (veltivigt)

Það hefur verið áhugavert að fylgjast með ferli Mickey Gall frá því að hann var gripinn í þætti Dana White: Looking For a Fight. Hann rústaði hinum óreyndu Mike Jackson og CM Punk og stóðst svo talsvert erfiðara próf gegn Sage Northcutt. Nú mætir hann öðrum efnilegum kappa úr þáttum Dana White sem ætti að gefa honum góða keppni.

Spá: Brown ætti að standa í Gall en að lokum verður það Gall sem sigrar með „rear naked choke“ í annarri lotu.

9. UFC Fight Night 121, 19. nóvember – Fabrício Werdum gegn Marcin Tybura (þungavigt)

Ekkert varð úr bardaga Fabrício Werdum og Derrick Lewis og bardaginn við Walt Harris sem leysti hinn síðarnefnda af var varla bardagi. Þar er því gaman að sjá Werdum koma strax aftur í búrið á móti góðum andstæðingi. Marcin Tybura er ekki mjög þekktur en hann er númer átta á styrkleikalista UFC og sigraði Andrei Arlovski í hans síðasta bardaga ef það hefur ennþá einhverja merkingu.

Spá: Þetta er stórt tækifæri fyrir Tybura en líklega verður Werdum of stór biti fyrir hann. Werdum sigrar með armlás í annarri lotu.

8. UFC Fight Night 120, 11. nóvember – John Dodson gegn Marlon Moraes (bantamvigt)

Lengi vel var Marlon Moraes einn besti MMA bardagamaður í heimi sem ekki var í UFC. Nú hefur hann barist einu sinni í UFC og rétt svo tapaði fyrir Raphael Assunção – engin skömm af því. Næsta verkefni er ekki beint auðveldara. John Dodson vinnur yfirleitt alla nema þá allra bestu svo þessi bardagi verður góð mælistika fyrir Moraes. Þessi bardagi ætti að verða hraður, tæknilegur og mjög skemmtilegur.

Spá: Það er erfitt að spá gegn Dodson, skýt á að hann taki þetta á stigum.

7. UFC 217, 4. nóvember – Johny Hendricks gegn Paulo Borrachinha (millivigt)

Hvað á maður að segja um Johny Hendricks? Hann hefur tapað fimm af síðustu sjö bardögum, þar af tvisvar verið rotaður. Fókusinn virðist vera að mestu farinn og nú þarf hann að mæta banhungruðu ungu ljóni frá Brasilíu sem hefur verið að rota alla með tilþrifum. Paulo Borrachinha hefur klárað alla sína 10 andstæðinga og alla nema einn í fyrstu lotu. Vonandi er Big Rigg vel undirbúinn annars gæti hann endað sem enn eitt fórnarlamb þessarar rísandi stjörnu.

Spá: Borracinha rotar Hendricks í fyrstu lotu.

6. UFC Fight Night 122, 25. nóvember – Anderson Silva gegn Kelvin Gastelum (millivigt)

Þessi bardagi átti að vera fyrr á þessu ári en við fáum hann núna í nóvember. Það er erfitt að átta sig á hversu mikið Anderson Silva á eftir. Hann hefur verið að tapa mikið upp á síðkastið en hefur ekki beint verið laminn illa síðan Chris Weidman rotaði hann árið 2013. Þessi bardagi gegn Kelvin Gastelum er áhugaverður af ýmsum ástæðum. Þetta er unga kynslóðin gegn gömlu, langur og mjór skrokkur gegn lágum og þéttvöxnum, glímumaður á móti sparkboxara. Hver veit hvar þetta endar.

Spá: Þetta verður slæmt kvöld fyrir Silva. Gastelum afgreiðir hann með höggum í þriðju lotu.

5. UFC Fight Night 120, 11. nóvember – Dustin Poirier gegn Anthony Pettis (léttvigt)

Þetta er truflaður bardagi sem hefur ekki fengið mikla umfjöllun. Fyrrum meistari í léttvigt, Anthony Pettis, mætir Dustin Poirier í fimm lotu bardaga. Stílarnir nánast gulltryggja skemmtilegan bardaga en báðir vilja yfirleitt standa og báðir geta klárað bardagann í gólfinu ef hann fer þangað. Ekki dirfast að missa af þessum.

Spá: Þetta verður stríð en Poirier sigrar á tæknilegu rothöggi í fjórðu lotu.

4. UFC 217, 4. nóvember – Joanna Jędrzejczyk gegn Rose Namajunas (strávigt kvenna)

Joanna Jędrzejczyk reynir að jafna met Rondu Rousey, þ.e. að verja titilinn sex sinnum. Enginn hefur náð að ógna pólsku vélinni af einhverju ráði og nú er röðin komin að Rose Namajunas. Við elskum öll Namajunas en hversu mikla möguleika á hún gegn þessum stórkostlega meistara?

Spá: Þetta verður ljótt, Jędrzejczyk sigrar örugglega á stigum.

3. UFC 217, 4. nóvember – Stephen Thompson gegn Jorge Masvidal (veltivigt)

Þessi gullmoli er rúsínan í pylsuendanum á UFC 217 kvöldinu. Þetta er mjög mikilvægur bardagi í veltivigt og mjög spennandi viðureign á milli tveggja mjög hæfileikaríkra bardagamanna. Stephen Thompson getur verið hrikalega skemmtilegur en verður líka leiðinlegur þegar andstæðingurinn leyfir honum að gera ekki neitt (ég er að horfa á þig Woodley). Það ætti ekki að vera vandamál með Masvidal en það má búast við góðri pressu frá honum sem ætti að koma undradrengnum í klípu.

Spá: Þetta er erfitt en ég hallast að Masvidal. Held að hann taki tvær af þremur lotum og sigri á stigum.

2. UFC 217, 4. nóvember – Cody Garbrandt gegn T.J. Dillashaw (bantamvigt)

Þá er loksins komið að því. Þessi tveir virðast hafa verið að rífast árum saman og höfum við heyrt sama rifrildið í næstum tvö ár.

„Þú sveikst Alpha Male“.
„Nei, mig langaði bara að æfa á fleiri stöðum”.
„Jú víst…..svikari”.

Nú fáum við að sjá þessa tvo berjast og útkoman ætti að verða ansi rosaleg. Báðir eru virkilega frábærir bardagamenn með mjög ólíkan stíl. T.J. er með meiri reynslu, Cody er ósigraður, T.J. buffaði Renan Barao, Cody sigraði Dominick Cruz. Þetta verður eitthvað.

Spá: Ég býst við orustu, Cody Garbrandt rotar T.J. Dillashaw í þriðju lotu.

1. UFC 217, 4. nóvember – Michael Bisping gegn Georges St-Pierre (millivigt)

Það er orðið mjög langt síðan þessi bardagi var fyrst tilkynntur en hann er ennþá mjög skrítinn. Í fyrsta lagi hefði Bisping átt að verja titilinn gegn Robert Whittaker (sem er reyndar meiddur). Í öðru lagi hefur Georges St. Pierre ekki barist í fjögur ár og hefur aldrei barist í millivigt. En við skulum gleyma þessu og líta á bardagann. Það eru nokkrir hlutir sem virðast standa upp úr. Michael Bisping er talsvert stærri en GSP og hann verður yfirleitt ekki þreyttur. GSP stólar á góða stungu, fellur og stjórnun á gólfinu en stykleiki Bisping er box, hreyfanleiki og góð felluvörn, spyrjið bara Chael Sonnen. Bisping er búinn að vera mjög virkur en GSP barðist síðast árið 2013. Þetta virðist allt stefna í eina átt.

Spá: MMA er óútreiknanleg íþrótt en ég sé Bisping valta yfir GSP og jafnvel klára hann með höggum í seinni lotum bardagans, segjum bara fimmtu lotu TKO.

Óskar Örn Árnason

- Blátt belti í jiu-jitsu
- Hlaupari
- Þriggja barna faðir
Óskar Örn Árnason

Comments

comments

Óskar Örn Árnason

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.