spot_img
Friday, November 22, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeErlent10 áhugaverðustu MMA bardagarnir í október 2017

10 áhugaverðustu MMA bardagarnir í október 2017

Á meðan næturfrostið nálgast mun haustdagskrá UFC og Bellator ylja MMA aðdáendum í október. Það verða nokkuð margir viðburðir en UFC 216 stendur upp úr.

10. UFC Fight Night 119, 28. október – Luan Chagas gegn Niko Price (veltivigt)

Hinn ósigraði Niko Price er mjög spennandi bardagakappi í veltivigt sem við hér á bæ ætlum að hafa auga á. Í hans síðasta bardaga rotaði hann Alan Jouban í fyrstu lotu og nú fær hann annan erfiðan andstæðing. Chagas er einnig ungur og efnilegur strákur sem gæti komið á óvart. Hann gerði t.d. jafntefli við Sergio Moraes í fyrra.

Spá: Price kemst í gegnum þetta með glans, rotar Chagas í fyrstu lotu.

9. UFC Fight Night 119, 28. október – John Lineker gegn Marlon Vera (bantamvigt)

Marlon Vera er efnilegur 24 ára bardagamaður frá Ekvador sem hefur unnið þrjá bardaga í röð. Honum verður launað það afrek með skrímslinu sem kallast John Lineker. Linker var búinn að vinna sex bardaga í röð áður en hann tapaði fyrir T.J. Dillashaw. Það er eins gott að Vera verði vel undirbúinn þar sem Lineker mun snúa aftur eins og sært ljón.

Spá: Vera mun reyna að koma Lineker í gólfið en mistakast. Lineker refsar og sigrar á rothöggi í fyrstu lotu.

8. Bellator 185, 20. október – Gegard Mousasi gegn Alexander Shlemenko (millivigt)

Fyrsta verkefni Gegard Mousasi í Bellator verður gegn hinum reynslumikla Alexander Shlemenko sem hefur ekki tapað bardaga síðan árið 2014. Þessir menn eru samtals með 116 bardaga á ferilskránni svo þeir hafa báðir séð þetta allt.

Spá: Þetta verður ekki auðvelt en Mousasi mun að lokum ná Shlemenko í gólfið og klára bardagann með uppgjafartaki, sennilega „rear-naked choke“ í þriðju lotu.

7. UFC Fight Night 118, 21. október – Donald Cerrone gegn Darren Till (veltivigt)

Þessi bardagi var mjög óvæntur en maður kemst ekki hjá því að hugsa til þess að okkar maður hefði fengið þennan bardaga gegn Cerrone ef hlutir hefðu þróast á annan veg. Þetta ætti að verða skemmtilegur bardagi og lærdómsríkur fyrir Till en getur hann staðist þetta erfiða próf aðeins 24 ára gamall?

Spá: Kúrekinn kennir unga stráknum lexíu. Cerrone útboxar Till, sparkar hann niður og klárar með uppgjafartaki í annarri lotu.

6. UFC Fight Night 119, 28. október – Lyoto Machida gegn Derek Brunson (millivigt)

Við höfum ekki fengið að sjá Lyoto Machida í búrinu síðan um mitt ár 2015. Hann er nú orðinn 39 ára gamall en mætir hér hinum 33 ára Derek Brunson sem hefur barist sex sinnum á þessu sama tímabili. Machida er tæknilegri en Brunson er með mikla pressu og höggþyngd. Það verður áhugavert að sjá hvernig þessir stílar passa saman og líklega mun annar þeirra rota hinn.

Spá: Fyrir þremur árum hefði þetta verið bardagi Machida en í dag hallast ég að Brunson, TKO í fyrstu lotu.

5. UFC 216, 7. október – Fabrício Werdum gegn Derrick Lewis (þungavigt)

Í þungavigt er skammt á milli tinda og djúpra dala. Báðir þessir kappar hafa gert það gott undanfarin ár en báðir töpuðu sínum síðasta bardaga. Derrick Lewis er unga hungraða ljónið sem mætir gamla reynsluboltanum. Báðir virðast til alls líklegir en bara annar mun taka skref fram á við í október.

Spá: Werdum mun nýta sér reynsluna, raða inn lágspörkum, þreyta Lewis og sigra á stigum.

4. Fight Star Championship, 7. október – Bjarki Þór Pálsson gegn Quamer Hussain (léttvigt)

Í sínum fjórða atvinnubardaga berst Bjarki Þór um Evrópumeistaratitilinn í FightStar Championship bardagasamtökunum. Um stórt tækifæri er að ræða fyrir Bjarka Þór sem mætir reynslumeiri manni með átta bardaga á ferilskránni. Sigur í þessum bardaga gæti þýtt enn stærri tækifæri fyrir Bjarka Þór svo við krossleggjum fingur.

Spá: Bjarki tekur Hussein niður og afgreiðir með höggum í annarri lotu.

3. UFC 216, 7. október – Demetrious Johnson gegn Ray Borg (fluguvigt)

Þessi bardagi átti að eiga sér stað í síðasta mánuði á UFC 215. Nái D.J. að sigra Ray Borg verður það sögulegur sigur enda 11. titilvörn Johnson og nýtt met. Johnson þarf ekki að kynna en Borg er nánast alveg óþekktur. Satt að segja er Borg fyrst og fremst að fá þetta tækifæri út af lítilli samkeppni í fluguvigt. Hann hefur unnið tvo bardaga í röð, síðast gegn Jussier Formiga sem er nokkuð virtur. Borg er góður en býr hann yfir nógu öflugu vopnabúri til að stöðva ótrúlega sigurgöngu meistarans?

Spá: Stutt svar, nei. Johnson sigrar með uppgjafartaki í þriðju lotu, skjótum á armlás.

2. UFC Fight Night 119, 28. október – Demian Maia gegn Colby Covington (veltivigt)

Þessi bardagi er mjög áhugaverður, sérstaklega fyrir MMA nörda. Alltaf þegar tveir góðir glímukappar með ólíkan stíl mætast er forvitnilegt að vita hvað gerist þegar bardaginn fer í gólfið. Colby Covington hefur verið að vinna sig hratt upp en sigur á Dong Hyun Kim í hans síðasta bardaga opnuðu augu margra. Hvort hann geti gert það sama við sjálfan Demian Maia verður að koma í ljós.

Spá: Colby reynir og mistekst. Maia tekur hann í kennslustund og sigrar örugglega með „rear-naked choke“ í annarri lotu.

1. UFC 216, 7. október – Tony Ferguson gegn Kevin Lee (léttvigt)

Við vildum öll sjá Tony Ferguson berjast við Khabib Nurmagomedov en þessi bardagi er engu að síður mjög heillandi. Kevin Lee er á góðri leið með að verða stjarna í UFC og sigur í þessum bardaga yrði hrikalega mikilvægur fyrir hann. Ferguson hefur hins vegar unnið níu bardaga í röð og mun ekki gefa þumlung eftir.

Spá: Þetta verður hörku slagur en Ferguson mun taka þetta á reynslunni og sigra á stigum.

spot_img
spot_img
spot_img
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular