Monday, May 20, 2024
HomeErlent10 áhugaverðustu MMA bardagarnir í september 2017

10 áhugaverðustu MMA bardagarnir í september 2017

Ágúst snérist fyrst og fremst um bardaga Conor McGregor og Floyd Mayweather. Á meðan var MMA heimurinn meira og minna í biðstöðu. September kemur okkur hins vegar aftur á beinu brautina með fjórum UFC kvöldum og ansi góðu Bellator kvöldi.


10. UFC Fight Night 115, 2. september – Alexander Volkov gegn Stefan Struve (þungavigt)

Þessi slagsmál slánanna er aðalbardaginn annað kvöld í Hollandi og verður áhugavert að sjá þessa risa mætast í búrinu. Rússinn Volkov hefur litið vel út í UFC en Struve er reynslubolti þrátt fyrir ungan aldur. Þetta gæti orðið nokkuð jafnt.

Spá: Volkov er tæknilegri standandi, hann útboxar Struve og sigrar á stigum.


9. UFC Fight Night 117, 23. september – Maurício ‘Shogun’ Rua gegn Ovince Saint Preux (léttþungavigt)

Af einhverjum ástæðum þurfa þessir að mætast aftur en sennilega var bara enginn annar laus. Í bardaga þeirra árið 2014 tók það OSP aðeins 34 sekúndur að rota Shogun en það er ólíklegt að þau úrslit endurtaki sig. Shogun hefur nú sigrað þrjá andstæðinga í röð sem hefur ekki gerst síðan 2007. Nær hann að komast í gegnum hinn seiga Saint Preux?

Spá: OSP sigrar að þessu sinni með uppgjafartaki, segjum „arm-triangle“, lota 2.


8. Bellator 183, 23. september – Benson Henderson gegn Patricky Freire (léttvigt)

Eftir erfiða byrjun í Bellator fær Henderson andstæðing sem hann ætti að vinna og er með nafn. Með fullri virðingu er Patricky Pitbull verri Pitbull bróðirinn ef svo má segja og mun þessi bardagi segja okkur mikið um Henderson í dag. Pitbull vann reyndar Josh Thompson í hans síðasta bardaga og er alltaf með „puncher´s chance”.

Spá: Henderson sigrar á stigum, nokkuð örugglega.


7. UFC Fight Night 116, 16. september – Luke Rockhold gegn David Branch (millivigt)

Frekar skrítinn bardagi fyrir Luke Rockhold sem hreinlega nennti ekki að bíða lengur eftir betri andstæðingi. Við skulum þó vona að hann taki Branch alvarlega enda muna sennilega allir hvað gerðist síðast þegar hann var of öruggur með sig. Branch er kannski ekki mest spennandi náungi í heimi en hann hefur unnið 11 bardaga í röð, rotaði Yushin Okami og náði Jesse Taylor í “D´Arce” hengingu á sínum tíma.

Spá: Segjum að Rockhold geri það sem hann eigi að gera og sigri með tæknilegu rothöggi í þriðju lotu.

6. Bellator 183, 23. september – Paul Daley gegn Lorenz Larkin (veltivigt)

Frumraun Lorenz Larkin gegn Douglas Lima í júní fór ekki alveg eins og hann vonaðist eftir. Nú fær hann hins vegar mjög skemmtilegan andstæðing, rotarann Paul ‘Semtex’ Daley. Daley er alltaf hættulegur en virðist þó alltaf tapa fyrir þeim bestu, þó hann eigi gamla sigra gegn Jorge Masvidal og Martin Kampmann.

Spá: Þetta ætti að verða fjörugur standandi bardagi en að lokum mun Larkin reynast of hraður og tæknilegur. Larkin sigrar á stigum.


5. UFC 215, 9. september – Demetrious Johnson gegn Ray Borg (fluguvigt)

Nái D.J. að sigra Ray Borg verður það sögulegur sigur enda 11. titilvörn Johnson og nýtt met. Johnson þarf ekki að kynna en Borg er nánast alveg óþekktur. Satt að segja er Borg fyrst og fremst að fá þetta tækifæri út af lítilli samkeppni í fluguvigt. Hann hefur unnið tvo bardaga í röð, síðast gegn Jussier Formiga sem er mjög virtur. Borg er góður en býr hann yfir nógu öflugu vopnabúri til að stöðva ótrúlega sigurgöngu meistarans?

Spá: Stutt svar, nei. Johnson sigrar með uppgjafartaki í þriðju lotu, skjótum á armlás.


4. UFC 215, 9. september – Neil Magny gegn Rafael dos Anjos (veltivigt)

Þetta er hreinlega frábær bardagi í veltivigt. RDA leit vel út í sínum fyrsta bardaga í veltivigt í júní síðastliðnum og sigraði fyrrverandi Strikeforce meistarann Tarec Saffiedine. Næsta verkefni ætti að verða erfiðara en Magny, þó sífellt vanmetinn, hefur sigrað menn eins og Hector Lombard og Kelvin Gastelum. Þetta verður spennandi.

Spá: RDA notar mikla pressu og glímustyrk sinn til að sigra Magny á stigum.


3. UFC 215, 9. september – Jeremy Stephens gegn Gilbert Melendez (fjaðurvigt)

Þessi getur ekki klikkað. Báðir þessir jaxlar vilja standa fyrir framan andstæðing sinn og sveifla höndunum eins og loftræstingin sé biluð. Þetta er líklegur bardagi kvöldsins og auk þess mikilvægur bardagi í fjaðurvigt. Þetta verður frumraun Melendez í fjaðurvigt en hann einfaldlega verður að vinna enda búinn að tapa þremur bardögum í röð. Tap hér gæti markað endalok á UFC feril hans og mun Bellator fylgjast vel með.

Spá: Melendez er fjölhæfari bardagamaður og ætti að geta fundið leið til sigurs. Melendez sigrar á stigum.


2. UFC Fight Night 117, 23. september – Claudia Gadelha gegn Jessica Andrade (strávigt kvenna)

Þetta er mest spennandi kvennabardagi sem hægt er að setja saman þar sem ekki er barist um belti. Þessar tvær eru grjótharðar og sennilega næstbestu bardagakonurnar í strávigt kvenna. Spurningin er, hvor er betri?

Spá: Andrade er algjört skrímsli standandi svo Gadelha mun sennilega notast við glímuna. Gadelha sigrar með “rear-naked choke“ í 2. lotu.


1. UFC 215, 9. september – Amanda Nunes gegn Valentina Shevchenko (bantamvigt kvenna)

Þessar tvær mættust fyrst á UFC 196 þar sem Amanda Nunes sigraði á stigum í nokkuð jöfnum bardaga þar sem Shevchenko virtist vera að komast á skrið í síðustu lotu í þriggja lotu bardaga. Þær áttu svo að berjast aftur á UFC 213 en Nunes varð eitthvað lasin svo bardaganum var frestað. Nú fáum við loksins að sjá hvor þessara kjarnakvenna er betri.

Spá: Báðar virðast hafa bætt sig síðan þær mættust síðast en ég ætla að taka sénsinn á Shevchenko. Hún sigrar á stigum, þrjár lotur gegn tveimur á spjöldum dómaranna.

RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular