Saturday, April 20, 2024
HomeErlent10 áhugverðustu MMA bardagarnir í janúar 2021

10 áhugverðustu MMA bardagarnir í janúar 2021

Það er komið nýtt ár, nýr mánuður og nýr listi. Janúar mánuður fer rólega af stað en svo fer allt á fullt með stóru bardagakvöldi.

UFC er með þrjú bardagakvöld í mánuðinum og ONE Championship eitt en Bellator ekki neitt. Bellator hefur ekki opinberað dagskrána sína á þessu ári enn sem komið er en við skulum kíkja á þá 10 áhugaverðustu.

10. Julianna Pena gegn Sara McMann (UFC 257, 23. janúar)

Fyrir nokkrum árum hefði þetta verið gríðarlega mikilvægur bardagi fyrir bantamvigt kvenna. Þær hafa þó báðar tapað lykilbardögum á síðustu árum sem hafa sett þær aftar í röðina. Þær eru ennþá á topp 10 í flokki sem á erfitt með að finna verðuga áskorendur fyrir meistarann Amanda Nunes. Pena hefur valdið vonbrigðum á síðustu árum en hefur ennþá tíma til að gera alvöru atlögu að beltinu.

Spá: Báðar eiga það til að missa frá sér unna bardaga en Pena nær sigrinum að þessu sinni eftir dómaraákvörðun.

9. Jessica Eye gegn Joanne Calderwood (UFC 257, 23. janúar)

Hér mætast keppendur sem eru á sitt hvorum endanum á vinsældalistanum hjá aðdáendum. Það er óhætt að segja að Jessica Eye sé frekar óvinsæl hjá bardagaaðdáendum en hún hefur unnið þessa lykilbardaga sem hafa skilað henni titilbardaga. Joanne Calderwood er vinsæl en hefur aftur á móti verið að klikka í mikilvægum bardögum.

Spá: Eye er ekki sú tæknilegasta en nær oft að kreista fram sigrinum eftir dómaraákvörðun og gerir það aftur hér.

8. Carlos Condit gegn Matt Brown (UFC on ESPN: Chiesa vs. Magny, 20. janúar)

UFC hefur lengi reynt að setja þennan bardaga saman en án árangurs. Fyrst áttu þeir að berjast árið 2013 en Brown meiddist. UFC setti bardagann aftur saman fimm árum síðar og aftur meiddist Brown. Vonandi ná þeir loksins að mætast átta árum eftir að bardaginn var fyrst settur saman. Fyrir nokkrum árum hefði þetta verið risastór bardagi en báðir eru komnir af léttasta skeiði. Þetta ætti samt að verða skemmtilegur bardagi enda tvær goðsagnir.

Spá: Matt Brown er eldri en samt einhvern veginn aðeins ferskari. Brown vinnur eftir dómaraákvörðun.

7. Amanda Ribas gegn Marina Rodriguez (UFC 257, 23. janúar)

Amanda Ribas er framtíðar stjarna og mun pottþétt vera á topp 5 í náinni framtíð – gæti jafnvel orðið meistari. Hún er mjög fær standandi og í gólfinu en er auk þess með þennan stjörnusjarma sem gæti gert hana að stóru nafni. Hún mætir Marina Rodriguez í spennandi topp 10 bardaga í strávigt kvenna.

Spá: Rodriguez er öflug en Ribas klárar hana með uppgjafartaki í 2. lotu.

6. Santiago Ponzinibbio gegn Li Jingliang (UFC on ABC 1, 16. janúar)

Þessi bardagi er barátta augnpotarana. Ponzinibbio varð heimsfrægur fyrir augnpot sín gegn okkar manni og Li Jingliang tróð fingrum sínum í augu Jake Matthews hér um árið. Ponzinibbio hefur ekki barist í rúm 2 ár eftir sýkingarvandamál en var áður á barmi þess að fá titilbardaga. Þessi bardagi mun segja okkur mikið um hvar hann stendur eftir langa fjarveru.

Spá: Ponzinibbio verður ryðgaður til að byrja með en dettur í gang og nær rothögginu seint í 2. lotu.

5. Pedro Munhoz gegn Jimmie Rivera (UFC on ESPN: Chiesa vs. Magny, 20. janúar)

Þessir tveir mættust í nóvember 2015 þar sem Rivera vann eftir klofna dómaraákvörðun í jöfnum bardaga. Þeir eru 8. og 9. sæti á styrkleikalistanum og er óhætt að segja að hér mætast stálin stinn.

Spá: Munhoz hefur bætt sig mikið síðan fyrri bardaginn fór fram og vinnur að þessu sinni eftir dómaraákvörðun.

4. Michael Chiesa gegn Neil Magny (UFC on ESPN: Chiesa vs. Magny, 20. janúar)

Þessi verður mjög mikilvægur fyrir báða en báðir hafa unnið þrjá bardaga í röð og eru á topp 10 í veltivigtinni. Þetta ætti að verða mjög jafn og spennandi bardagi og erfitt að spá í spilin. Báðir eru langir, góðir glímumenn og hafa sennilega aldrei verið betri.

Spá: Chiesa hefur bætt sig mikið á síðustu árum og litið vel út í veltivigt. Þó Magny sé alltaf seigur mun Chiesa vinna eftir dómaraákvörðun í jöfnum bardaga.

3. Max Holloway gegn Calvin Kattar (UFC on ABC 1, 16. janúar)

Eftir tvö töp gegn ríkjandi meistara þarf Max Holloway að sætta sig við að vera ekki lengur í titilbardögum í bili. Þetta verður fyrsti bardaginn hans síðan 2016 þar sem ekkert belti verður undir. Hann leit þó mjög vel út í seinni bardaganum gegn Volkanovski og getur ennþá endurheimt beltið. Hann þarf fyrst að fara í gegnum Calvin Kattar sem hefur verið á frábæru skriði.

Spá: Max Holloway er ennþá einn af þeim allra bestu í heimi í fjaðurvigt og klárar Kattar með TKO í 4. lotu.

2. Dan Hooker gegn Michael Chandler (UFC 257, 23. janúar)

Loksins fékk Michael Chandler bardaga í UFC! Þessi verður algjör veisla og verður mjög áhugavert að sjá hvað fyrrum Bellator meistarinn getur gert í UFC. Dan Hooker hefur sýnt að hann er grjótharður og þurfa allir að taka á honum stóra sínum ef þeir ætla að fara í gegnum Hooker.

Spá: Chandler lendir í smá vandræðum en nær að landa sigrinum á Hooker eftir dómaraákvörðun.

1. Conor McGregor gegn Dustin Poirier (UFC 257, 23. janúar)

Þessi verður rosalegur! Einn besti bardagi sem UFC getur boðið upp enda kunna þessir tveir ekki að eiga leiðinlega bardaga. Það eru margar spurningar fyrir þennan bardaga: Hvor hefur bætt sig meira síðan þeir mættust fyrst? Er Conor ennþá í þessu af fullum krafti? Getur hakan hans Poirier staðið af sér höggin frá Conor í þetta sinn? Verður sigurvegarinn krýndur meistari?

Spá: Dustin er fáránlega góður en fær alltaf högg í sig. Conor slekkur á honum í 2. lotu.

Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular