Fimm Íslendingar munu keppa á NAGA glímumótinu sem fram fer í Dublin á morgun. Mótið er nokkuð stórt og verðlaunin ekki af verri endanum.
NAGA (North American Grappling Association) heldur glímumót um allan heim en á morgun halda þeir eitt slíkt í Dublin á Írlandi. Þar munu þeir Sigurvin Eðvarðsson, Eiður Sigurðsson, Þórhallur Ragnarsson, Pétur Óskar Þorkelsson og Einar Johnson allir keppa.
Aðeins er beltaskipt í gi-hluta mótsins en þeir Sigurvin, Þórhallur og Pétur keppa í flokki fjólublábeltinga en Eiður keppir í flokki brúnbeltinga og Einar í flokki blábeltinga. Allir keppa þeir fyrir hönd Mjölnis nema Einar sem er búsettur í Dublin og keppir fyrir hönd SBG.
Sigurvegararnir í flokkum fjólublábeltinga, brúnbeltinga og svartbeltinga fá glæsilegt belti í stað bikars. Mótið fer fram á laugardaginn og er keppt bæði í galla (gi) og án galla (nogi).