Árni Ísaksson er einn af reyndustu keppnismönnum Íslands í MMA. Hann hefur ekkert barist í tvö ár en við tókum gott spjall við hann þar sem við spurðum hann út í framtíðina, ferilinn, þjálfarahlutverkið og fleira.
Árni Ísaksson (12-5) var veltivigtarmeistari Cage Contender en tapaði titlinum til Ali Arish í febrúar 2013. Hann hefur ekkert barist síðan þá og eru margir sem velta þeirri spurningu fyrir sér hvort Árni muni snúa aftur í MMA. En er Árni Ísaksson hættur í MMA?
„Já, ég er hættur núna. Það er búið að vera rosalega erfitt að sleppa tökunum, að gefa drauminn upp á bátinn. Mig dreymdi um að vera atvinnumaður í MMA síðan ég var lítill krakki, 12 ára þá byrjaði draumurinn. Ég er búinn að lenda í slæmum meiðslum, fá þung höfuðhögg og ég er ennþá í góðu lagi í dag þannig að ég held að nú sé rétti tíminn til að hætta,“ segir Árni.
Árni er einn af þjálfurum Keppnisliðs Mjölnis og finnst mikilvægt að dreifa þekkingu sinni. „Ég fatta það alltaf meira og meira hvað það er mikilvægt að hjálpa ungu kynslóðinni sem er að koma upp. Ég er kominn með meiri ástríðu fyrir að þjálfa og það er rosalega erfitt að ætla að berjast og að þjálfa. Það virkar ekki fyrir mig þannig að ég þurfti að sleppa tökunum á endanum og hætta.“
Árni hefur alltaf haft mikla ástríðu fyrir MMA og dreymdi um að gerast atvinnumaður í MMA. Þó draumurinn hafi endað fyrr en hann ætlaði getur þessi 32 ára reynslubolti gengið sáttur frá borði. Það eru ekki allir sem ná að elta drauma sína.
„Mig dreymdi um að verða atvinnumaður í MMA síðan ég sá UFC 1. Þá ákvað ég að þetta var það sem ég vildi gera. Ég var aldrei góður í skóla, skóli virkaði ekki fyrir mig. Mér fannst ég vera settur í eitthvað box sem ég vildi ekki vera í. Ég var mjög virkur sem krakki þannig að MMA hentaði mér.“
Árni ætlaði að taka bardaga á næsta ári og sá fyrir sér að berjast í febrúar. „Það fyndna við það er að ég er að komast í fáranlega gott form þó ég sé að hætta. Ég hef aldrei verið jafn liðugur, aldrei verið jafn hraður þannig að mér fannst það fullkomið að fara að berjast aftur. Það var þó bara gamall draumur sem ég var að reyna að upplifa aftur. Þetta er svo stór draumur hjá mér, að keppa í MMA, en stundum er betra að sleppa draumnum á endanum.“
Árni stundar hugleiðslu og segir hann það hafa hjálpað sér að taka þessa erfiðu ákvörðun. „Hugleiðslan lætur mann sjá hlutina í skýrari ljósi. Ég er mjög þakklátur fyrir að hafa kynnst hugleiðslunni því ég hef alltaf verið með mikinn sársauka í hausnum á mér. Ég hef alltaf verið með svartsýnan haus og það er eitthvað sem ég hef verið að vinna í. Hugleiðslan hefur hjálpað mér að hreinsa mikið af draslinu úr hausnum á mér. Stundum þarf maður að ryksuga aðeins til að finna sig aftur.“
Aðspurður hvaðan þessar svarstýnu hugsanir koma segir hann þetta vera ákveðna skilyrðingu sem átt hefur stað. „Þegar maður var yngri gerðist kannski margt í fjölskyldunni og ég var mikið einn sem krakki. Ég bjó í sveit og hef alltaf verið mikið einn með sjálfum mér. Ég vissi ekki hvað lygi var þannig að ég trúði öllu. Fólk byrjaði að ljúga að mér alls konar hlutum og ég vissi ekki lengur hvað var rétt og hvað ekki. Ég hef oft fengið slæmar hugsanir sem ég vil kannski ekkert tala um en þetta er eitthvað sem hugleiðslan hefur hjálpað mér. Þegar þú leitar að innan sérðu hlutina í öðruvísi ljósi og hættir að velta hlutunum fyrir þér, hausinn er bara skýr í dag.“
Árni lenti í slæmum hnémeiðslum árið 2006 sem voru nálægt því að binda enda á ferilinn hans. „Læknarnir töldu mjög ólíklegt að ég myndi keppa í MMA aftur. Þeir sögðu að þetta væru alltof alvarleg meiðsli til að keppa í MMA, sérstaklega þar sem áhættan fyrir hnémeiðslum er mikil í MMA. Þetta var mjög erfitt tímabil í lífi mínu og mér fannst lífið bara vera búið. En þetta þroskar mann og sársauki er oft besti kennarinn. Ég komst samt í gegnum hnémeiðslin og það var frábært, ég gat keppt aftur í smá tíma. En stundum er þetta bara of mikið álag og eftir öll þessi meiðsli er ég bara ánægður með að hætta.“
„Ég hef líka verið í vandræðum með öxlina mína í langan tíma og ef ég myndi lenda aftur í þessum meiðslum eða hnémeiðslunum þá væri það svo stórt skref til baka. Þannig að þess vegna var bara betra að taka þá ákvörðun að hjálpa Keppnisliðinu og hætta að keppa sjálfur. Ég held mér í góðu formi, elska að æfa sjálfur og mun aldrei hætta því,“ segir Árni af einlægni.
Þetta er aðeins fyrri hluti viðtals okkar við Árna. Seinni hlutinn kemur á morgun þar sem Árni talar um upphafið á ferlinum, breyttar áherslur á æfingum og kemur með góð ráð handa þeim sem vilja stunda MMA.